Tölvur IBM PS í stað AMBRA IBM hefur ákveðið að hætta sölu og framleiðslu á Ambratölvunum fyrir Evrópumarkað að því að fram kemur í frétt frá Nýherja, umboðsfyrirtæki IBM hér á landi.

Tölvur IBM PS í stað AMBRA IBM hefur ákveðið að hætta sölu og framleiðslu á Ambratölvunum fyrir Evrópumarkað að því að fram kemur í frétt frá Nýherja, umboðsfyrirtæki IBM hér á landi. Það var árið 1992 sem IBM í Evrópu ákvað að framleiða og markaðssetja AMBRA tölvur til að mæta samkeppni í lægstu verðþrepunum. Til þess að gera þetta mögulegt stofnaði IBM dótturfyrirtæki með litla yfirbyggingu sem gat með ákveðinni hagræðingu sett á markaðinn IBM tölvur undir sérstöku merki (AMBRA) á hagstæðu verði eins og segir í fréttinni.

Fram kemur að nú hafi IBM í Evrópu tekist með endurskipulagningu og aukinni hagræðingu að ná niður framleiðslu- og markaðskostnaði á hefðbundnum einmenningstölvum fyrirtækisins og því sé ekki lengur ástæða til að halda áfram framleiðslu einmenningstölva undir tveimur merkjum. Eftir því sem sérfróðir aðilar um tölvumarkaðinn segja er ein helsta ástæðan fyrir þessar ákvörðun talin sú að Ambratölvurnar hafi verið farnar að taka markað frá PS tölvum IBM.

Í fréttinni segir að Nýherji sé um þessar mundir að ljúka nýjum samningum við IBM og muni brátt bjóða viðskiptavinum sínum IBM PS tölvur á mjög hagstæðu verði.

Jafnframt því mun Nýherji hafa hinar vinsælu Ambra tölvur til sölu eins lengi og kostur er, en IBM mun halda áfram að framleiða og selja AMBRA tölvur í Bandaríkjunum og Kanada.