Jóhannes Guðjónsson - viðbót Fæddur 11. nóvember 1896 Dáinn 8. febrúar 1994 Hann var yndislegur faðir, bæði þolinmóður og mildur. Hann hafði alltaf tíma fyrir okkur börnin, fór með okkur í göngutúr á sunnudögum, las og sagði okkur sögur áður en við fórum að sofa, spilaði og tefldi við okkur.

Ég var mjög oft hjá honum í gamla pakkhúsi Kaufélagsins, þar sem ég var oft að sópa steingólfið og raða í hillur fyrir hann, stundum ekki í réttu hillurnar. Þá færði hann það þegar ég var búin. Ég þóttist alltaf vera að hjálpa honum þar, en eflaust var ég oftast nær fyrir. Hann lét mig aldrei finna það.

Hann pabbi kom í heimsókn til mín til Englands aðeins einu sinni, og fannst honum það einu sinni of oft. Hann stóð við í um það bil fjórar vikur og honum leist ekkert á lífið hér. Hann skildi ekki málið og gat því ekki lesið blöðin eða hlustað á fréttir og veðurfregnir og það versta var að það voru engar fréttir af Íslandi eða úr Hólminum sem hann saknaði mikið og hafði ekki verið svo lengi í burtu frá Stykkishólmi síðan hann var á sjó.

Öllum hans sumarfríum frá vinnunni eyddi hann í Stykkishólmi, yfirleitt við að gera við húsið. Hann lét sér ekki beint leiðast hjá mér í Englandi, en hann var mjög ánægður með af fara heim. Þegar ég kvaddi hann á flugvellinum sagðist hann ekki ætla að heimsækja Bretland aftur. Og hann stóð við það.

Sigurborg Þ. Jóhannesdóttir Qazi,

Essex, Englandi.