ÍÞRÓTTIR UNGLINGA / HANDKNATTLEIKUR Gróttastrákarnir bundu enda á sigurgöngu Vals Tvöfalt hjá Gróttu í fimmta flokki GRÓTTA varð meistari á Íslandsbankamótinu í fimmta flokki drengja með sigri á Val 16:15 í æsispennandi úrslitaleik liðanna í Íþróttahúsinu...

ÍÞRÓTTIR UNGLINGA / HANDKNATTLEIKUR Gróttastrákarnir bundu enda á sigurgöngu Vals Tvöfalt hjá Gróttu í fimmta flokki

GRÓTTA varð meistari á Íslandsbankamótinu í fimmta flokki drengja með sigri á Val 16:15 í æsispennandi úrslitaleik liðanna í Íþróttahúsinu við Austurberg á sunnudaginn. Leikurinn er sá fyrsti sem Valsstrákarnir tapa í þessum aldursflokki í vetur en úrslit leiksins réðust ekki fyrr en eftir framlengingu og bráðabana.

afnt var eftir hefðbundinn leiktíma 14:14 og bæði liðin skoruðu eitt mark þegar framlengt var um fimm mínútur. Þá var gripið til bráðabana til að skera úr um sigur og var leikið þar til annað liðið skoraði. Valsmenn unnu hlutkestið en áttu skot í stöng í sókn sinni. Gróttumenn geystust í sókn og Halldór Ólafsson, hornamaðurinn vinstra megin smeygði sér inn úr horninu og skoraði sigurmarkið og fögnuður Seltirninga var mikill og Halldór fékk flugferð að launum frá félögum sínum.

Valsmenn voru hins vegar sterkastir í bæði B- og C-

liðakeppninni. Valur sigraði FH 5:4 í úrslitaleik B-liðanna, sömu félög mættust hjá C-liðunum og urðu úrslit þar 11:9 Val í hag.

Eftir mótið um helgina sem er það þriðja í vetur liggur það fyrir hvaða átta lið leika í úrslitakeppninni. Stig eru gefin fyrir frammistöðu í mótunum og átta stigahæstu liðin hjá A-liðum eru eftirtalin: Valur (28), Grótta (24), Stjarnan (18), Víkingur og HK (10), Haukar (9), FH (8) og KR (6).

Mótið var í höndum ÍR og vegna mikils fjölda þurfti að leika í fjórum íþróttasölum í Breiðholtinu.

Grótta sterkust

Grótta varð reyndar tvöfaldur meistari um helgina því félagið sigraði hjá A-liðum í fimmta flokki kvenna en mótið fór fram í Víkinni. Í þriggja liða úrslitum sigraði Grótta FH 8:6, FH sigraði ÍBV 11:3 og jafnt varð 4:4 hjá Gróttu og ÍBV. Grótta stóð því uppi sem meistari A-liða en Stjarnan varð sigurvegari B-liða.

Eins og hjá drengjunum komast átta efstu liðin áfram í úrslitakeppnina og hjá A-liðunum eru það Grótta (26), Valur og FH (16), ÍBV (15), Stjarnan (14), ÍR (11), UMFA (7) og Fylkir (5).

Morgunblaðið/Frosti

Það var ekkert gefið eftir í úrslitaleik Íslandsbankamótsins á milli Gróttu og Vals. Viðar Reynisson á hér skot að marki en Valsmennirnir Markús Máni Mikaelsson og Fannar Þorbjörnsson verjast. Einar Sigurðsson úr Gróttu bíður átekta.

Stjarnan tryggði sér sigur í fimmta flokki kvenna hjá b-liðum með því að gera 1:1 jafntefli við Val í lokaleiknum.