Sigurður Samúelsson, prófessor emeritus, fæddist á Bíldudal við Arnarfjörð 30. október 1911. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi mánudaginn 26. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Samúel Pálsson skósmiður og kaupmaður á Bíldudal og Guðný Árnadóttir húsfreyja. Bróðir Sigurðar var Árni Jakob, f. 27.8. 1927, d. 19.2. 1930.

Fyrri kona Sigurðar var Lovísa Möller, f. 19.8. 1914, d. 14.3. 1966. Foreldrar hennar voru Jóhann G. Möller verslunarstjóri á Sauðárkróki og Þorbjörg Pálmadóttir húsfreyja. Börn Sigurðar og Lovísu eru: 1) Sif kennari, f. 23.11. 1943. Maki 1 Þorsteinn Blöndal, börn a) Sjöfn, f. 1966, kjördóttir Þorsteins, faðir Dagur Sigurðarson b) Auðunn Árni, f. 1969, maki Stefanía Eggertsdóttir, c) Edda Lovísa, f. 1976, sambýlismaður Páll H. Sigurðsson. Maki 2 Atli Heimir Sveinsson. 2) Sjöfn, f. 14.12. 1945, d. 24.12. 1948. 3) Sigurður Samúel læknir, f. 30.9. 1951. Maki 1 Birna Jónsdóttir, börn Jón Örn, f. 1970, og Lúvísa, f. 1973, sambýlismaður Hafliði Árnason. Maki 2 Ágústa D. Jónsdóttir, börn Sigurður Samúel, f. 1987, Jón Þór, f. 1990, og Árni Muggur, f. 1991. Maki 3 Christine Sigurðsson, börn Katrín Sif, f. 2002, og Kristín Stella, f. 2004. Eiginkona Sigurðar er Hólmfríður Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 31.7. 1928. Foreldrar hennar voru Stefán Jóhannsson vélstjóri og skipstjóri í Sandgerði og Þórunn Anna Lýðsdóttir kennari. Barnabarnabörnin eru 11.

Sigurður ólst upp á Bíldudal, lauk stúdentsprófi frá MA 1932 og kandídatsprófi í læknisfræði frá HÍ 1938. Sérhæfði sig í lyflækningum og hjarta- og lungnasjúkdómum í Danmörku. Dr. med. frá Kaupmannahafnarháskóla 1950. Læknir og sérfræðingur í hjartasjúkdómum í Reykjavík 1947-1968, settur deildarlæknir á lyflæknadeild Landspítalans 1950, var prófessor í lyflæknisfræði við HÍ og yfirlæknir við Landspítalann frá 1955-1982. Kynnti sér nýjungar á sviði hjartalækninga og lyflækninga í Bretlandi, Skotlandi, Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Sigurður stofnaði Hjartavernd, samtök hjarta- og æðaverndarfélaga á Íslandi 1966, formaður framkvæmdastjórnar þeirra til 1992. Stofnaði m.a. Gigtsjúkdómafélag Íslands 1963, formaður þess til 1973. Formaður læknafélagsins Eirar frá stofnun þess 1948-50. Í stjórn Læknafélags Reykjavíkur 1950-53. Í læknaráði Landspítalans 1955-82. Stofnandi Lyflæknafélags Íslands 1957, formaður þess til 1961. Í lyfjaskrárnefnd frá stofnun hennar 1963-76. Í ráðgjafahópi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á sviði hjarta- og æðasjúkdóma. Formaður Laxárfélagsins 1968-85. Ritstörf: Cronic cor pulmonale, a clinical study, Khöfn 1950 (doktorsritgerð), Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna 1988, auk fjölda greina og ritgerða í íslenskum og erlendum læknatímaritum, einkum um hjartasjúkdóma. Viðurkenningar: Kjörinn bréfafélagi í norska læknafélaginu 1965 og danska læknafélaginu 1966. Kjörinn heiðursfélagi Gigtarfélags íslenskra lækna 1981, Hjartafélags íslenskra lækna 1984 og heiðursfélagi Hjartaverndar 1992. Heiðursmerki: Riddarakrossinn 1969 og Stórriddarakrossinn 1977.

