Þjóð á leið fyrir ætternisstapa Rannveigu Tryggvadóttur "13% atvinnuleysi kvenna mætti nýta til að leyfa barnakonunum í hópnum að vera á einhverjum launum heima í stað þess að þurfa stöðugt að vera að leita sér að vinnu." Ein er sú stétt manna sem...

Þjóð á leið fyrir ætternisstapa Rannveigu Tryggvadóttur "13% atvinnuleysi kvenna mætti nýta til að leyfa barnakonunum í hópnum að vera á einhverjum launum heima í stað þess að þurfa stöðugt að vera að leita sér að vinnu."

Ein er sú stétt manna sem undarleg sátt virðist hafa tekist um að megi rústa. Er það húsmóðirin, barnakonan. Því hefur verið lætt inn í vitund manna að þetta sé gagnslítið fólk, betur komið úti á vinnumarkaðnum og börnin best geymd á barnaheimilum. Rannsóknir hafa samt leitt í ljós að smábarnakonan erfiðar á við íþróttamann í þjálfun fyrir ólympíuleika. Ef erfitt starf utan heimilis, oft greitt með lúsarlaunum, bætist við erfiðið af umönnun fjölskyldunnar er þar komin uppskriftin að þrælahaldi.

Æði mörgum hefur lengi verið ljóst að sú þróun í fjölskyldumálum sem svokallaðar rauðsokkur og meðreiðarsveinar þeirra hrundu af stað fyrir hálfum þriðja áratug og sem kalla mætti Allir á færiband fyrir okkur til að ráðskast með hefur haft tortímingu í för með sér í fleiri en einum skilningi. Mörgu ófæddu barninu hefur að óþörfu verið fargað eftir að alþingismenn létu hafa sig í það vorið 1975 að rýmka lög um fóstureyðingar til að auðvelda konum að losa um heimilisfjötrana. Virtur fæðingarlæknir tjáði mér að rýmkunin hefði verið óþörf, lögin hefðu verið alveg nógu rúm fyrir.

Á Hagstofunni fékk ég upplýst að hefði þetta ekki gerst hefðum við Íslendingar verið orðnir um 300 þúsund um aldamótin ­ og þjóðin líklegri til langlífis í landinu en nú horfir. Hvers vegna í ósköpunum hafa stjórnmálamenn mér vitanlega aldrei hvatt til þess að vanfærum konum, sem langaði til að fæða barn sitt og annast það en teldu sig ekki hafa efni á því, yrði veitt vaxtalaust lán til nokkurra ára til að auðvelda þeim þá ákvörðun?

Er það eitthvað merkilegra en að annast barn sitt að láta innrita sig í Háskólann og leggja þar stund á fræðigrein sem veitir rétt til starfa sem ofsetin eru fyrir og stofna þannig að þarflausu til stórrar skuldar? Háskólarektor sagði á fundi sem ég sat í húsi Ríkisútvarpsins 18. nóv. '92 "að Háskólinn gæti ekki boðið 60­80% hvers árgangs viðeigandi nám. Meira en helmingur þessa fólks væri betur settur ef hann ætti völ á styttra námi á áhugasviði sínu". Þessi orð segja mikið.

Það er vitað mál að ungbörn þurfa að eiga þess kost að tengjast einni manneskju í frumbernsku og er móðirin auðvitað nærtækust. Móðurmjólkin hefur þann eiginleika að samsetning hennar breytist eftir þörfum barnsins. Hlálegt þykir mér þegar karlarnir eru að reyna að troða sér inn í fæðingarorlof mæðranna. Það hljóta að vera einhverjar letilappir. Ungbörn gera lítið annað en að sofa og nærast fyrstu mánuðina og enga næringu er að fá í skeggrót karlanna. Þeir ættu fremur að einbeita sér að því að reynast fjölskyldunni vel sem fyrirvinna og í frístundum sínum.

