Minning Hróar Þór Ægisson Fæddur 3. nóvember 1993 Dáinn 28. janúar 1994 Sorgin reisir hallir í hafdjúpi þinna augna hafdjúpi hreinu, bláu meðan hljóðlátt þú grætur. Útlæg verður gleðin sem áður þar bjó. Ekki tjaldar sorgin

til einnar nætur.

(Hannes Pétursson.)

Þegar ég horfi á myndirnar af þér ert þú svo fallegur og lifandi, að mér finnst óraunverulegt að þú sért dáinn. Þó veit ég að svo er innst inni, það er bara svo erfitt að lifa með þeim sannleika. Að fá aldrei aftur að taka þig, litlu stubbur og stúfur, og leggja vanga okkar saman og finna þína lykt, mjúka kinn og hálsakot. Að sjá aldrei aftur brosið þitt þegar þú horfir á mömmu þína, mig eða aðra, og gefur okkur ljósið þitt, litli sólargeislinn okkar.

Ég fékk að fylgjast með þér þegar þú fæddist og var samferða þér í allt of stuttan tíma. Svo endar lífið svo miskunnarlaust að það er erfitt að lifa af.

Ég man svo vel að allar stóru stundirnar okkar saman; þegar þú lærðir að sjúga brjóst mömmu þinnar, hárið þitt verða eirrautt, fyrsta brosið þitt, hvað þú skemmtir þér vel þegar við Védís sungum fyrir þig: "Dvel ég í draumahöll og dagana lofa," fyrstu jólunum okkar saman og svona gæti ég haldið áfram.

Mig langaði svo að sýna þér sumarið, litla vetrarbarnið mitt, að heyra fuglana syngja þegar sólin skín og grasið angar og veröldin er fegurst. En þú fórst svo fljótt úr þessu lífi að það varð aldrei svo.

Samt var hver dagur með þér svo merkilegur og stór og ég er þakklát fyrir hvern og einn. Ef tilgangurinn með þinni stuttu tilveru var að vekja hlýju og ástúð, þá tókst þér það fullkomlega, það geta líklega ekki margir sagt þegar þeir líta yfir sitt eigið líf. Það var svo auðvelt að gefa þér alla ástina og blíðuna sem þú kveiktir í huga og hjarta mínu.

Ég get aldrei kvatt þig og ætla ekki að reyna það, þú verður alltaf hluti af mínu lífi og ég af þínu, þannig skal það vera. Þú komst og fórst tær og saklaus, þú varst mikið elskaður á meðan þú lifðir og ævi þín var full af hlýju og mikilli nærveru allra sem þekktu þig.

Ég bið góðan guð, að vera okkur, sem eftir lifum, líknsamur svo við getum haldið áfram að reyna að vera betra og vænna fólk og þannig geti þín stutta ævi verið góður og mikilvægur tími í okkar lífi.

Vertu yfir og allt um kring,

með eilífri blessun þinni.

Sitji guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Amma Rut.