Sámur Dorrit með hundinum Sámi og í lopapeysu sem hún fékk að gjöf úr íslenskri sveit.
Sámur Dorrit með hundinum Sámi og í lopapeysu sem hún fékk að gjöf úr íslenskri sveit.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Pétur Blöndal |pebl@mbl.is Ljósmyndir Kristinn Ingvarsson | kring@mbl.is Hefurðu talað við forsetaskrifstofuna?“ er spurningin sem mætir mér frá Dorrit Moussaieff á Bessastöðum. Ég hristi höfuðið en hún tekur það ekki gilt.
Eftir Pétur Blöndal |pebl@mbl.is

Ljósmyndir Kristinn Ingvarsson | kring@mbl.is

Hefurðu talað við forsetaskrifstofuna?“ er spurningin sem mætir mér frá Dorrit Moussaieff á Bessastöðum. Ég hristi höfuðið en hún tekur það ekki gilt.

„Blessaður, taktu ekkert mark á þeim. Þú mátt spyrja mig að hverju sem er,“ segir hún brosandi. Þannig er Dorrit. Ekki fer á milli mála að hún fer sínar eigin leiðir og margir sem þekkja til þeirra hjóna, hennar og Ólafs Ragnars Grímssonar, hafa gaman af kerskninni á milli þeirra.

Nokkrum mínútum síðar situr hún fyrir með hundinum Sámi á grasflötinni við Bessastaði, kjassar hann og ærslast með honum. Hún klæðist einni af sínum mörgu lopapeysum eins og hún gerir við mörg tækifæri. Þegar þau koma inn aftur fær hún ekki orða bundist – og ljósmyndarinn verður að bíða.

„Ég veit að fólk hefur áhyggjur af starfi sínu og er órólegt, atburðarásin undanfarna daga hefur verið mörgum áfall en við þurfum að sækja styrkinn innra með okkur. Við eigum að þakka guði á hverjum degi fyrir það sem við höfum. Við munum sýna heiminum hversu fljótt við náum okkur á strik, það verður ekki auðvelt, en uppbyggingarstarfið þarf að hefjast. Einn lykillinn að því er ferðamennska. Allir ferðamenn sem koma til landsins þurfa að segja: „Vá! Maturinn er dásamlegur, loftið hreint, fólkið frábært, séð var um allar okkar þarfir, ef við veiktumst fengum við læknisaðstoð, ef við villtumst var okkur sagt til vegar, símtölum var svarað – og við keyptum fallega lopapeysu!“

Hún þagnar stutta stund.

„Þegar mamma var 15 ára rétt fyrir seinna stríð varð hún að flýja Austurríki og tók skíðin með sér til Sviss til þess að það liti út fyrir að hún væri að fara í skíðaferð. Hún ferðaðist ein til móðurbróður síns, því ekki mátti líta út fyrir að öll fjölskyldan væri að flýja. Síðan fylgdu foreldrar hennar á eftir og skildu allar eigur sínar eftir, þau höfðu búið í Vín og voru vel efnuð. Fjölskyldan fékk ekki dvalarleyfi í Sviss og fór þá til Ísraels. Þar var engin loftræsting og 40 stiga hiti, sem jafnvel ég þoli ekki, og er ég þó fædd þar. Landið var hálfgerð eyðimörk, malaría útbreidd og svo talaði móðir mín ekki orð í tungumálinu. Pabbi hennar lést ári síðar þannig að hún þurfti að sjá systur sinni og móður farborða. Þær lentu í sprengjuárásum og matur og lyf voru af skornum skammti. Slík skilyrði eru sem betur fer framandi Íslendingum. Hér þarf enginn að búa við hungur, ólæsi eða skort á lyfjum. Kannski eru á því örfáar undantekningar og við verðum að vera vakandi fyrir þeim – fólk má ekki detta í gegnum öryggisnetið.“

Hún þagnar. Ljósmyndarinn bíður þolinmóður.

„Þetta hafði bara safnast upp! Ég varð að vekja máls á þessu!“

Fellur ekki rokið

Svo hefst myndtakan á ný.

– Þú talaðir heldur ekki tungumálið þegar þú komst hingað í kuldann á norðurhjaranum.

„Því er nú ekki saman að jafna, íbúðirnar eru kyntar og mér er sama um kuldann. En mér fellur hinsvegar ekki rokið.“

– Er rokið svona mikið?

