Eru skattarnir hemill á vinnuframlag fólks? Hefur augljós og dulin skattheimta þau áhrif að fjöldi manna geti gengið út frá því sem vísu að halda aðeins eftir fjórðungi launa af hverri viðbótar vinnustund? Dregur skattheimta af þessu tagi úr...

Eru skattarnir hemill á vinnuframlag fólks? Hefur augljós og dulin skattheimta þau áhrif að fjöldi manna geti gengið út frá því sem vísu að halda aðeins eftir fjórðungi launa af hverri viðbótar vinnustund? Dregur skattheimta af þessu tagi úr vinnuframlagi, verðmætasköpun og þar með lífskjörum í landinu? Þórarinn V. Þórarinsson fjallar um þetta efni í forystugrein "Af vettvangi", fréttablaðs Vinnuveitendasambands Íslands (1. tbl. 1994).

Skatturinn gleypir helft launanna

Þórarinn V. Þórarinsson fjallar fyrst - í forystugrein Fréttablaðs VSÍ - um þróun skattheimtunnar frá því staðgreiðslukerfi skatta var upp tekið. Hann segir:

"Vilji manna til að vinna og afla tekna ræðst fyrst og fremst af því hvaða ávinningur er af auknu erfiði. Skattheimtan hefur því mikil áhrif á viljann til að afla viðbótartekna, einkum hinn sýnilegi hluti skattheimtunnar, sá sem sést á launaseðlum.

Við upphaf staðgreiðslu skatta var skatthlutfallið 35,2% og persónuafsláttur miðað við núverandi verðlag kr. 25.889. Nú er skatthlutfallið 41,84%, þar sem útsvar er miðað við lögbundið lágmark og persónuafslátturinn kr. 23.915. Þar til viðbótar kemur sérstakt viðbótarskattþrep, 5% á allar tekjur einstaklinga umfram 200.000 á mánuði. Greiðslur til lífeyrissjóðs eru lögbundnar og hafa þannig yfirbragð skatta. Að öllu samanlögðu er um eða yfir helmingur launa fyrir hverja viðbótar vinnustund hjá meginþorra vinnandi fólks dreginn af á launaseðlinum".

Dulin skattheimta tekur drjúga viðbót

Síðan víkur Þórarinn máli sínu að því sem hann kallar dulda skattheimtu, m.a. því formi skattheimtu sem kemur fram í tekjutengingu af margvíslegum toga:

"En meira kemur til því sífellt er aukið við tekjutengingu réttinda sem er annað form skattheimtu. Barnabótaauki, vaxtabætur og fyrirgreiðsla í húsnæðismálum minnka með hækkandi tekjum. Námslán endurgreiðast í hlutfalli við tekjur og opinber þjónusta af margvíslegum toga kostar mismikið, allt eftir tekjum þess sem þjónustuna fær. Þá eru bætur almannatryggingakerfis í vaxandi mæli tekjutengdar og þeir sem lagt hafa fyrir í lífeyrissjóði gjalda þess í formi lægra lífeyris almannatryggingakerfisins. Launabætur samkvæmt kjarasamningum eru af sama toga, - þær lækka með hækkandi tekjum.

Þetta er dulda skattheimtan, sú sem veldur því að stórir hópar fólks geta reiknað út með vissu að af hverri viðbótar vinnustund muni þeir aðeins fá í sinn hlut laun fyrir fjórðung stundar eða þaðan af minna. Hluti fari í skattinn en annar hluti og oft miklu stærri eyðist upp í lækkun bóta og hækkun gjalda af ýmsum toga."

"Versta form skattheimtunnar"

Undir lok greinar sinnar víkur Þórarinn að áhrifum skattheimtu af því tagi, sem hér viðgengst, á vinnuframlag fólks og þar með verðmætasköpun í landinu:

"Skattakerfið hefur því fleiri en eina vídd og þegar svo er komið að fjöldi fólks með miðlungstekjur og lægri sér naumast ávinning af aukinni tekjuöflun, þá er tímabært að staldra við.

Tekjutengingarfárið er eitt versta form skattheimtu sem völ er á. Það hafa meðal annarra Svíar fullreynt og kosta nú kapps um að grisja skattaskóginn.

Dulda skattheimtan fjötrar fólk í fátæktargildru, því ávinningur aukins erfiðis fellur öðrum í skaut. Þegar svo er komið að skattkerfið, í öllum sínum myndum, kemur í veg fyrir að fólk geti unnið sig út úr vandræðum sínum, þá er endurskoðunar sannarlega þörf. Þannig er staðan nú."

Þórarinn V. Þórarinsson