Tryggingar Höfum burði til að mæta erlendri samkeppni Rætt við Axel Gíslason, forstjóra Vátryggingafélags Íslands, og Inga R. Helgason, stjórnarformann, um tryggingamarkaðinn, erlenda samkeppni, afkomu félagsins o.fl.

Tryggingar Höfum burði til að mæta erlendri samkeppni Rætt við Axel Gíslason, forstjóra Vátryggingafélags Íslands, og Inga R. Helgason, stjórnarformann, um tryggingamarkaðinn, erlenda samkeppni, afkomu félagsins o.fl.

VÁTRYGGINGAFÉLAG Íslands átti á brattann að sækja fyrst í stað eftir að félagið var stofnað árið 1989. Mikil umferðartjón og tapaðar skuldir íþyngdu afkomunni mjög þannig að um 160 milljóna tap varð af starfseminni árið 1990. Þessari þróun hefur nú verið snúið við og varð ágæt afkoma á árinu 1992. Þá er útlit fyrir ágæta afkomu á árinu 1993 þannig að þetta stærsta tryggingafélag Íslands telur sig nú vel í stakk búið til að mæta aukinni erlendri samkeppni.

Um mitt þetta ár verður Evrópska efnahagssvæðið einn tryggingamarkaður og er því spáð að tryggingafélögum í Evrópu muni fækka verulega á næstu árum eftir því sem samkeppnin harðnar. Þeir Ingi R. Helgason, stjórnarformaður VÍS, og Axel Gíslason, forstjóri, ræða hér í viðtali um hvernig til hefur tekist hjá félaginu sl. fimm ár og horfurnar á íslenska tryggingamarkaðnum. Þeir voru fyrst spurðir hvaða árangur hefði náðst í kjölfar sameiningarinnar árið 1989.

"Á árinu 1989 varð mikil breyting á vátryggingamarkaðnum þannig að í stað fjögurra félaga verða tvö stór," segir Ingi R. Helgason. "Þessi sameining átti sér þær orsakir að kostnaðarstigið hjá félögunum eins og það var gagnvart iðgjöldum og tjónum dugði ekki lengur. Sameiningin var nauðsyn á þeim tíma. Þegar við sameinuðumst vorum við með mjög hátt kostnaðarstig og okkar fyrsta keppikefli var að koma kostnaðarstiginu niður. Við breyttum rekstrinum verulega í hagræðingarskyni og höfum náð þeim árangri sem að var stefnt. Við vildum einnig stofna verulega myndugt vátryggingafélag með tilliti til nýjunga á markaðnum þ.e. aukinnar og bættrar þjónustu við hinn tryggða. Í upphafi áttum við langa umræðufundi um hvaða markmið við ættum að setja okkur í þeim efnum o.s.frv. Ég get fullyrt að okkur hefur tekist vel upp hér. Af þessum fimm árum voru hér mjög hörð ár 1990­1991. Við liðum fyrir þá kreppu sem var í atvinnulífinu og það er engum blöðum um það að fletta að fyrstu 3 árin voru erfið í rekstri. Iðgjöldin dugðu ekki fyrir tjónum og við urðum fyrir miklu tapi vegna skulda tryggingatakanna."

Útlit fyrir ágæta afkomu 1993

Á síðustu tveimur árum hefur orðið verulegur bati á afkomu VÍS eins og raunar annarra vátryggingafélaga. Hefur félaginu tekist að vinna upp tapið á fyrstu starfsárunum. Árið 1992 var hagnaður VÍS liðlega 70 milljónir króna og er útlit fyrir að afkoman verði ekki lakari á þessu ári. "Á þessum tveimur árum hafa tjón ekki aukist eins og áður. Minni tjón í ökutækjatryggingum má skýra t.d. með því að fólk ekur minna en áður og tjónin eru annars eðlis. Lítil þensla hefur verið í varahlutasölu og viðgerðarþjónustu. Þessi þróun hefur gert það að verkum að við teljum núna á fimm ára afmælinu að markmið okkar hafa náðst fram," sagði Ingi.

Axel bendir á að árið 1989 hefði verið fyrirséð að aðstæður myndu breytast í Evrópu. "Það var nauðsynlegt fyrir okkur að horfa á það að krafan um það að verða samkeppnisfær á innlenda markaðnum breyttist í kröfu um að verða samkeppnisfær á einum Evrópumarkaði þegar hann opnaði," sagði hann. "Þess vegna þurfi félagið að mæta kröfu um lækkun kostnaðar og verða nægilega efnahagslega sterkt til að uppfylla kröfur um gjaldþol og greiðsluhæfi sem yrðu gerðar til félaganna. Þetta hefur tekist og félagið er mun sterkara efnahagslega en var áður. Hlutfall iðgjalda félagsins sem fer til að greiða kostnað af rekstri hefur lækkað um 30%. Samkeppnin hér og aðgerðir félaganna hefur leitt til þess að kostnaðarstig íslensku félaganna er orðið lægra en hliðstæðra félaga á Norðurlöndum."