„Jafnvel Sámur tekur eftir því!“ svarar Dorrit undrandi.

– Er ekki bara rok á Bessastöðum?

„Kannski, ég hef sagt við Ólaf Ragnar að ég vilji gjarnan búa á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu.“

– Ertu viss um að hann hafi tekið eftir því, var hann ekki að byrja nýtt kjörtímabil?

„Hann tók eftir því,“ svarar Dorrit og kímir.

Svo lýkur myndatökunni og Dorrit gefst loks svigrúm til að setjast. „Og pönnukökur!“ segir hún hlýlega við Kristínu Ólafsdóttur ráðskonu sem færir okkur kaffið í bókastofuna. „Endilega fleiri pönnukökur! Mjög vel steiktar, pínulítið af sítrónu, pínulítið af appelsínu...“

„...og marmelaði,“ botnar Kristín.

– Hvernig líður Ólafi Ragnari?

„Honum líður mjög vel,“ svarar Dorrit. „Hann vinnur of mikið og svo hefur hann vanið sig á að borða fullmikið af pönnukökum sem eru íslenskar og ljúffengar,“ bætir hún við og hlær. „Hann fékk úrskurð um það fyrir nokkru að hann þyrfti að fara í hjartaþræðingu. Það gerðist áður en hrun varð á fjármálamarkaðnum og kom því ekkert við. En þetta var ósköp hefðbundin aðgerð, eins og kom fram í fjölmiðlum. Hann er heilsuhraustur og í mjög góðu formi.“

Bæði á gömlum bíl

Það vekur athygli blaðamanns að Dorrit talar íslensku ansi vel og grípur gjarnan til íslenskunnar í samræðum. Þegar ljósmyndarinn kveður gengur hún úr skugga um að honum sé fylgt til dyra. „Annars tekurðu vitið með þér úr húsinu!“

En hennar helsta eftirsjá er að hún tali íslenskuna ekki nógu vel. „Ég hef bara ekki haft tíma til að ná betri tökum á henni, þegar ég er hér á Íslandi, þá er ég á kafi í verkefnum og í London er ég í vinnu. Ég er alls ekki ánægð með hversu langan tíma íslenskunámið tekur.“

– En þetta er erfitt tungumál! Þú færð einmitt hrós fyrir að vera óhrædd við að tala íslensku og það opinberlega.

„Hvernig getur nokkur sleppt því að læra íslensku sem flytur hingað,“ spyr Dorrit blátt áfram. „Maður verður að skilja hvað fólk segir til þess að taka þátt í samræðunum.“

– Ummæli þín féllu vel í kramið hjá þjóðinni: „Stórasta land í heimi!“

„Þetta voru mjög slæm mismæli. En við verðum að sýna heiminum hversu stórt Ísland er. Nú er tækifærið! Höldum samt jarðtengingu og setjum ekki öll eggin í eina körfu. Þetta er svo ríkt land, af auðlindum og hæfileikum – öll þessi menntun. Og íslenska þjóðin hefur alltaf verið þolgóð í raunum. Það er of stutt liðið síðan forfeður okkar, foreldrar, afar og ömmur, áttu vart til hnífs og skeiðar, til þess að við höfum gleymt því.“

– Hvað er það í þínum bakgrunni sem veldur því að þú tengist Íslandi svona sterkum böndum?

„Ég veit það ekki,“ svarar hún. „Ég heillaðist bara af Íslandi, ég held að það hafi ekkert með bakgrunn minn að gera. Ég fann einhvern kraft augnablikið sem ég kom hingað. En ég verð að segja að Ísland fyrir tæpum áratug var öðruvísi en núna. Þjóðfélagið er orðið mun peningadrifnara og fólk er ekki eins meðvitað um arfleifð sína – það var svo ánægt með landið og stolt af sögu þjóðarinnar en gildin urðu óljósari og viku sumpart fyrir efnishyggjunni. Kannski er það augljósara þeim sem horfir gestsaugum á samfélagið. Alltof margir tóku peninga að láni til að kaupa hluti sem þeir þurftu ekki. Bíll þarf bara að vera á fjórum hjólum til að komast á milli staða og tilgangur úrs er að mæla tímann. Ég er reyndar í úrabransanum, þannig að ég ætti kannski ekki að segja þetta!“ segir hún og hlær.

