5. febrúar 2009 | Viðskiptablað | 352 orð | 1 mynd

Getum fljótlega orðið sjálfum okkur nóg um orku

*Hjá íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International hefur verið þróuð aðferð við að umbreyta útblæstri í eldsneyti *Gæti hæglega knúið allan bílaflota landsmanna og jafnvel orðið verðmæt útflutningsafurð

Hugvit Starfsmenn Carbon Recycling International stilla sér upp við frumútgáfu af tækinu sem breytt getur koltvísýringsútblæstri í fljótandi eldsneyti sem m.a. gæti knúið bílaflota landsmanna. KC Tran er fjórði frá vinstri.
Hugvit Starfsmenn Carbon Recycling International stilla sér upp við frumútgáfu af tækinu sem breytt getur koltvísýringsútblæstri í fljótandi eldsneyti sem m.a. gæti knúið bílaflota landsmanna. KC Tran er fjórði frá vinstri. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
ÁRIÐ 2006 stofnaði lítill hópur íslenskra og erlendra vísindamanna og fjárfesta fyrirtækið Carbon Recycling International utan um spennandi nýja tækni: – tækni sem gerir kleift að breyta koltvísýringsútblæstri í eldsneyti eins og metanól, bensín...
ÁRIÐ 2006 stofnaði lítill hópur íslenskra og erlendra vísindamanna og fjárfesta fyrirtækið Carbon Recycling International utan um spennandi nýja tækni: – tækni sem gerir kleift að breyta koltvísýringsútblæstri í eldsneyti eins og metanól, bensín og dísilolíu.

Í byrjun árs 2010 er ráðgert að verksmiðja fyrirtækisins í Svartsengi byrji að framleiða þetta fljótandi eldsneyti úr útblæstri jarðvarmavirkjunarinnar sem þar er fyrir.

KC Tran er forstjóri fyrirtækisins: „Litið er á koltvísýring í dag sem úrgang sem eykur á gróðurhúsaáhrifin. Með þessari tækni má með hagkvæmum hætti búa til verðmæta afurð úr koltvísýringnum og um leið draga úr heildarlosun koltvísýrings.“

Nýir tímar í orkumálum

Í sinni einföldustu mynd má lýsa uppfinningunni á þann veg að koltvísýringurinn er hafður undir þrýstingi og svo látinn ganga í samband við vetni sem framleitt er með rafgreiningu. Við þetta verður til metanól en einnig má ganga skrefinu lengra í ferlinu og búa til bensín og dísilolíu.“

Með þessari nýju tækni væri hægt að umbylta orkunotkun á Íslandi: „Þó að við notum aðeins um 10% af útblæstrinum frá Svartsengi gerum við ráð fyrir að geta framleitt í fyrsta áfanga um 5 milljón lítra af metanóli árlega. Þessu metanóli má blanda í ákveðnum hlutföllum við innflutt bensín og blönduna geta venjulegir íslenskir bensínknúnir bílar notað vandræðalaust,“ segir KC.

Gæti orðið útflutningsafurð

Til glöggvunar bendir KC á að fyrsti áfangi fyrirhugaðs álvers í Helguvík myndi skila koltvísýringsútblæstri sem dygði til að framleiða um 100 milljón lítra af metanóli árlega, en til samanburðar notar allur íslenski bílaflotinn í dag um 200 milljónir lítra af bensíni á ári hverju.

KC segir að það gæti jafnvel gerst að þetta nýja eldsneyti yrði flutt út, enda er víða mikil eftirspurn eftir metanóli vegna þess hvað bruni þess er góður miðað við annað fljótandi eldsneyti.

Til mikils er að vinna og bendir KC á að ef vel gengur að innleiða þá tækni sem er til staðar gæti Ísland orðið sjálfu sér nægt um eldsneyti fyrir bílaflotann og jafnvel skipaflotann líka, með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði. Tæknin verður líka til þess að stórminnka heildarlosun koltvísýrings á landinu og myndi setja Ísland í fremstu röð í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

www.carbonrecycling.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.