Um 50 starfsmenn Slippstöðvarinnar-Odda munu missa atvinnuna Sjötíu og sjö starfsmönnum boðin endurráðning Starfsemi þriggja deilda lögð niður og almennur stjórnunarkostnaður lækkaður SJÖTÍU og sjö starfsmenn Slippstöðvarinnar-Odda á Akureyri voru...

Um 50 starfsmenn Slippstöðvarinnar-Odda munu missa atvinnuna Sjötíu og sjö starfsmönnum boðin endurráðning Starfsemi þriggja deilda lögð niður og almennur stjórnunarkostnaður lækkaður

SJÖTÍU og sjö starfsmenn Slippstöðvarinnar-Odda á Akureyri voru endurráðnir í gær, en um síðustu mánaðamót var öllu starfsfólki, um 130 manns, sagt upp störfum. Ljóst er því að rúmlega 50 starfsmenn fyrirtækisins missa atvinnu sína að loknum uppsagnafresti.

Um síðustu mánaðamót var öllu starfsfólk Slippstöðvarinnar-Odda sagt upp störfum í kjölfar erfiðrar verkefnastöðu svo og fjárhags- og rekstrarlegrar endurskipulagningar. Við rekstrarlega endurskipulagningu fyrirtækisins hefur verið tekið mið af mjög breyttum forsendum í starfsemi þess og einnig mjög erfiðri verkefnastöðu og óvissu um framtíðarverkefni.

Starfsemi tæknideildar, trésmíða- og rafvirkjaverkstæðis verður lögð niður í þeirri mynd sem verið hefur og á flest öllum öðrum deildum fyrirtækisins verður starfsmönnum fækkað verulega auk þess sem allra leiða verður leitað til að lækka almennan stjórnunarkostnað. Þá verður reynt að bæta nýtingu á þeim mannafla sem eftir verður í fyrirtækinu.

Eftirsjá

Leitað verður til annarra fyrirtækja sem undirverktaka við hluta af stærri verkefnum sem Slippstöðin-Oddi tekur að sér þegar þess gerist þörf, en sjötíu og sjö starfsmönnum af þeim sem sagt var upp um mánaðamótin var í gær boðin endurráðning. í frétt frá Guðmundi Tulinius framkvæmdastjóra segir að erfiðar aðstæður það að aðrar uppsagnir hefur orðið að staðfesta og sé fyrirtækinu eftirsjá að mörgum góðum starfsmanni.

Þrátt fyrir verulega fækkun starfsmanna mun öll þjónusta fyrirtækisins haldast óbreytt og það verða í stakk búið til að takast á við aukin og stærri verkefni þegar þau bjóðast.

Greiðslustöðvun Slippstöðvarinnar-Odda rennur út í næstu viku, á þriðjudag, en fyrirtækið er nú að leita eftir nauðasamningum við lánardrottna sína og býðst til að greiða 30% skulda sinna umfram 50 þúsund krónur, en lægri kröfur verða að fullu greiddar.