„Ég hef lagt áherslu á það hér á Bessastöðum að endurnýta allt sem hægt er, litla hluti eins og álpappír, og stundum er gert grín að mér fyrir vikið. En það er engin ástæða til að sóa peningum. Og ég hef lagt áherslu á að matreiddir séu íslenskir réttir á Bessastöðum, það hefur verið gert síðan ég kom hingað og ég held að Íslendingar eigi að gera það sama. Til dæmis er oft boðið upp á svið í boðum. Annars eru það ekki aðeins Íslendingar sem hafa lifað um efni fram, heldur gildir það almennt um Vesturlandabúa. Það er nauðsynlegt að hverfa aftur að grunngildunum, sem skipta svo miklu máli í þessu afskekkta og harðbýla landi.“

Hún þagnar.

„Þegar ég hitti Ólaf Ragnar átti hann tíu ára gamlan bíl – alveg eins og ég. Og þegar við fórum saman á skíði var hann í tuttugu ára gömlum galla sem var skelfilega ljótur! Ég sagði honum að losa sig við hann. Og hann var á viðarskíðum! Í fullri alvöru, þá eiga þau heima á safni. Þetta fannst mér heillandi við hann og þá hélt ég að hann væri þverskurður af íslensku þjóðinni. Hann hélt raunar skíðunum, þangað til ég leigði ný handa honum, og hann fann að þau voru miklu betri. Ég þykist vita að til séu fleiri eins og hann,“ segir hún og brosir.

Allir vilja lopapeysu

Dorrit hefur veitt íslenskri menningu liðsinni með margvíslegum hætti, ekki aðeins komið á tengslum ytra, heldur er hún einnig verndari Eyrarrósarinnar, sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, og Hönnunarmiðstöðvar Íslands. „Ég held að mikil tækifæri felist í íslenskri hönnun; hún var alltof dýr áður en nú er verðið raunhæfara. Og ég held að við eigum hvergi að draga af okkur, heldur vekja athygli heimsins á þessum hæfileikaríku hönnuðum. Það gerum við með því að fá sem flesta ferðamenn til landsins, hönnun þarf að vera hluti af hringnum sem þeir fara, og með því að fá umfjöllun eins víða og hægt er. Einnig með því að fá nafntogað fólk til þess að koma til landsins og kynnast hönnuninni. Ég var gagnrýnd fyrir að bjóða Mörthu Stewart í heimsókn en hún á sér áhangendur um allan heim sem lesa tímaritin, horfa á þættina og lesa bloggið. Þetta er það sem við þurfum – eins marga slíka og við getum. Við þurfum að setja kraft í markaðssetninguna.“

– Er eitthvað einstakt við íslenska hönnun?

„Það er erfitt að lýsa heilli listgrein þannig en hér er mikið af hæfileikaríkum listamönnum. Ég nefni Ragnar Kjartansson, sem hefur náð miklum frama, ekki síst eftir að hann söng á listkaupstefnunni í Basel. Og við megum ekki missa móðinn, lífið heldur áfram og við erum engu betur sett ef hjól þjóðfélagsins stöðvast.“

Dorrit hefur í gegnum tíðina safnað íslensku handverki, ekki aðeins lopapeysum, heldur einnig skartgripum, vettlingum, sjölum og skóm svo fátt eitt sé nefnt. Og í sófanum í bókastofunni eru fallegir útsaumaðir púðar.

„Ég á tugi slíkra í London,“ segir hún brosandi. „Þeir eru allir íslenskir. Ég kaupi þá í Fríðu frænku og hvar sem ég finn þá. En nú á ég svo marga að þeir þurfa að vera virkilega sérstakir til þess að ég kaupi þá. Mér hafa líka verið gefnir púðar, sem eru einstaklega fallegir, og flesta hefur Ólafur Ragnar gefið mér í afmælisgjöf, stundum marga í einu.“

– Og þú safnar lopapeysum?

„Já, ég held mikið upp á lopapeysur. Það má klæðast þeim við öll tækifæri, bæði við gallabuxur og eins við hátíðleg tækifæri. Lopapeysur fara aldrei úr tísku! Ég hef fengið margar gefins sem fólk hefur prjónað handa mér. Og það eru virkilega fallegar lopapeysur í Farmers Market, þar eru mikil tækifæri til útflutnings. Allir vinir mínir hafa keypt lopapeysur og Martha Stewart keypti tíu þegar hún kom hingað.“

– En Íslendingar nota lopapeysur ekki spari?

