Ógöngur ­ brot úr hugmyndasögu HUGHYGGJA Eftir ATLA HARÐARSON að má með nokkrum sanni segja að nútíminn hafi byrjað á 17. öld. Þá urðu raunvísindi nútímans til og heimsmynd vísindanna tók að móta hugsunarhátt fólks. Á 17. öld fengu stjórnmálin líka á sig...

Ógöngur ­ brot úr hugmyndasögu HUGHYGGJA Eftir ATLA HARÐARSON að má með nokkrum sanni segja að nútíminn hafi byrjað á 17. öld. Þá urðu raunvísindi nútímans til og heimsmynd vísindanna tók að móta hugsunarhátt fólks. Á 17. öld fengu stjórnmálin líka á sig þá mynd sem þau hafa enn því þjóðríkið festist í sessi og þingræði og borgaralegir stjórmálaflokkar urðu til á Englandi.

Englendingurinn John Locke (1632­1704) er einn af þekktustu heimspekingum 17. aldar. Hann ólst upp og lifði alla ævi í miðju umróti enskra stjórnmála og umgekkst marga af fremstu vísindamönnum aldarinnar, eins og Robert Boyle (1627­1691) og Isaac Newton (1642­1727). Boyle var einn af upphafsmönnum nútíma efnafræði og talsmaður þeirrar skoðunar að allt efni sé gert úr örsmáum eindum eða atómum. Newton þarf ekki að kynna. Hann er mesti eðlisfræðingur allra tíma.

Locke var næmur á hræringar í andlegu lífi samtímans og segja má að hann hafi grafið upp, fágað og slípað heimspekilegar undirstöður þingræðis og borgaralegra stjórnmálaviðhorfa og hinnar vísindalegu heimsmyndar. Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út frægasta stjórnspekirit hans, The Second Treatise of Government, undir nafninu Ritgerð um ríkisvald.

Annað af frægustu ritum Lockes heitir An Essay Concerning Human Understanding eða Ritgerð um mannlegan skilning, og fjallar um þekkingarfræðilegar undirstöður vísindanna. Á 18. öld þótti talsmönnum hinna nýju vísinda fáar bækur merkilegri en Ritgerð Lockes. Þeir jöfnuðu henni helst við höfuðrit Newtons, Philosophiae Naturalis Principia Mathematica.

En ekki voru allir jafnhrifnir af heimspeki Lockes. Konungssinnar og íhaldsmenn töldu stjórnspeki hans ala á uppreisnargirni og sjálfræðisfrekju hjá alþýðunni og ýmsum kirkjunnar mönnum þótti vísindaheimspeki hans líkleg til að magna upp guðleysi og efnishyggju. Þessar aðfinnslur voru hreint ekki úr lausu lofti gripnar. Stjórnspeki Lockes hvatti vissulega til uppreisna og á 18. öld var hún notuð til að réttlæta uppreisn Norður-Ameríkumanna gegn yfirráðum Englendinga. Og þótt Locke hafi verið maður trúaður er margt í vörn hans fyrir heimsmynd vísindanna og bollaleggingum hans í Ritgerð um mannlegan skilning vel líklegt til að grafa undan hefðbundnum trúarbrögðum. Eitt af því sem fór fyrir brjóstið á mörgum er í vi. grein, 3. kafla IV. bókar Ritgerðarinnar. Þar segir Locke:

Vér höfum hugmyndir um efni og um hugsun, en ef til vill munum vér aldrei verða þess umkomnir að vita hvort til eru hugsandi verur sem eru einungis gerðar úr efni; . . .

Þessi orð virðast kannski sakleysisleg, en það er ekki langur vegur frá þeim í hugmyndir um að mannshugurinn sé gerður úr forgengilegu efni, hann sé ef til vill ekkert annað en heilinn eða partur af heilanum, og maðurinn þar með dauðlegur.

Einn þeirra sem töldu ritgerð Lockes grafa undan trúnni á ódauðleika sálarinnar var þýski heimspekingurinn Gottfried Wilhelm Leibniz (1646­1716). Hann skrifaði raunar heila bók til þess að svara Ritgerð Lockes og rökstyðja kenningar sem hann taldi til þess fallnar að styrkja menn í trúnni á ódauðleika sálarinnar. Þessi bók heitir Nouveaux essais sur l'entendement humain og er heljarmikill doðrantur, meira en 500 síður.

