Misskilningur um nýbyggingu Hæstaréttar Dagnýju Leifsdóttur "Stærð hússins var ákveðin eftir ítarlega þarfagreiningu, sem gerð var í samvinnu byggingarnefndar, dómara og annarra starfsmanna Hæstaréttar." Vegna misskilnings sem fram kom í tveimur greinum í...

Misskilningur um nýbyggingu Hæstaréttar Dagnýju Leifsdóttur "Stærð hússins var ákveðin eftir ítarlega þarfagreiningu, sem gerð var í samvinnu byggingarnefndar, dómara og annarra starfsmanna Hæstaréttar." Vegna misskilnings sem fram kom í tveimur greinum í Morgunblaðinu sl. þriðjudag um fyrirhugaða byggingu Hæstaréttarhúss, tel ég nauðsynlegt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri:

Greinarhöfundar telja ókost af aflíðandi gangi sem liggur frá anddyri upp í dómsali. Staðreyndin er hins vegar sú að halli gangsins er sáralítill, eða svipaður og vatnshalli á gangstétt og innan marka reglna um aðgengi fatlaðra.

Gagnrýni á herbergjaskipan starfsmanna, s.s. um kaffikrók dómara og vinnuaðstöðu ritara á þriðju hæð hússins, fellur um sjálfa sig þegar þess er gætt að í þessum efnum var í öllum atriðum farið að óskum starfsmanna réttarins. Rétt er þó að taka fram að gert er ráð fyrir rúmgóðri setustofu dómara á annarri hæð og að á fyrstu hæð verður aðalskrifstofa réttarins og stór kaffistofa fyrir starfsfólk og almenning.

Annar greinarhöfundurinn fullyrðir að fyrirhuguð bygging Hæstaréttar sé of lítil og taki ekki tillit til fjölgunar verkefna. Þetta er einnig misskilningur. Stærð hússins var ákveðin eftir ítarlega þarfagreiningu sem gerð var í samvinnu byggingarnefndar, dómara og annarra starfsmanna Hæstaréttar. Stuðst var við upplýsingar sem fyrir liggja um starfsemi og væntanlega þróun réttarins, m.a. óskir starfsmanna og dómara Hæstaréttar.

Nýbyggingin er tvisvar og hálfum sinnum stærri en núverandi hús Hæstaréttar. Við hönnun hússins er gert ráð fyrir starfsaðstöðu fyrir allt að 11 dómara og auknum fjölda aðstoðarmanna og ritara.

Í Hæstarétti starfa nú 8 dómarar og fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um fjölgun þeirra í 9. Hins vegar er ljóst að afkastavandamál dómskerfisins í framtíðinni verða ekki leyst með mikilli stækkun Hæstaréttar, m.a. vegna krafna um réttareiningu.

Sú ályktun greinarhöfundar að þrengt sé að Hæstarétti með þessari byggingu er því ekki á rökum reist.

Þó bílastæðum fækki eitthvað á þessu svæði vegna byggingar hússins, fæ ég ekki séð hvenig greinarhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að bílastæðavandi sé fyrirsjáanlegur. Önnur stæði eru þegar fyrir hendi, m.a. Kolaportið og nýbyggt bílastæðahús, Traðarkot, við Hverfisgötuna. Jafnvel þó nýtt hús fyrir Hæstarétt yrði ekki byggt á þessari lóð, myndi bílastæðum á þessu svæði fækka, ­ í samræmi við sjónarmið um fegrun umhverfisins.

Óvenju vel hefur verið vandað til undirbúnings nýbyggingar Hæstaréttar. Andmæli eða athugasemdir komu ekki fram vegna hennar þegar eftir var leitað á sínum tíma, skv. lögboðnum leiðum. En til að sem flestir hafi færi á að kynna sér þessa fyrirhugðuðu byggingu og forsendur hennar, hefur verið ákveðið að efna til sýningar á teikningum, líkani, ljósmyndum og öðru sem bygginguna varðar. Þessi sýning verður opnuð í næstu viku og nánar auglýst síðar.

Höfundur er deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu og formaður byggingarnefndar Hæstaréttarhúss.

Dagný Leifsdóttir