Skáldskaparspegill Tryggva V. Líndal: NÚ HEFUR Lesbók Morgunblaðsins birt ljóð eftir mig í tólf ár samfleytt, tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Er því líklegt að margir lesendur blaðsins vilji nú heyra nánar frá mér um hvað fyrir mér vakir í ljóðlistinni.

Skáldskaparspegill Tryggva V. Líndal:

NÚ HEFUR Lesbók Morgunblaðsins birt ljóð eftir mig í tólf ár samfleytt, tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Er því líklegt að margir lesendur blaðsins vilji nú heyra nánar frá mér um hvað fyrir mér vakir í ljóðlistinni.

Það hefur verið lærdómsríkt að skipta við ritstjórnarfltr. Lesbókar, Gísla Sigurðsson, þessi ár. Um þriðjungur ljóðanna sem ég hef sent honum hefur birst. Þegar ég hef seinna meir smalað þeim saman í bækur, hef ég orðið að viðurkenna að hann valdi oftar en ekki bitastæðustu ljóðin.

Bókmenntagagnrýnendur Morgunblaðsins hafa sömuleiðis farið um ljóðin mjúkum höndum, eða svo fannst mér fyrst í stað. Þannig þótti mér Erlendur Jónsson hitta naglann á höfuðið er hann skrifaði um ljóðabók mína Næturvörðinn (1989), að ég væri goðsagnaskáld, sem kæmi víða við í menningarsögunni. Eða þá Jenna Jensdóttir sem skrifaði um Trómet og fíól (1992), að ljóðin þar einkenndust af hárnákvæmri tilfinningasemi.

Þetta er ágreiningur um markmið, og skal ég skýra hann:

Það sem vakir fyrst og fremst fyrir mér með ljóðagerð, er að reyna að skapa listaverk; eitthvað sem er fagurt eða listrænt. Ég reyni að raða þannig hlutum saman að ég haldi að allir ljóðalesendur upplifi að verkið hafi þykka listræna áferð, líkt og í málverki eða tónlist. Verkið verður að þola minnst tvo lestra áður en það fer að losna upp í frumparta sína í huga lesandans.

Næst í forgangsröð hjá mér er að rækta tilfinningaleg sjónarhorn, og að nota hverskonar áhugavert efni annað; því fjölbreyttara og meira sláandi, því betra.

Það er upp og ofan hve skáld og aðrir listamenn hafa þetta hefðbundna fegurðarmarkmið á oddinum, en það var mér bæði lærdómsríkt og styrkjandi að sjá í safnritinu Ljóðaárbók 1988, að margir höfðu þetta að leiðarljósi, og sumir gerðu það betur ég.

Ef ég væri að skrifa ritdóm um eigin ljóð, hefði ég sagt meðal annars:

"Höfundur er fundvís á hið fagra. Megin tækni hans er að raða saman myndum. Fer áhrifamáttur þeirra að miklu leyti eftir því hversu óvænt og þétt þessi samröðun verður.

Einnig eru mikil áhrif frá hrynjandi ræðulistar og útfærsla á frösum úr mæltu máli. Þá má einnig greina áhrif frá mælskulist og heimspeki. Sjaldan er notast við rím af neinu tagi.

Viðfangsefni eru víða sótt í tíma og rúmi, svo sem vænta má af mannfræðimenntuðum manni.

Almennt má segja um gildismatið, að það er hefðbundið miðstéttargildismat að hætti vestrænna borgarbúa, frekar en venjulegt íslenskt gildismat.

Í lengri, prósakenndari ljóðum sínum minnir höfundur oft meira á bandaríska ljóðagerð en evrópska."

Af höfundum sem ég greini áhrif frá í verkum mínum má nefna eftirfarandi: Heinrich Böll, Garcia Lorca, Esra Pound, Voltaire, Jonathan Swift, Hóras, Lí Pó og Hómer. Ennfremur Matthías Johannessen, Gyrðir Elíasson, Halldór Laxness og Sturla Þórðarson.

Að lokum vil ég segja um Lesbók Morgunblaðsins sem ljóðavettvang, að það er eini vettvangurinn þar sem flestum landsmönnum gefst tækifæri til að lesa mörg ljóð eftir sama höfund.

TRYGGVI V. LÍNDAL,

Skeggjagötu 3,

Reykjavík.