„Ég veit um einn Íslending sem gerir það.“

– Nú?

„Ég.“

Hundurinn kemur stökkvandi til hennar.

„Sámur, sestu!“

Hún lítur á blaðamann.

„Þú þarft ekkert að vera hræddur við hundinn. Hann heitir Sámur og hann er mjög góður.“

Því er hvíslað að blaðamanni að nafnið á hundinum sæki hún í Njálu. Og þarf ekki að koma á óvart þegar litið er til þess að allt þjóðlegt er í hávegum haft á Bessastöðum. Það er forsetafrúin sem sér til þess. Og gjafirnar sem berast rykfalla ekki uppi í hillu. Eftir því er tekið að Dorrit klæðist þeim. „Auðvitað, mér finnst þær dásamlegar!“ segir hún undrandi á spurningunni. „Þær eru hver annarri fallegri og ég klæðist þeim jafnvel enn meira á ferðalögum og í Englandi en hér á landi.“

Og það gildir einnig um fundi þjóðhöfðingja.

„Þeir vilja allir eignast lopapeysu,“ segir hún brosandi. „En vandamálið er að ullin getur valdið kláða og ég er til dæmis alltaf í einhverju undir. En til eru lopapeysur sem eru ekki eins grófar, til dæmis í Farmers Market.“

– Hvernig líkar þér hlutverk þitt á Bessastöðum?

„Ég hef ekkert hlutverk. Þetta er ekki þannig. Hvaða hlutverk hef ég? Ef þú spyrð manninn minn þá er ég ekki sammála honum eina mínútu!“

Hún hlær innilega.

„Ég elska Ísland en hingað til hef ég getað unnið Íslandi meira gagn erlendis en hér heima. Ekki hefur verið eins mikil þörf fyrir mig hér, en ég hef samt lagt áherslu á að fá áhrifamikla útlendinga til landsins, einkum í markaðssetningu í hverri grein. Það er mér mikilvægt.“

Og tækifærin eru óþrjótandi sem Dorrit sér á Íslandi. „Ég talaði nýlega við yndislega konu, Katrínu Pétursdóttur, forstjóra Lýsis. Mér finnst að það eigi að selja lýsi um allan heim og ég ætla að reyna að stuðla að því. Fljótlegasta leiðin er sú að fá ferðamenn til landsins. Við verðum að nýta þær heimsóknir og þar er stærsti þátturinn greiðvikin og hröð þjónusta og framúrskarandi matreiðsla. Það er allt til staðar til að búa vel að ferðamönnum.“

Hún hugsar sig um.

„Ég má ekki gleyma hestamennsku! Það þarf að markaðssetja hana enn betur. Það jafnast ekkert á við að fara í reiðtúr á íslenskum hesti – helst í lopapeysu!“

Hún staldrar við.

„Ég á auðvitað ekki að tala um neitt af þessu,“ bætir hún við brosandi. „En ég vil ekki að fólk á Íslandi örvænti. Fyrst koma sjö slæm ár og svo sjö góð – þannig er gangur tilverunnar. Ég hef þrisvar gengið í gegnum svona tíma og þegar ég talaði við föður minn í gær sagðist hann hafa lifað svona tíma fimm sinnum.“

Svo stendur hún upp.

„Viltu meira að drekka, te eða kaffi?“

– Kaffi, takk.

Svo er hún rokin inn í eldhús til að biðja um kaffi og annan disk af pönnukökum!

– Þú ert óhrædd við að fara ótroðnar slóðir?

„Ótti er nokkuð sem ég þekki ekki og ég veit ekki hvað er hefðbundið – ég er bara ég. Ég verð að gera það sem ég tel rétt. Ef ég er gagnrýnd fyrir það þá tek ég því. Ég kann að hafa rangt fyrir mér en maður hlýtur að fylgja hjarta sínu. Eins og dæmið sýnir um Mörthu Stewart. Ef ég ætti hundrað slíkar væru þær hér í dag. Við þurfum á þeim að halda. Hún framdi afbrot en það breytir því ekki að hún getur fengið heilmiklu áorkað fyrir Ísland.“

– Þú dregur ekkert fjöður yfir að þið eruð ólík, þú og Ólafur Ragnar, og sumir segja raunar að þið séuð eins og svart og hvítt!

„Við eigum fátt sameiginlegt,“ segir Dorrit. „Við áttum eitt sameiginlegt þegar við kynntumst – við töluðum bæði ensku. Við borðuðum ekki einu sinni svipaðan mat.“

– En þið borðið bæði pönnukökur!

