Fólk Nýir starfsmenn til IceMac hf. GÍSLI Ásmundsson hefur verið ráðinn sem sölustjóri hjá IceMac fiskvinnsluvélum hf.

Fólk Nýir starfsmenn til IceMac hf.

GÍSLI Ásmundsson hefur verið ráðinn sem sölustjóri hjá IceMac fiskvinnsluvélum hf. Gísli mun aðallega sjá um sölu á notuðum og nýjum fiskvinnsluvélum á innanlandsmarkaði og samskipti við fiskverkendur og aðila í greininni. Gísli er 42ja ára gamall. Hann var verkstjóri hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum frá 1969 til 1972, og 1976 til 1979, hjá Ísfélagi Vestmannaeyja 1972 til 1975, Fiskiðjusamlagi Húsavíkur 1980 til 1983 og frystihúsi FIVE í Vestmannaeyjum 1983 til 1987. Gísli starfaði sem markaðsstjóri hjá eignaleigunni Lind hf. frá 1987 til 1990. Frá árinu 1990 hefur Gísli starfað sem matsmaður á frystitogurum. Gísli er ókvæntur og á tvo syni.

MAGNÚS Grímsson Víkingur hefur verið ráðinn sem þjónustustjóri hjá IceMac fiskvinnsluvélum hf. Hann mun sjá um sölu, viðgerðir og þjónustu vegna fiskvinnsluvéla. Magnús hefur stundað ýmis störf bæði til sjós og lands allt frá því að vera sjómaður í Þorlákshöfn, til þess að vera bóndi í innstu dölum Árnessýslu. Magnús starfaði um árabil hjá Málningu hf. við þróun á framleiðslutímum og viðhald framleiðslutækja. Undanfarin sex ár hefur Magnús stundað sjálfstæða verktöku, mest við byggingaframkvæmdir. Magnús er 43 ára og á tvö börn. Sambýliskona Magnúsar er Inga Dís Geirsdóttir viðskiptafræðingur.

SIGURÐUR Ingólfsson hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri nýstofnaðrar sölu og markaðsskrifstofu IceMac hf. í Austur-Rússlandi með aðsetur í borginni Petropavlovsk á Kamtsjatka. Skrifstofan verður rekin út þetta ár til reynslu. Hún mun sjá um sölu og kynningu á heildarlausnum IceMac hf. í fiskvinnslu með færanlegum vinnsluhúsum, og einnig um framgang þeirra viðskiptasamninga sem IceMac hf. hefur þegar gert á Kamtsjatka. Þá er jafnframt fyrirhugað að skrifstofan sjái um sölu og markaðssetningu fyrir nokkur íslensk fyrirtæki í rekstrarvörum og tæki og vélbúnaði fyrir sjávarútveg.

Sigurður hefur til að byrja með aðsetur á skrifstofu IceMac hf. í Reykjavík og vinnur þar ásamt öðrum stjórnendum og starfsliði IceMac hf. að undirbúningsvinnu. Hann mun síðan halda til Kamtsjatka í næsta mánuði þegar skrifstofan mun formlega taka til starfa. Sigurður er fæddur í Reykjavík 25. janúar 1961. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981 og lagði stund á heimspeki og stærðfræði við HÍ 1982­1986. Árin 1986­1988 nam hann franskar bókmenntir við háskóla í Savoie og París (VIII) og lauk maitrise-prófi frá þeim síðarnefnda. Frá árinu 1990 hefur Sigurður verið búsettur í Rússlandi, fyrst í Moskvu, þar sem hann nam rússnesku og rússneskar bókmenntir við Ríkisháskólann þar í borg. Hann hefur starfað að viðskiptamálum í Rússlandi síðan 1992, m.a. fyrir Ruric Ltd., sem er í íslenskri eigu, rússnesku fyrirtækjasamsteypuna Natta Group og Twin World Trading Co., sem er í eigu breskra aðila. Síðari helming ársins 1993, vann hann í Petropavlovsk fyrir Tamara Ltd., sem er samáhættufyrirtæki íslenskra og rússneskra aðila.

Gísli

Magnús

Sigurður