20. desember 2008 | Menningarblað/Lesbók | 437 orð | 1 mynd

SKÁLDSAGA | Vetrarsól Eftir Auði Jónsdóttur. Mál og menning 2008, 255 bls. -

Ekki að skrifa glæpasögu

Bækur

Vetrarsól, fimmta skáldsaga Auðar Jónsdóttur, gerist á níu dögum í byrjun desembermánaðar.
Vetrarsól, fimmta skáldsaga Auðar Jónsdóttur, gerist á níu dögum í byrjun desembermánaðar. Á þessum dögum myndast ýmsar og óvæntar flækjur í lífi Sunnu, 32 ára gamallar konu sem starfar á bókaforlagi, á sambýlismann sem er veðurtepptur á Ísafirði og er með allt niðrum sig í fjármálum, og sonur sambýlismannsins er hjá henni á meðan. Í upphafi sögunnar er auglýst eftir gamalli vinkonu Sunnu frá þeim tíma sem hún var í Barcelona og í upprifjun frá þeim dögum myndast annað tímasvið sögunnar.

Sunna þarf að takast á við ýmis verkefni þessa daga, meðal annars að koma bókum forlagsins í sölu í stórmörkuðum og sinna vinsælum glæpasagnahöfundi, auk þess að sitja námskeið í ritun glæpasagna.

Vetrarsól er ærslafengin skáldsaga, og að sumu leyti erfitt að festa á henni hendur. Sagan skreppur í sífellu undan lesandanum; hún stefnir í að verða farsi um þessa taugaveikluðu ungu konu, sem er stefnulaust rekald í erli daganna, en um leið myndast sagan við að breytast í glæpasögu, þótt hún sé ekki skrifuð eftir formúlunni sem Sunna og fóstursonur hennar læra að skrifa eftir á námskeiðinu.

Tileinkun bókarinnar er sótt í Dagbók þjófs eftir Genet: I was hot for crime. Sagan vill sækja í það far en vandræðagangur Sunnu vinnur gegn því. Þó skarast þessir heimar sífellt. Í kjölfarið á bráðfjörugum farsa, þar sem Sunna þarf að klæðast bangsabúning í stórmarkaði og kynna misheppnaða heimspekibók fyrir börn, í samspili við kraftajötun og engilljósa skáldkonu, stendur hún skyndilega frammi fyrir suðrænum glæpamönnum þar sem hún er búin að kasta upp í búninginn. Þannig togast alvara og galsi á og höfundurinn gerir afar vel í því að flétta þessa atburði saman, í flæðandi og svifléttum stílnum.

Hvarf vinkonunnar vegur smám saman þyngra í frásögninni og þar er bryddað uppá alvarlegri málum, í anda hefðbundinna glæpasagna, eins og innflytjendamálum, árekstrum menningarheima og umdeildum rannsóknum á fósturvísum. „Sem betur fer er ég ekki að skrifa glæpasögu“ segir Sunna þegar hún hefur fyllt inn í beinagrind glæpasagnaformúlunnar, með aðkallandi persónulegum spurningum. Það er samt á þessum tíma í sögunni, þegar á líður, sem árekstrar sögusviðanna og frjórra hugmyndanna fara að verða nokkuð harkalegir, og uppgjörið sem tengist hvarfi vinkonunnar verður hálf endasleppt. Rekaldið Sunna verður skyndilega spæjarinn Sunna, ekki á alltof sannfærandi hátt. Talsvert er verið að fjalla um plott í sögunni og plottið verður full-hraðsoðið undir lokin.

En það verður ekki af Auði Jónsdóttur tekið að Vetrarsól er bráðskemmtileg saga. Hún er skrifuð af leikni og snerpu, og lesandinn hrífst með vandræðaganginum, uppákomunum og fjörlega sköpuðum persónunum og aðstæðunum þeirra, þótt alvarlegi þátturinn og siðferðilegar spurningar sem honum tengjast, hangi svolítið í lausu lofti.

Einar Falur Ingólfsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.