„Núna já, ég borðaði ekki pönnukökur þá. Og Ólafur Ragnar þoldi ekki dýr en ég vildi eignast hund. Núna elskar hann hundinn.“

Og hún víkur aftur máli sínu aftur að efnahagskreppunni:

„Íslendingar ættu að vita hvað þeir eru lánsamir. Það þarf ekki að horfa lengra en til Bandaríkjanna. Fólk sem ekki á peninga fær ekki inni á sjúkrahúsum ef það veikist og sumir krakkar eru ólæsir og óskrifandi af því að þeir fá ekki að ganga í skóla. Og þetta á að vera ríkasta land í heiminum. Fjármunirnir fara í að halda úti stríðsrekstri og fyrir vikið er ekkert öryggisnet fyrir borgarana. En á Íslandi eiga allir sameiginlega góða heilbrigðisþjónustu og menntun. Við verðum að horfa á heildarmyndina. Við höfum haft það gott síðustu árin en það sem sker úr um hve fólk hefur það gott er ekki hvað það á, heldur hvað það er, hvað það veit og hvað það gerir – hvernig manneskjur það er. Og við munum koma út úr þessari kreppu sterkari og betri en áður.“

Og Dorrit segir enn framtíð í íslenska bankakerfinu. „Í fyrsta lagi eiga bankar í Bandaríkjunum sér 250 ára sögu og á þeim tíma hafa ótal milljarðar tapast í gjaldþrotum. Það sama á við um Bretland, Frakkland og Holland. Við höfum komið okkur upp mikilli þekkingu á bankakerfinu og munum draga dýrmætan lærdóm af því hvað vöxtur án nægilegrar undirstöðu eða eftirlits getur leitt af sér. En það geta allir misstigið sig, jafnvel James Goldsmith var nokkrum sinnum á barmi gjaldþrots og byggði síðan upp viðskiptaveldi sitt. Og þrátt fyrir allt verður áfram betra að ala upp börn á Íslandi en í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fólk hefur ráð á skólagjöldum og þarf ekki að óttast um krakkana þó að þeir leiki sér úti.“

Síminn hringir. Það er Ólafur Ragnar.

„Þú munt ekki tala við mig í viku. Ég er ekki bara að tala um lopapeysur,“ segir Dorrit elskulega í símann.

„Hvað er ég að tala um? Ef þú vilt heyra það verðurðu að koma og hlusta.“

Svo brosir hún í símtólið.

Gustar af konunum

Dorrit er nýkomin frá London og missti af opnun Art Frieze-listkaupstefnunnar, en íslenskir listamenn eru þar í öndvegi, Kling og bang setti upp gamla Sirkus, barinn sem stóð við Klapparstíg. Til stóð að ungir listamenn sýndu verk sín í íbúð Dorritar í London, en þeirri sýningu var frestað vegna ástandsins í efnahagslífinu, henni til sárra vonbrigða.

„Ég veit að okkur er ekki vel við Bretana núna en við verðum að nýta þau tækifæri sem gefast. Listin er mikilvæg útflutningsgrein og við verðum að styðja við bakið á listamönnum. Það sem við fjárfestum í listum skilar sér aftur í þjóðarbúið. Hráefniskostnaður er hverfandi í listsköpun, það þarf bara að virkja hugvitið. “

Og Dorrit sækir líka skartgripi til þjóðarinnar. „Þetta er allt Hendrikka,“ segir hún um skartgripina sem hún ber í viðtalinu. „Hún er svo hæfileikarík. Sjáðu þetta!“ bætir hún við og sýnir blaðamanni armband. „En ég er svo heppin að ég á líka eigin skartgripi, sem ég nota meðfram, til þess að skapa andstæður. Það sem skiptir máli er að setja föt og fylgihluti saman á réttan hátt, það þarf ekki að vera nýtt eða dýrt. Pilsið sem ég er í er til dæmis 25 ára gamalt. Ég elska allt gamalt, það gefur lífinu svo mikla fyllingu.“

Dorrit heldur því til haga hver gefur henni hvað, skráir það og merkir flíkurnar og lítur alltaf vel út í lopapeysu. Og þetta er leið til að kynnast fólkinu í landinu. „Ég hef mikla ánægju af ferðalögum um landið, að tala við venjulega Íslendinga, þá finnur maður hvar rætur þjóðarinnar liggja. Efnishyggjan undanfarin ár er ekki raunverulegur heimur – hver þarf þetta allt? Ég hef hitt yndislegar konur úr öllum greinum þjóðlífsins og það gustar af þeim – styrkurinn er mun meiri en hjá körlunum.“

Síminn hringir aftur.