Útför Sigurðar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Þegar mér verður hugsað til afa míns koma minningar frá bernsku fyrst til hugar. Heimsóknir í jólaboð þar sem við krakkarnir kepptum um það hver kæmist næst „stólnum“. Þar sat afi og með glotti beið hann eftir færi til að kitla okkur. Það var alltaf mikil spenna að sjá hver gæti nálgast „stólinn“ án þess að verða fyrir puttanum ógurlega sem gat kitlað mann, leikur sem afi var ansi slunginn við, og krakkarnir kepptu um úthald gegn kitlinu.

Það var líka alltaf jafn spennandi að skoða kalda búrið sem hafði að geyma hluti svo sem Sinalco og fleira sem fannst bara hjá afa og ömmu. Þegar ég var á mínum menntaskólaárum var alltaf þægileg tilhugsun að geta litið við í Háuhlíðinni, þó ekki væri nema í stutt stopp milli kennslustunda, í létt spjall og kaffi.

Á síðustu árum fór ég stöku sinnum með strákana mína í heimsókn og það var gaman að sjá hversu virkur afi var í að fylgjast með þeim. Þá er mér sérstaklega minnisstætt síðastliðið haust þegar afi sat við hlið Björns Mána og spurði hvort hann gæti ekki frætt sig um listamann nokkurn og málverk eftir viðkomandi listamann sem væri að finna frammi í stofu. Við Björn Máni litum hvort á annað og Björn Máni svaraði: „Ég þekki engan listamann!“ Þetta vakti hinsvegar forvitni okkar þegar afi sagði: „Jú, þú þekkir þennan listamann vel, betur en nokkurn mann“. Svo við fórum inn í stofu til að gá. Þar var afi búinn að koma fyrir vatnslitamynd eftir Björn Mána. Minning þín, afi minn, lifir í huga mínum og hjarta.

Lúvísa Sigurðardóttir.

Ég var bara lítil stelpa þegar ég kynntist Sigurði Samúelssyni, það var þegar hann og Hólmfríður móðursystir mín gengu í hjónaband. Mér fannst Sigurður strax sérstakur kall og mínar fyrstu minningar eru tengdar viðskiptum sem við áttum. Heima í Hafnarfirði var ákveðið að setja niður kartöflur í garðinum. Sigurður lagði hart að mér að setja niður því hann vildi kaupa af mér nýjar kartöflur. Ég lét tilleiðast og fylgdist Sigurður vel með ræktuninni og þegar að uppskeru kom fékk hann strigapoka fullan af glænýjum kartöflum. Hann var kampakátur og spurði um verðið um leið og hann tók upp veskið. Ég hafði hugsað málið og sagði honum að pokinn kostaði 500 krónur sem í þá daga var rauður seðill, ég hafði að öðru leyti engan skilning á verðgildinu. Sigurður hváði og spurði hvort ég væri alveg viss og horfði á mig svolítið strangur. Ég staðfesti og Sigurður glotti þegar hann rétti mér þann rauða, tók í höndina á mér og þakkaði viðskiptin. Auðvitað voru kartöflurnar rokdýrar, en minningin tengist meira því hversu áhugasamur Sigurður var um ræktunina og því að hann vildi gera við mig samning alveg eins og ég væri fullorðinn einstaklingur og jafningi og hann átti virðingu mína alla.

Ég kynntist Sigurði betur þegar ég bjó á neðri hæðinni í Háuhlíðinni. Þá varð mér enn frekar ljóst hvílíkur athafna- og ákafamaður Sigurður var í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Honum fannst ekkert skemmtilegra en að standa í framkvæmdum og helst hasar og var gjarnan í fararbroddi hvort sem um var að ræða málningarvinnu, garðvinnu, veisluhöld eða snjómokstur, allt var tekið með trompi og hvergi slegið af þannig að við hin áttum stundum fullt í fangi með að fylgja honum eftir.

