Burt! Sádískar konur vilja ekki lengur þiggja ráð karla við undirfatakaup.
Burt! Sádískar konur vilja ekki lengur þiggja ráð karla við undirfatakaup. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„ÞETTA er mjög neyðarlegt. Þeir reyna að gefa okkur ráð eins og „þetta færi þér örugglega betur en hitt,“ en okkur finnst það ekki siðsamlegt,“ segir sádísk kona sem kaupir sér einungis undirföt utan heimalandsins Sádí-Arabíu.

„ÞETTA er mjög neyðarlegt. Þeir reyna að gefa okkur ráð eins og „þetta færi þér örugglega betur en hitt,“ en okkur finnst það ekki siðsamlegt,“ segir sádísk kona sem kaupir sér einungis undirföt utan heimalandsins Sádí-Arabíu. Ástæðan er sú að í undirfataverslunum landsins eru bara karlar við afgreiðslustörf.

Það er jafnvel undarlegra sé það sett í samhengi við strangar reglur sádí-arabískra yfirvalda um samskipti kynjanna. Einhleypum körlum og konum er m.a. bannað að vera einum saman séu þau ekki skyld.

Karlarnir líka vandræðalegir

„Þetta eru viðkvæmir líkamshlutar kvenna,“ segir Reem Asaad sem stendur fyrir herferð á Fésbókinni þar sem sádískar konur eru hvattar til að sniðganga nærfataverslanir.

Karlkyns afgreiðslumönnum til varnar skal þó taka fram að mörgum þeirra þykir fyrirkomulagið líka óþægilegt. „Þeir verða að sigla meðalveginn, vinna vinnuna sína sem afgreiðslumenn en gæta sín um leið á því að haga sér siðsamlega,“ segir Asaad í viðtali við BBC.

Hún segir að konur megi samkvæmt lögum starfa í slíkum verslunum. Fyrir fjórum árum hafi verið sett lög sem leyfi konum að afgreiða í verslunum er selji varning einungis ætlaðan konum. Lögin hafa þó ekki verið innleidd með viðeigandi hætti og er það talið vera til að vernda störf karla. Auk þess hafi valdamiklir múslimaklerkar landsins sitt að segja með rótgróin viðhorf um að konur skuli fyrst og fremst sinna heimilinu.

Asaad og félagar hennar í baráttunni hafa nú ákveðið að sniðganga klerka jafnt sem yfirvöld og beita búðirnar sjálfar þrýstingi. „Neytendur hafa síðasta orðið. Við ákveðum hvað við kaupum eða ekki og þar er veiki bletturinn – í pyngjunni,“ segir Asaad. jmv@mbl.is