„Ólafur Ragnar er að jafna sig,“ segir hún elskulega við vinkonu sína. „Hann vann bara of mikið, var á stöðugum þeytingi heimshorna á milli. Og svo borðar hann allar þessar pönnukökur – við hverju býstu?“

Íslenska ullin

Tog og þel

Á vefsíðu Farmers Market má finna upplýsingar um íslensku ullina, en íslenska sauðkindin kom með land námsmönnum til Íslands fyrir rúmlega 1.100 árum og hefur ekki blandast sem neinu nemur öðrum sauðfjárkynjum:

„Því hefur íslenska sauðkindin haft góðan tíma til að þróa náttúrulega vörn gegn óblíðum náttúruöflum og óútreiknanlegri veðráttu landsins. Sérkenni íslenskrar ullar eru þau að hún skiptist í tvær hárgerðir, tog og þel, ásamt fjölbreyttum náttúrulegum litum. Togið er langt, fremur gróft, oft gljáandi og vatnsfráhrindandi. Þelið er stutt, fínt, mjúkt og einangrandi. Vegna þessara eiginleika hefur ullin nokkra sérstöðu miðað við erlenda ull.

Íslenska ullin er því sérstaklega ákjósanlegt, náttúrulegt hráefni í hlýjar, léttar og vatnsfráhrindandi flíkur sem henta hvort heldur sem er í útivist eða borgarlíf.“

Og með fylgja þvottaleiðbeiningar: „Þvoið flíkina einungis í höndum í ylvolgu vatni (30°C). Nuddið flíkina hvorki né vindið heldur kreistið úr henni vatnið. Að lokum má setja flíkina í þeytivindu í u.þ.b. ½ mínútu. Leggið flíkina til þerris og sléttið hana í viðeigandi mál. Athugið að oft er nóg að viðra ullarflík vel í stað þess að þvo hana.“

Hundurinn Sámur

„ Eigi verri til fylgdar en röskur maður“

Gunnar á Hlíðarenda fékk hundinn Sám að gjöf frá Ólafi Pá Höskuldssyni, sem hafði fengið hundinn að gjöf á Íslandi. Og lýsti Ólafur honum þannig, að hann væri „mikill og eigi verri til fylgdar en röskur maður. Það fylgir og að hann hefur mannsvit; hann mun og geyja að hverjum manni, þeim er hann veit, að óvinur þinn er, en aldrei að vinum þínum; sér hann og á hverjum manni, hvort honum er til þín vel eða illa; hann mun og lífið á leggja að verða þér trúr. Þessi hundur heitir Sámur.“

Á öðrum stað í Njálu segir um þennan ágæta hund:

„Mörður [Valgarðsson] segir, að þeir mundu eigi koma á óvart Gunnari, nema þeir tæki bónda þar á næsta bæ, er Þorkell hét, og léti hann fara nauðgan með sér að taka hundinn Sám og færi hann einn heim á bæinn.

Fóru þeir síðar austur til Hlíðarenda, en sendu menn að fara eftir Þórkatli, tóku hann og gerðu honum tvo kosti: Að þeir mundu drepa hann ella skyldi hann taka hundinn, en hann kaus heldur að leysa sitt og fór með þeim. Traðir voru fyrir ofan garðinn að Hlíðarenda, og námu þeir staðar með flokkinn. Þorkell bóndi gekk heim og lá rakkinn á húsum uppi, og teygir hann hundinn braut með sér í geilar nokkrar. Í því sér hundurinn, að þar eru menn fyrir, og hleypur á hann Þorkel upp og grípur í nárann; Önundur úr Tröllaskógi hjó með öxi í höfuð hundinum, svo að allt kom í heilann; hundurinn kvað við hátt, svo að það þótti með ódæmum, og féll hann dauður niður.

Gunnar vaknaði í skálanum og mælti: „Sárt ertu leikinn, Sámur fóstri, og búið að svo sé til ætlað, að skammt skuli okkar í meðal.“

mbl.is Sjónvarp

Lopapeysur aldrei úr tísku