Verðlaun Paul Krugman kvaðst ánægður með heiðurinn.
Verðlaun Paul Krugman kvaðst ánægður með heiðurinn. — Reuters
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is PAUL Krugman prófessor í hagfræði við Princeton-háskóla hlaut í gær Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Hann fékk verðlaunin fyrir rannsóknir sínar í alþjóðaviðskiptafræði og haglandafræði.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

PAUL Krugman prófessor í hagfræði við Princeton-háskóla hlaut í gær Nóbelsverðlaunin í hagfræði.

Hann fékk verðlaunin fyrir rannsóknir sínar í alþjóðaviðskiptafræði og haglandafræði. Krugman var eini verðlaunahafinn í þessum flokki í ár en frá árinu 2000 hafa fleiri skipt verðlaununum á milli sín.

„Krugman var meðal þeirra fyrstu sem komu auga á það að stærð landa skiptir miklu í viðskiptum og að samspilið milli stærðarinnar og ófullkominnar samkeppni, þ.e.a.s. tilhneigingar til fákeppni og einokunar, reyndist hafa óvæntar og skemmtilegar afleiðingar í þeirri alþjóðaviðskiptafræði sem fyrir var,“ segir Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor um Krugman.

Hann segist vera í góðu sambandi við Krugman en þeir unnu fyrst saman í Stokkhólmi, auk þess sem Krugman kenni í Princeton þar sem Þorvaldur var gistiprófessor í nokkur ár.

Áhrifamikill gagnrýnandi

Krugman hefur um langt skeið haldið úti reglulegum greinaskrifum í dagblaðinu New York Times þar sem hann hefur m.a. deilt hart á stefnu George W. Bush Bandaríkjaforseta í efnahagsmálum sem og á öðrum sviðum og hefur bent á hana sem meginforsendu þess efnahagshruns sem heimurinn standi nú frammi fyrir.

Þorvaldur segir að blaðaskrifin hafi kostað Krugman miklar fórnir þar sem hann hafi þurft að draga verulega úr rannsóknum sínum.

„Ég held að á engan sé hallað þó sagt sé að Krugman eigi meginþátt í því áliti sem Bush og ríkisstjórn hans nýtur nú um heiminn. Það gæti því mörgum þótt þungbært að maður sem hefur unnið það verk í hjáverkum skuli nú vera verðlaunaður fyrir fræðastörf sín,“ segir Þorvaldur. Hann segir það hafa verið tilhneigingu þeirra hagfræðinga sem séu ósammála Krugman á stjórnmálasviðinu að gera lítið úr fræðastörfum hans.

Paul Krugman er fæddur árið 1953. Hann hefur gegnt stöðu prófessors við Princeton-háskóla frá árinu 2000 auk þess að skrifa greinar í m.a. New York Times og Foreign Affairs. Hann hefur gefið út 20 bækur og yfir 200 fræðigreinar.

Óttinn nú á undanhaldi

„VIÐ horfum aðeins til vísindalega framlagsins,“ segir talsmaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar. Krugman sé verðlaunaður fyrir rannsóknir sínar en ekki framlag til stjórnmálaumræðunnar.

Krugman hefur harðlega gagnrýnt George W. Bush og Repúblikanaflokkinn í greinaskrifum sínum og bloggskrifum hjá New York Times . Þar hefur hann m.a. sagt afnám regluverks og efnahagsóstjórn ríkisstjórnarinnar helstu ástæður heimskreppunnar.

„Ég er aðeins minna óttasleginn en ég var síðastliðinn föstudag,“ sagði Krugman, inntur eftir heimsástandinu í gær. Hann hefur lýst yfir ánægju með þau skref sem stigin hafa verið í Evrópu til að stemma stigu við efnahagshruninu.