Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson skrifar um efnahagsmál og ríkisstjórnina: "Alþingi þarf á að halda frjálsum þingmönnum sem ekki eru rígbundnir af flokkakerfi. Gömlu flokkarnir munu seint geta af sér slíka stjórnmálamenn..."

ÓGÖNGUR hins íslenska efnahagskerfis eiga sér margslungnar rætur en fáum dylst þó að andvaraleysi og samtrygging fjölmiðla, stjórnmála og viðskipta eru meðal höfuðástæðna. Þar við bætist svo almennur þjóðargorgeir og það virðingarleysi fyrir verðmætum sem að nokkru hefur einkennt íslenska þjóð frá stríðslokum.

Hamfarasaga undanfarinna ára hefst með því að undir lok 20. aldar voru ríkisbankarnir einkavæddir með því að skipta þeim upp milli stjórnmálaflokkanna. Þar fengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og aðilar þeim tengdir, hvor sinn banka og aðilar tengdir Samfylkingu þann þriðja í gegnum FBA sem rann inn í Glitni. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en í dag vekur mikla furðu hversu margt fór úrskeiðis við þessa einkavæðingu og hversu hjáróma og máttlaus andmæli stjórnmálamanna og fjölmiðla voru þrátt fyrir augljós afglöp.

Gott dæmi um þetta er þegar frétt birtist þess efnis skömmu eftir einkavæðingu Landsbankans að kaupverð bankans hefði reyndar ekki numið meiru en sem nam endursöluverði málverka sem óvart fylgdu með bankanum. Fyrir utan lítils háttar gagnrýni stjórnarandstöðu var hljótt um þetta mál. Með réttu hefðu þingmenn allra flokka átt að rísa upp og krefjast riftunar eða a.m.k. afsagnar þeirra ráðherra sem að afglöpunum stóðu. En hversvegna varð það ekki?

Ástæðan er ægivald flokkakerfisins. Þrír af stjórnmálaflokkum landsins höfðu fengið banka og innan þeirra voru sameiginlegir hagsmunir að grugga sem minnst í þeim polli sem einkavæðingin var. Hver sá þingmaður sem hugði á frama innan síns flokks hlaut því að bæla með sér að ákveðnu marki gagnrýni vegna þessa. Til þess að slæva eigin samvisku gat viðkomandi þingmaður höfðað til þess að flokkurinn hefði ekki falið honum að berjast sérstaklega í þessu máli heldur ætti hann að leysa önnur verkefni!

Flokkar hafa ekki samvisku. Aðeins einstaklingar af holdi og blóði búa yfir slíkum gæðum. Hópur manna getur hæglega sett sig í þá ankannalegu stöðu að setja hagsmuni hópsins ofar eigin samvisku. Í því liggur grunnurinn að óförunum í íslensku samfélagi. Alþingi Íslendinga þarf á að halda frjálsum þingmönnum sem ekki eru rígbundnir af flokkakerfi. Gömlu stjórnmálaflokkarnir munu seint verða heppilegastir til að geta af sér slíka stjórnmálamenn.

Höfundur er bóksali og fyrrverandi félagi í Framsóknarflokki.