Meiri vernd en óbreytt iðgjöld

­ Hvernig munu viðskiptavinir ykkur njóta góðs af bættri afkomu og styrkari fjárhagstöðu félagsins?

"Samhliða lækkandi kostnaði hefur farið fram talsvert mikið þróunar- og nýsköpunarstarf og breytingar hafa verið gerðar á mjög mörgum tryggingategundum," segir Axel. "Áhrifin hafa komið fram í því að við höfum getað veitt betri vátryggingarvernd fyrir sömu iðgjöld sem við annars hefðum þurft að taka hærri iðgjöld fyrir. Við höfum verið að færa út bótasviðið og veita meiri vernd fyrir sömu iðgjöld þannig að í reynd hafa þau lækkað. Í mjög mörgum greinum hefur ekki þurft neinar hækkanir allan þennan tíma umfram almennar verðlagsbreytingar. Hins vegar hafa orðið miklar hækkanir á sumum greinum ökutækjatrygginga, sérstaklega í slysatryggingum, vegna mjög mikilla tjóna. Á þessum greinum var gífurlega mikið tap á árinu 1989 og iðgjöldin voru hækkuð í samræmi við það."

­ Nú hafa vátryggingafélögin boðað frekari hækkanir á ökutækjatryggingum í byrjun þessa árs.

"Breytingar voru gerðar á lögunum um almannatryggingar þar sem bætur vegna tjóna ökumanns og eiganda voru felldar niður og vátryggingafélögunum var gert að taka við því bótasviði. Iðgjaldahækkunin er af þeim ástæðum og er hún að meðaltali 2.400 kr. á ökutæki eða sama fjárhæð og Tryggingastofnunin innheimti á síðasta ári."

400 m.kr. lagðar til hliðar vegna tapaðra krafna

Þetta ár hefur farið betur af stað hvað umferðartjónin snertir hjá VÍS en árið 1992. "Vátryggingar eru hins vegar eins og fjárhættuspil með öfugum formerkjum þannig að það er ekki hægt að spá fyrir um afkomuna. Það skipti sköpum fyrir okkur á árunum 1992­1993 að það urðu engin stór brunatjón. Árin 1990­1991 urðum við hins vegar fyrir tveimur stórum tjónum sem voru Réttarhálsbruninn og bruni Krossanesverksmiðjunnar," segir Ingi.

Axel bendir einnig á óvissuna í þjóðfélaginu og þróun efnahagsmálana. "Við sjáum reyndar hvernig vaxta- og verðbólguþróunin verður á árinu. Hins vegar er mjög mikil spurning hvaða áhrif slakt atvinnustig hefur á viðskipti eins og tryggingar. Ef horft er til baka á árið 1993 verður að segja það að sá samdráttur sem við áttum von á hefur ekki orðið. Reyndin er sú að þegar að herðir þola menn ennþá síður að vera illa eða ekki tryggðir. Einnig hefur innheimtustarfið skilað sér betur en við áttum von á og innheimtuhlutfallið hefur lagast heldur miðað við árið 1992.

Tap vegna gjaldþrota og greiðsluerfiðleika hefur hins vegar kostað okkur heilmikið á undanförnum árum. Á síðustu þremur árum höfum við lagt til hliðar um 400 milljónir króna í þessu skyni og það verður framhald á því á árinu 1994. Við eigum í viðskiptum við fólk og fyrirtæki í öllum greinum atvinnulífsins um allt land þannig að allir erfiðleikar t.d. í sjávarútvegi koma fram í viðskiptum við okkur og sama gildir um aðrar atvinnugreinar.

Það er jafnframt áhyggjuefni hversu margir einstaklingar og fyrirtæki eru með of lítið af tryggingum eins og komið hefur fram. Það er mjög lítið um slysatryggingar hjá fólki og alltof lítið um líftryggingar. Á Íslandi er áberandi minnst um líftryggingar af öllum Norðurlöndunum."

Stöndumst erlendum félögum betur snúning

1. júlí nk. verður Evrópska efnahagssvæðið einn tryggingamarkaður og er því spáð að félögum muni fækka verulega með harðnandi samkeppni. Þeir Axel og Ingi voru spurðir hvort þeir ættu von á mikilli samkeppni af hálfu erlendra félaga hér á landi til viðbótar við það sem nú þekkist.

"Miðað við gildandi lög um vátryggingastarfsemi á Íslandi þá áttu erlend félög tiltölulega greiðan aðgang að því að setja hér upp starfsstöð og fá leyfi til að keppa við okkur. Í raun og veru er vátryggingastarfsemi mjög alþjóðleg atvinnugrein. Hugsanlega verður samkeppnin meiri í kjölfar EES-samningins en nú höfum við burði til að standast erlendum félögum snúning," sagði Ingi.