Auvirðileiki "færibandastefnu" í umönnun barna kemur best fram í fjálglegu tali um "að öll börn, sex mánaða og eldri, skuli eiga rétt á allt að heilsdagsvistun á dagheimili". Sex mánaða? Ja, svei! Svona tala gjarnan þeir sem vilja fá vald á barnssálinni.

Konurnar eiga peninga inni

Hve mörgum milljörðum hefur í áranna rás verið eytt í fullkomna aðstöðu til boltaleikja vítt og breitt um landið? Veit ég ekki til að þeir peningar hafi nokkru sinni verið taldir eftir. Eru boltaleikir ekki aðallega stundaðir af körlum? Eiga þá konur ekki umtalsverða fjárfúlgu inni ef almannafé á að standa báðum kynjum jafnt til boða? Mættu þær ekki fá hluta þessarar inneignar sinnar til að geta verið heima hjá börnum sínum ungum? Stálpuð börn þurfa líka á umhyggju að halda og hún er meiri í faðmi fjölskyldunnar en á ópersónulegum stofnunum. Mér hefur alltaf fundist að barnakonan ætti helst ekki að þurfa að starfa utan heimilis nema í mesta lagi hálfan daginn.

13% atvinnuleysi kvenna mætti nýta til að leyfa barnakonunum í hópnum að vera á einhverjum launum heima í stað þess að þurfa stöðugt að vera að leita sér að vinnu. Vinnuveitendur ættu að gera meira af því að skipta heilsdagsstarfi milli tveggja kvenna, kjósi þær það. Félagsskapurinn á vinnustað laðar en of langur vinnutími þjakar þegar við bætist vinnan heima.

Það olli mér miklum vonbrigðum hve seint og slælega sjálfstæðismenn í Reykjavík stóðu við loforðið sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar um að heimaumönnun barna yrði metin til fjár. Þeir fengu 60% atkvæða þá og átti þetta loforð áreiðanlega sinn þátt í þeirri velgengni. Er ekki líklegt að skoðanakannanir væru flokknum hagstæðari nú hefði strax verið staðið við loforðið?

Foreldrar barna, 2­4 árs, munu frá 1. apríl nk. fá 6.000 krónur á mánuði, nýti barn þeirra ekki leikskólapláss, en foreldrar yngri barna fá ekki neitt. Eðlilegast hefði verið að leyfa fjölskyldum að njóta þessa strax og greiðslu fæðingarorlofs lýkur. Það er ekki eftir neinu að bíða vilji íslensk þjóð lifa áfram í landinu. Heimavinnandi kona eignast fleiri börn en sú útivinnandi og okkar fámenna þjóð þarfnast þess sárlega að fæðingum fjölgi.

Hve margir vita að umfjöllun um íþróttir í ríkisfjölmiðlunum einum kostaði þjóðina 88 milljónir árið '92? Svo sannarlega er slík umfjöllun að miklu leyti óþörf. Æsifréttir um íþróttir eru orðnar ópíum fólksins, ný trúarbrögð.

Það mun kosta 50-60 milljónir að reisa eitt dagheimili og mikill misskilningur er að halda að æðsta ósk flestra ungra mæðra sé að starfa utan heimilis. Þvert á móti vilja margar þeirra gjarnan vera heima hjá börnum sínum. Þeim hefur bara aldrei staðið það til boða. Vonandi tekst það nú.

Ég vil ljúka þessum hugleiðingum með vísu úr yndislegu kvæði er skáldið Örn Arnarson orti í minningu móður sinnar:

Út við ystu sundin

­ ást til hafsins felldi ­

undi lengstum einn,

leik og leiðslu bundinn.

Lúinn heim að kveldi

labbar lítill sveinn.

Það var svo ljúft, því lýsir engin tunga,

af litlum herðum tókstu dagsins þunga.

Hvarf ég til þín, móðir mín,

og mildin þín

svæfði soninn unga.

Höfundur er þýðandi.

Rannveig Tryggvadóttir