KÖRFUKNATTLEIKUR Hooks staldraði ekki lengi við R-ingar sigruðu Valsmenn í úrvalsdeildinni í gærkvöldi með tíu stiga mun, 92:82, í leik sem var jafn allan tímann en samt sem áður ekki spennandi því KR-ingar virtust hafa leikinn í hendi sér þó svo munurinn...

KÖRFUKNATTLEIKUR Hooks staldraði ekki lengi við

R-ingar sigruðu Valsmenn í úrvalsdeildinni í gærkvöldi með tíu stiga mun, 92:82, í leik sem var jafn allan tímann en samt sem áður ekki spennandi því KR-ingar virtust hafa leikinn í hendi sér þó svo munurinn væri aldrei mikill. Það voru ungu strákarnir hjá KR, þeir sem ekki hafa verið mjög áberandi í vetur, sem voru í stuðu og sýndu skemmtileg tilþrif á köflum.

Valsmenn byrjuðu heldur betur en fljótlega komust Vestubæingar yfir og héldu forystunni það sem eftir var, en munurinn varð aldrei mikill, mestur 13 stig, 69:56, snemma í síðari hálfleik. Valsmenn náðu að minnka muninn þrjú stig, 83:80, er ein og hálf mínúta var eftir.

Vesturbæingar gerðu fjögur næstu stig úr vítaköstum og Hermann Hauksson, sem hafði lítið leikið með, tryggði sigurinn endanlega með fjórum stigum á síðustu sekúndunum.

Það verður ekki margs að minnast úr þessum leik, nema frammistöðu Ólafs Jóns og Ósvaldar í liði KR og Grissom lék einnig mjög vel.

Hooks látinn fara

Einnig munu menn trúlega muna eftir þessum leik því nýr erlendur leikmaður lék með Val, Jasper Hooks, og var ekki góður. Eftir leikinn var ákveðið að láta hann fara astur enda enginn ástæða til að vera með erlendan mann á launum á varamannabekknum, en þar dvaldi hann lengstum í gærkvöldi.

Valsmenn ætla sér að leika án erlends leikmanns það sem eftir er keppnistímabilsins og ætti það að vera allt í lagi fyrir þá þar sem liðið lék þokkalega í gær þegar enginn erlendur leikmaður var inná. Valur er eitt á botni deildarinnar og fátt virðist geta bjargað liðinu frá falli, nema auðvitað að fjölga verði í deildinni eins og til stendur. Hjá Val voru Bjarki og Brynjar Karl bestir.

Skúli Unnar

Sveinsson

skrifar