Hann fór létt með að moka mannhæðarháa snjóskafla kominn vel á níræðisaldur og gaf ekkert eftir, rétti ekki einu sinni úr sér meðan á verkinu stóð.

En Sigurður var líka þekktur fræðimaður og man ég hversu einbeittur hann var þegar hann sat við skrifborðið sitt í Háuhlíðinni og skrifaði og lét ekkert trufla sig nema kannski kaffisopa. Hann var góður sögumaður og hafði frá mörgu að segja, meðal annars frá æskuárunum fyrir vestan, námsárunum í Kaupmannahöfn og síðar starfsárunum á Landspítalanum og Hjartavernd þar sem hann var í fararbroddi og vel þekktur fyrir störf sín þar.

Þau hjónin byggðu sér sumarhús á æskuslóðum Sigurðar í Trostansfirði fyrir vestan. Augljóslega átti sá staður hug hans og hjarta.

Sigurður var með afbrigðum hraustur maður og vel á sig kominn og náði háum aldri. Hann fylgdist vel með mönnum og málefnum og hélt andlegri reisn sinni nánast fram í andlátið.

Vegna starfa minna erlendis hef ég ekki tök á að fylgja Sigurði. Ég votta Hólmfríði móðursystur minni og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð.

Blessuð sé minning Sigurðar Samúelssonar.

Hólmfríður Garðarsdóttir.

Kveðja frá Hjartavernd

Látinn er í Reykjavík Sigurður Samúelsson, prófessor emeritus, 97 ára að aldri. Sigurður var um margt frumkvöðull á sviði lækninga á Íslandi upp úr miðri síðustu öld. Sem yfirlæknir á lyflækningadeild Landspítalans og starfandi hjartalæknir gerði hann sér grein fyrir þeim faraldri sem kransæðasjúkdómar voru orðnir á Íslandi sem og í öðrum vestrænum löndum í kringum 1960 þegar fjöldi karla og kvenna féll fyrir þessum vágesti á unga aldri. Hann beitti sér því fyrir stofnun samtaka Hjartaverndar 1966 með ýmsu öðru góðu fólki sem nú er flest fallið frá fyrir löngu. Í framhaldinu var síðan stofnsett Rannsóknarstöð Hjartaverndar í Lágmúla 9 sem teljast verður mikið afrek á þeim tíma. Þá hófst svokölluð Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar til að kanna umfang hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og leita leiða til að koma í veg fyrir þennan vágest. Íslendingar svöruðu kalli Sigurðar og Hjartaverndar og á næstu árum komu yfir 20 þúsund Íslendingar til þátttöku í þessari hóprannsókn. Niðurstöður hennar hafa vissulega staðfest helstu áhættuþætti kransæðasjúkdóma á Íslandi, hátt kólesteról, reykingar og háþrýsting ásamt offitu og sykursýki. Þessar upplýsingar frá Hjartavernd hafa því orðið grunnur að áhersluatriðum heilbrigðisyfirvalda í forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum á Íslandi.

Þegar Sigurður hóf þessa baráttu upp úr 1960 fékk hann hnjóðsyrði frá ýmsum í þjóðfélaginu en hann hélt ótrauður áfram sinni baráttu fyrir breyttu mataræði og gegn reykingum. Þessi barátta leiddi smám saman til þess að mjólkuriðnaðurinn svaraði kallinu og fór að framleiða magurri mjólkurafurðir svo eitthvað sé nefnt. Samlegðaráhrif breyttra lífshátta þar sem Sigurður og Hjartavernd voru mikilvægir brautryðjendur á örugglega sinn þátt í því að tíðni kransæðasjúkdóma meðal yngri aldurshópa hefur lækkað um meira en helming og 300 færri deyja á Íslandi í dag úr þessum sjúkdómi en ef ástandið væri óbreytt frá því sem það var við stofnun Hjartaverndar.

