Eftir Önund Pál Ragnarsson
onundur@mbl.is
ATVINNULAUSIR eru nú á sautjánda þúsund, eða 16.155 samkvæmt vef Vinnumálastofnunar í gær. Þar af eru um 20% í hlutastörfum á móti atvinnuleysisbótum. Ef miðað er við að fjöldi fullra stöðuígilda á atvinnuleysisskrá sé um 14.500 er atvinnuleysi nú í kringum 8%.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að þótt eitthvað geti hægt á fjölgun atvinnulausra um þessi mánaðamót óttist hann að enn eigi eftir að bætast tvö til fjögur þúsund manns á skrána. ASÍ hefur spáð 9,5% meðaltalsatvinnuleysi á þessu ári.
„Þess vegna er mjög mikilvægt að lækka vextina. Þeir eru svo hrikalega háir að það getur enginn staðið undir þeim,“ segir Gylfi. Þeir magni upp bæði vanda fyrirtækjanna og heimilanna.
Í aðdraganda mánaðamótanna segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastóri Samtaka iðnaðarins, að ekki sé von á mikilli bylgju úr iðngreinunum inn á atvinnuleysisskrá. Hann segist ekki trúa öðru en að nú nálgist menn lágmarkið í byggingageiranum. Erfiðara sé að spá fyrir um hvað gerist í öðrum iðnaði. Ljósir punktar séu í því að gengishrunið hafi auðveldað sumum framleiðendum lífið og að eftirspurn hafi ekki minnkað heldur aukist eftir vörum sumra fyrirtækja. Hins vegar kvartar Jón Steindór yfir háum vöxtum. Þau fyrirtæki sem enn séu ekki í erfiðleikum lendi í þeim ef vextir lækka ekki.