Lovísa Aðalbjörg Egilsdóttir - viðbót Föðuramma okkar, Aðalbjörg Egilsdóttir, lést í Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi 8. febrúar sl. 85 ára að aldri. Við eigum margar og góðar minningar um ömmu, þá ekki síst vegna þess hversu fróð og skemmtileg hún var. Eitt af mörgum áhugamálum hennar var varðveisla gamalla muna, enda heimili hennar "minjasafn" í orðsins fyllstu merkingu.

Það sem vakti athygli flestra sem komu á hennar heimili var allur sá fjöldi mynda sem hún hefur varðveitt í gegnum tíðina af fjölskyldu sinni, lífshlaup hvers og eins frá bernsku til þessa dags.

Með þessum fátæklegu orðum langar okkur systurnar að þakka ömmu fyrir samfylgdina í gegnum árin. Það er trú okkar að nú fái hún að hitta afa Þorvald eftir nítján ára aðskilnað.

Með þessri stöku sem afi Þorvaldur orti eitt sinn kveðjum við ömmu Aðalbjörgu.

Guð minn, ó, guð minn góður,

guð minn, ó þess ég bið,

gefðu mér, guð minn góður,

gleði, ánægju og frið.

Blessuð sé minning hennar.

Helen, Hulda og Hugrún

Svavarsdætur.