Togarinn Óttar Birtingur á leið til Rockall-svæðisins Getum ekki skipt okkur af erlendu skipi ­ segir Jón B. Jónasson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu JÓN B.

Togarinn Óttar Birtingur á leið til Rockall-svæðisins Getum ekki skipt okkur af erlendu skipi ­ segir Jón B. Jónasson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu

JÓN B. Jónasson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, segir að skip sem ekki er skráð á Íslandi komi íslenskum stjórnvöldum ekkert við, þótt þau séu í eigu Íslendinga.

"Þetta er erlent skip og ef það lendir í deilum innan lögsögu einhvers annars ríkis þá hlýtur útgerð skipsins að snúa sér til stjórnvalda þess ríkis sem skipið er skráð í til þess að hafa samskipti við bresk stjórnvöld. Menn hafa skráð skipið erlendis til þess að koma sér undan íslenskum reglum að hluta til," sagði Jón.

Jón sagði að þetta væri svipað því þegar íslensk skip ætluðu að hefja veiðar á Svalbarða-svæðinu sem Norðmenn höfðu lýst yfir að þeir hefðu lögsögu yfir og myndu grípa til viðeigandi ráðstafana hæfu skip veiðar þar. "Hvað gátu íslensk stjórnvöld gert í því máli?" spyr Jón.

Jón sagði að margir þættir kæmu inn í málið, m.a. hafréttarsáttmálinn sem væri ekki genginn í gildi og þar að auki væru Bretar ekki aðilar að honum. Hann viðurkenndi ekki 200 mílna lögsögu í kringum óbyggða kletta eins og Rockall en meðan aðstæður væru eins og þær eru reyndu menn að halda lögsögu gagnvart slíkum klettum.

Rockall teygjanlegt

"Svo er spurning hvaða svæði menn eru að tala um. Rockall er dálítið teygjanlegt, menn eru að tala um veiðar utan efnahagslögsögunnar annars vegar og svo á Rockall- eða Hatton-bankanum hins vegar sem er óumdeilt innan 200 sjómílna frá Rockall. En mér finnst að menn viti ekkert hvað þeir eru að tala um, þeir eru í ráðleysi og fiskleysi og fiskveiðaheimildalausir og leita alls staðar. En það fæst kannski úr því skorið hvað gerist ef þeir fara til veiða þarna. "Annars held ég í sjálfu sér að allar vangaveltur fyrirfram um hvað hugsanlega geti gerst séu tilgangslausar," sagði Jón.