Tvær stöður seðlabankastjóra virðast mjög eftirsóttar Um 330 umsóknir afhentar UM 330 umsóknir nemenda í Menntaskólanum í Hamrahlíð um tvær stöður seðlabankastjóra voru afhentar í gær, í þeim tilgangi að andæfa pólitískum stöðuveitingum.

Tvær stöður seðlabankastjóra virðast mjög eftirsóttar Um 330 umsóknir afhentar

UM 330 umsóknir nemenda í Menntaskólanum í Hamrahlíð um tvær stöður seðlabankastjóra voru afhentar í gær, í þeim tilgangi að andæfa pólitískum stöðuveitingum. Um 50 nemendur fylgdu umsóknunum í Seðlabankann en Björn Tryggvason, aðstoðarbankastjóri, veitti þeim viðtöku af hálfu bankans. Garðar Þ. Guðgeirsson, framkvæmdastjóri Nemendafélags MH, afhenti Birni umsóknabunkann að viðstöddum skólafélögum sínum og starfsfólki hjá bankanum og las upphátt umsókn Haralds Hallgrímssonar, forseta nemendafélagsins, en þær voru allar samhljóða.

Umsóknin hljóðar svo: "Ég undirritaður sæki hér með um stöðu seðlabankastjóra. Ég hef lokið nokkrum önnum í Menntaskólanum við Hamrahlíð, auk þess sem ég stóðst samræmd próf í grunnskóla með ágætum. Ég hef einnig unnið við hin ýmsu störf yfir sumartímann, þó ég hafi litla sem enga reynslu öðlast í meðferð fjármála ríkisins. Hins vegar hefur mér alltaf haldist ágætlega á fé og ég er afar duglegur að spara. Í ljósi fyrri ráðninga á seðlabankastjórum ætti reynsluleysi mitt ekki að koma að sök.

Þarf ökuskírteini

Seðlabankastjóri þarf að vera ýmsum kostum búinn. Í fyrsta lagi þarf hann að hafa fjármálavit. Í annan stað þarf hann að vera ábyrgur einstaklingur með siðferðiskennd sem ristir dýpra en gengur og gerist. Síðast en ekki síðast þarf hann að hafa ökuskírteini og þor til að aka um á rándýrri bifreið á kostnað ríkisins. Yfir þessum kostum tel ég mig sjálfan búa og ég treysti mér fyllilega í þetta starf."

Umsóknarfrestur um stöðu seðlabankastjóra rennur út 4. mars nk. og þurfa umsækjendur eingöngu að vera sjálfráða til að uppfylla umsóknarskilyrði.

Morgunblaðið/Kristinn

Verðandi bankastjórar?

UM FIMMTÍU nemendur Menntaskólans í Hamrahlíð gerðu sér sérstaka ferð í Seðlabankann í gær til að afhenda umsóknir sína og skólafélaga um stöðu seðlabankastjóra. Garðar Þ. Guðgeirsson, framkvæmdastjóri Nemendafélags MH, las umsóknina upphátt og afhenti þær síðan Birni Tryggvasyni aðstoðarseðlabankastjóra, sem sjá má á hinni myndinni flytja þær upp á efstu hæð bankans.