Sá stóri hópur Íslendinga sem mætti í hóprannsókn Hjartaverndar upp úr 1970 hefur orðið ómetanlegur grunnur upplýsinga um heilsufar Íslendinga á síðustu 40 árum. Sjálfsagt hefur Sigurður ekki gert sér grein fyrir því fyrir 40 árum að eftirlifendur þessa stóra hóps yrðu nú þátttakendur í einni stærstu hóprannsókn í heiminum á sviði öldrunar, svokallaðri Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, sem unnin er í samvinnu við Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna. Þetta endurspeglar þó framsýni hans og samstarfsfólks sem Hjartavernd og reyndar öll þjóðin þakkar fyrir og kveður Sigurð Samúelsson með virðingu og þökk.

Fyrir hönd Hjartaverndar,

Gunnar Sigurðsson, læknir, formaður Hjartaverndar.

Fallinn er í valinn nestor íslenskra lækna, dr. Sigurður Samúelsson prófessor emeritus. Hann fæddist 1911 og er því jafnaldri Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist 1938. Síðan lá leiðin til Kaupmannahafnar í framhaldsnám í lyflæknisfræði og hjartasjúkdómum og dvaldist hann þar til loka síðari heimsstyrjaldar.

Hann lauk doktorsritgerð frá Kaupmannahafnarháskóla 1950 sem fjallaði um bilun í hægri hluta hjartans. Þar sýndi Sigurður m.a. fram á að alvarlega veikir lungnasjúklingar þoldu hvorki að þeim væri gefið óhóflegt magn súrefnis né morfíns, en það var áður óþekkt.

Fljótlega eftir heimkomu var Sigurður skipaður prófessor og yfirlæknir á lyflækningadeild Landspítalans þar sem þá störfuðu auk hans aðeins tveir aðstoðarlæknar. Á 27 ára starfsferli sínum vann hann ötullega að því að innleiða nýjungar á fræðasviði sínu. Má þar nefna hjartaþræðingar, blóðskilun nýrnasjúklinga, speglanir í lungum og meltingarfærum og stofnun blóðmeinafræði- og gigtardeilda. Undir hans stjórn efldist lyflækningadeildin stórlega og varð að lokum eins og best gerist hjá vestrænum sjúkrahúsum.

Árið 1964 ferðaðist Sigurður vítt og breitt um landið og stofnaði hjartaverndarfélög sem sameinuðust í Hjartavernd. Segir sagan að Sigurður hafi hóað saman helstu kaupsýslu- og stjórnmálamönnum landsins á Hótel Borg og hafi ekki hleypt þeim út fyrr en safnast höfðu loforð fyrir 6 milljónum króna. Síðan lét hann þá borga fyrir kaffið sitt! Þetta fé dugði til að festa kaup á 2 hæðum í Lágmúla 9 og þar tók Rannsóknarstöð Hjartaverndar til starfa 1966, merkasta vísindastofnun í læknisfræði á Íslandi í áratugi.

Eftir að Sigurður hætti störfum vegna aldurs safnaði hann úr íslenskum fornsögum sjúkdómslýsingum sem gefnar voru út á bók með greiningum hans.

Hér er aðeins stiklað á stóru í ótrúlega glæsilegri afrekaskrá þessa vestfirska víkings.

Sigurður var hár vexti og glæsilegur. Það gustaði af honum þegar svo bar undir, en við vini sína og kunningja var hann hinn elskulegasti, glaður, reifur og gestrisinn. Hólmfríður kona hans bjó honum fallegt og notalegt heimili og þangað var gott að koma. Við Asta sendum henni og fjölskyldu þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Árni Kristinsson.