Umdeild auglýsing Benetton Óákveðið hvort hún verður notuð hér EKKI hefur enn verið ákveðið hvort Benetton-verslunin hér á landi noti umdeilda auglýsingu fyrirtækisins í auglýsingar hér, að sögn Ingibjargar Reykdal eiganda verslunarinnar.

Umdeild auglýsing Benetton Óákveðið hvort hún verður notuð hér

EKKI hefur enn verið ákveðið hvort Benetton-verslunin hér á landi noti umdeilda auglýsingu fyrirtækisins í auglýsingar hér, að sögn Ingibjargar Reykdal eiganda verslunarinnar.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Lucette Michaux-Chevry, ráðherra mannúðarmála frönsku stjórnarinnar, hefur hvatt fólk til að sniðganga vörur Benetton vegna nýjustu auglýsingaherferðar fyrirtækisins. Í henni eru notuð blóðug föt Bosníu-Serba sem féll við Mostar í fyrrasumar til að auglýsa fatnað Benetton.

Margar af auglýsingum fyrirtækisins hafa vakið hörð viðbrögð fólks og sagði Ingibjörg vita til þess að sums staðar erlendis hefði komið til uppþota vegna þeirra. Hún sagði að hér hefðu einungis verið notaðar tvær auglýsingar, mynd af nýfæddu barni og mynd af mislitum verjum og ekki hefði verið amast út í þær.