"Iðgjöldin eru auðvitað ákveðin í samræmi við tjónareynsluna og meginhluti þeirra fer í að greiða tjónakostnaðinn," bætir Axel við. "Síðan fer nokkur hluti í að greiða kostnað og einhver lítill hluti í hagnað. Erlendir aðilar sem hingað koma verða að greiða jafn mikinn tjónakostnað og við og þeir hafa væntanlega ekki lægri arðsemiskröfu en við. Það verður ekki gengið mikið lengra í þá átt að lækka kostnað en fyrst og fremst verða aðgerðir sem geta orðið til að lækka tjón til að lækka iðgjöldin."

­ Hafið þið orðið varir við að Íslendingar séu að þreifa fyrir sér erlendis með tryggingar?

"Þetta hefur ekki komið í ljós ennþá," svarar Axel. "Þegar að því kemur munu menn horfa á samhengi iðgjaldanna og þjónustunnar. Við leggjum þess vegna mjög mikla áherslu á að veita okkar viðskiptavinum okkar góða þjónustu. Þekking okkar á tryggingalegum þörfum Íslendinga er meiri en erlendu félögin hafa og þess vegna höfum betri möguleika á að veita góða þjónustu. Erlendu félögin þurfa að koma með eitthvað nýtt inn í myndina ef þau vilja bjóða lægri iðgjöld.

Þess ber þó að geta að hluti af þessum breytingum og breyttu lagalegu umhverfi er það að eftirlit með vátryggingastarfsemi mun breytast. Eftirlitið hefur alfarið verið í höndum Tryggingaeftirlitsins hér á landi. Eftir 1. júlí nk. mun Tryggingaeftirlitið eingöngu hafa eftirlit með félögum sem hafa starfsleyfi hér á landi en ekki með félögum sem hafa starfsleyfi í öðrum löndum efnahagssvæðisins. Það verður erfiðara að sjá í gegnum það hvort erlend félög séu með rétta verðlagningu eða undirboð."

Miklar eignir í innlendum verðbréfum

Sjóðir VÍS hafa að miklu leyti verið ávaxtaðir í íslenskum verðbréfum en að nokkru leyti í erlendum eignum á móti skuldbindingum félagsins erlendis. Þeir Axel og Ingi segja að ekki sé óeðlilegt að með vaxandi hlutabréfamarkaði eigi fjárfesting sér stað í hlutabréfum í ríkari mæli en áður. Sömuleiðis beinist athyglin að ávöxtunarkostum erlendis sem tryggingafélög hafa haft mikla möguleika á að nýta sér. "Við kaupum erlendar endurtryggingar fyrir um 800 milljónir á ári og eigum erlendar eignir á móti skuldbindingum vegna þeirra. Þar að auki höfum við átt og komum til með að auka eitthvað lítillega nettóeign í erlendum gjaldmiðlum til að dreifa áhættunni. Það er full þörf á því fyrir vátryggingafélög og aðra fjárfesta á Íslandi að dreifa fjárfestingaráhættunni á fleiri staði," segir Axel.

­ Það vakti athygli þegar VÍS keypti hlutabréf í Samskipum fyrir 24 milljónir króna. Hvaða rök lágu að baki þeirri fjárfestingu?

"Þessi fjárfesting byggði á arðsemislíkum er fram komu í hlutafjárútboði sem unnið var af virtu verðbréfafyrirtæki. Því miður reyndust þær áætlanir sem þar voru kynntar ekki réttar. Þetta hlutafjárútboð og síðari framvinda mála hjá þessu félagi undirstrikar nauðsyn þess að dreifa áhættunni til fjárfestingar í atvinnulífinu."

Tryggingatakarnir stærstu eigendur VÍS

Langstærstu eigendur VÍS eru Brunabótafélag Íslands með 44% hlut og Samvinnutryggingar gt. með 23%. Aðrir hluthafar eru Olíufélagið, Samvinnusjóður Íslands og Samvinnulífeyrissjóðurinn sem eignuðust hlut í félaginu árið 1990 þegar hlutafé var aukið um 160 milljónir. Þeir Axel og Ingi segja aðspurðir að Brunabótafélagið og Samvinnutryggingar séu í eigu tryggingatakanna, bæði þeirra sem nú kaupa brunatryggingar af félögunum og eldri viðskiptavina. "Í gagnkvæmu félagi eru tryggingatakarnir sameigendur félagsins og um það höfum við skýr dæmi erlendis. Gagnkvæm félög eru ekki mynduð af framlagi manna eins og í hlutafélögum heldur af viðskiptunum. Þetta eignarhald er skilyrt á þann hátt að ef félaginu væri slitið yrði eignarhaldið virkt eftir að búið væri að greiða allar skuldir."

Þeir bæta því hins vegar við að sá möguleiki hafi verið ræddur að opna félagið fyrir nýjum hluthöfum en slíkt sé ekki tímasett ennþá.

KB

Morgunblaðið/Árni Sæberg

SAMKEPPNI - "Hugsanlega verður samkeppnin meiri í kjölfar EES-samningins en nú höfum við burði til að standast erlendum félögum snúning," segja þeir Ingi R. Helgason, stjórnarformaður VÍS og Axel Gíslason, forstjóri.