Annar heimspekingur sem skrifaði gegn kenningum Lockes var Írinn George Berkeley (1685­1753). Í sínu frægasta riti sem heitir fullu nafni A Treatise Concerning the Principles of Human Knowledge wherein the chief causes of error and difficulty in the sciences, with the grounds of scepticism, atheism, and irreligion are inquired into, en er yfirleitt kallað The Principles, er Berkeley ekkert að eltast við einstök smáatriði í kenningum Lockes eða heimsmynd vísindanna. Hann ræðst beint á garðinn þar sem hann er hæstur og rökstyður að þetta efni sem Boyle taldi vera gert úr atómum og Locke hélt að gæti kannski hugsað sé ekki til í raun og veru. Þessi kenning, að efnisheimurinn sé ekki til, er kölluð hughyggja.

Rök Berkeleys fyrir hughyggjunni hafa valdið heimspekingum ómældum heilabrotum. Þetta eru einhverjar glæsilegustu rökfærslur í allri heimspekisögunni og þótt ýmsir hafi átt bágt með að sætta sig við niðurstöður þeirra þá hefur mönnum reynst enn erfiðara að benda á villur í þeim. Margir málsmetandi menn hafa talið rök Berkeleys algerlega skotheld og síðan um daga hans hefur hughyggja átt verulegu fylgi að fagna meðal heimspekinga.

En hvernig í ósköpunum ætli Berkeley hafi farið að því að rökstyðja þá skoðun að efnisheimurinn sé ekki til? Hér er ekki rúm til að gera rökum hans nein almennileg skil. En samt er hægt að benda á megindrættina í einni af mikilvægustu rökfærslum hans.

Berkeley gengur út frá því að öll þekking manna á hlutum eins og stokkum og steinum, himintunglum og höfuðskepnum sé fengin gegnum skynfærin, með því að sjá hlutina, heyra í þeim, snerta þá o.s.frv. Séu einhverjar ástæður til að telja að efni sé til þá hlýtur að vera hægt að rekja þær til skynjunar eða reynslu.

En hvað skynjum við? Liti, hljóð, lykt, línur, tóna, bragð og fleira í þeim dúr og allar þessar skynjanir eru sálarlífsfyrirbæri en ekki efnishlutir. Þeir sem aðhyllast heimsmynd Lockes, Newtons og Boyles halda að vísu að orsök sálarlífsfyrirbæris eins og skynjunar á lit eða lögun sé sú að örlitlar agnir rekast á augun og orsök þess að við heyrum hljóð sé sú að bylgjur skella á eyrunum. Enginn hefur nokkru sinni séð þessar agnir og engum dettur í hug að þær líkist litum hið minnsta. Það hefur heldur enginn nokkru sinni heyrt þessar bylgjur og þær geta engan veginn líkst neinum hljóðum.

Þessa kenningu, að efnishlutir orsaki skynjanir fólks, tætti Berkeley í sig. Hann benti á að hún geti alls ekki stuðst við neina reynslu því það sé með öllu útilokað að skynja orsakir skynjananna. Það er sama hvernig við horfum í kringum okkur, við sjáum aldrei neitt annað en liti og línur, skugga og form. Við sjáum aldrei orsakir þess að svona skynjanir birtast okkur. Svipaða sögu má segja um önnur skynfæri eins og heyrn, bragð-, lyktar- og snertiskyn og ef trú á tilveru efnishluta styðst ekki við reynslu þá er hún ekkert annað en endileysa sem enginn heilvita maður getur verið þekktur fyrir að taka mark á.

Berkeley leit svo á að hlutir eins og stokkar og steinar, hús og himintungl séu í raun og veru ekkert annað en skynjanir sem guð lætur fólki og öðrum skynjandi verum í té. Þau rök hans fyrir hughyggjunni sem hér voru tíunduð sanna að vísu ekki að guð almáttugur sé orsök þeirra sálarlífsfyrirbæra sem við köllum skynjanir og þau afsanna ekki að efnisheimurinn sé til. Berkeley notar önnur rök til þess. En þessi rök sýna að það er eitthvað bogið við heimsmynd vísindanna þar sem hún kvað styðjast við reynslu en engin reynsla getur rennt stoðum undir þá skoðun að sá efnisheimur sem vísindin fjalla um sé yfirleitt til.