Viðskipti 7% hækkun japanska jensins á innan við mánuði 500­600 milljónir króna í auknar útflutningstekjur GENGI japanska jensins hefur hækkað um rúmlega 7% gagnvart íslensku krónunni á innan við mánuði.

Viðskipti 7% hækkun japanska jensins á innan við mánuði 500­600 milljónir króna í auknar útflutningstekjur

GENGI japanska jensins hefur hækkað um rúmlega 7% gagnvart íslensku krónunni á innan við mánuði. Ef hækkun jensins helst getur þetta þýtt 500­600 milljóna króna hærri tekjur útflytjenda í íslenskum krónum og um helming þeirrar upphæðar í tekjur fyrir þjóðarbúið þar sem við flytjum út vörur til Japan fyrir nærri helmingi hærri upphæð en innflutningnum nemur. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir hins vegar að alþjóðlegar spár bendi ekki til þess að þessi hækkun jensins sé varanleg, en á það sé að líta að sérfræðingum hafi á undanförnum mánuðum gengið illa að spá fyrir um gengissveiflur.

Gengi jensins gagnvart íslensku krónunni var rúmir 0,65 aurar 24. janúar síðastliðinn en hafði hækkað í rúmlega 0,70 aura í gær samkvæmt skráningu Seðlabankans. Þá er gengið orðið jafnhátt og það fór hæst á síðasta ári í ágúst er það varð einnig rúmir 70 aurar. Miklar hækkanir urðu á gengi jensins á síðasta ári. Í ársbyrjun var gengi þess um 50 aurar og hækkaði það jafnt og þétt fram í ágústmánuð. Eftir það lækkaði það niður í um 65 aura og hefur verið þar í nánd síðarihluta ársins allt þar til það fór að hækka aftur í janúar.

Vörur fyrir 9 milljarða

til Japan

Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar var útflutningur okkar til Japans á síðasta ári nálægt 9 milljörðum króna, en við fluttum inn vörur þaðan fyrir um fimm milljarða króna. Samkvæmt því gætu tekjur útflytjenda í íslenskum krónum aukist um 5­600 milljónir króna verði þessi hækkun viðvarandi. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að frystar loðnuafurðir verði seldar til Japan fyrir um tveggja milljarða króna hærri upphæð en í fyrra og að öðru óbreyttu gæti því útflutningur til Japans á nýbyrjuðu ári numið 11 milljörðum króna að sögn Þórðar.

Hann sagði að Ísland væri sennilega eitt fárra ríkja veröldinni sem væru með hagstæðan viðskiptajöfnuð við Japan. Fæstir sérfræðingar teldu að þessi hækkun jensins yrði varanleg og spár stæðu til þess að Bandaríkjadalur styrktist á kostnað jensins.