Verðbréf VÍB með 30 milljóna króna hagnað fyrir skatta HAGNAÐUR af rekstri Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka (VÍB) fyrir skatta var liðlega 30 milljónir samkvæmt bráðabirgðauppgjöri og er það næstbesta afkoma í sögu félagsins en árið 1990 var hagnaður fyrir...

Verðbréf VÍB með 30 milljóna króna hagnað fyrir skatta

HAGNAÐUR af rekstri Verðbréfamarkaðs Íslandsbanka (VÍB) fyrir skatta var liðlega 30 milljónir samkvæmt bráðabirgðauppgjöri og er það næstbesta afkoma í sögu félagsins en árið 1990 var hagnaður fyrir tekju- og eignarskatt 54 m. kr. Mikil aukning varð á helstu þáttum í starfseminni. Sala verðbréfa (þ.e. skuldabréfa og hlutabréfa) jókst í 27,5 milljarða árið 1993 úr 25 milljörðum árið áður eða um 10% og fjármunir í vörslu jukust í 8,5 milljarða í árslok 1993 úr 6,9 milljörðum árið áður eða um 25%. Hreinar rekstrartekjur VÍB voru 211 milljónum árið 1993 og rekstrargjöld námu um 180 milljónum. Eignir Verðbréfasjóða VÍB voru 3,2 milljarðar í árslok 1993.

Samkvæmt upplýsingum frá VÍB hækkaði markaðsverðmæti skráðra skuldabréfa á íslenska verðbréfamarkaðnum (spariskírteina, húsbréfa, bankabréfa o.s.frv.) úr 149 milljörðum í 189 milljarða á árinu eða um tæplega 27%. Ávöxtun þessara skuldabréfa var einnig með miklum ágætum og nam raunávöxtun þeirra að meðaltali 16,2% á mælikvarða skuldabréfavísitölu VÍB en hún tekur til allra helstu flokka skuldabréfa á innlendum markaði. Helsta skýringin á þessari háu ávöxtun skuldabréfa á árinu 1993 er lækkun markaðsvaxta í nóvember og desember sl. úr um 7% í 15% en lækkun vaxta hefur í för með sér hækkun á verðmæti skuldabréfa með föstum vöxtum (t.d. spariskírteina, húsbréfa o.þ.h.). Viðskipti með verðbréf sem tilkynnt voru Verðbréfaþingi Íslands námu alls 205 milljörðum árið 1993 og voru þar af viðskipti með skammtímabréf (ríkisvíxlar, ríkisbréf) um 123 milljarðar en viðskipti með lengri verðbréf um 82 milljarðar.

Viðskipti með hlutabréf voru þó fremur daufleg árið 1993. Meðalverð hlutabréfa lækkaði um 8% á árinu en markaðsverðmæti skráðra hlutabréfa stóð í stað og nam um 35 milljörðum króna. Markaðsverðmæti skráðra skuldabréfa og hlutabréfa samtals á innlendum markaði nam því um 224 milljörðum í lok ársins 1993. Heildarsala hlutabréfa hjá VÍB á árinu 1993 nam tæpum 1.600 milljónum.