EKKERT verður af því að Zvonimir „Noka“ Serdarusic taki við þjálfun þýska handknattleiksliðsins Rhein-Neckar Löwen í sumar eins og tilkynnt var skömmu fyrir jólin. Í gær var óvænt tilkynnt að Serdarusic væri hættur við og í samtali við þýska vefinn handball-world segir Króatinn að hann taki eflaust ekki upp þráðinn á nýjan leik við þjálfun handknattleiksliða.
Serdarusic hætti hjá Kiel á síðasta sumri eftir 15 ára starf. Á þeim tíma vann félagið 25 titla, þar af ellefu sinnum þýska meistaratitilinn. Fyrir vikið er Serdarusic sigursælasti handknattleiksþjálfari sögunnar. Forsvarsmönnum Rhein-Neckar Löwen var mikið í mun að tryggja sér krafta þessa snjalla þjálfara, ekki síst eftir komu danska milljarðamæringsins Jespers Nielsen til félagsins í lok síðasta árs. Síðan hefur ekkert verið til sparað við að styrkja liðið fyrir næstu leiktíð og liðið hefur m.a. tryggt sér krafta Ólafs Stefánssonar. Serdarusic átti að vera toppurinn á kransaköku Rhein-Neckar Löwen-liðsins. Fyrir hjá liðinu er m.a. Guðjón Valur Sigurðsson.
Serdarusic segir að ástæða þess að hann hafi hætt við að koma til Mannheim-liðsins sé sú að hann hafi ekki jafnað sig að fullu eftir aðgerð á mjöðm í vetur og hann treysti sér þar með ekki í slaginn á ný.
Hermt er að forsvarsmenn Rhein-Neckar Löwen hafi í hyggju að klófesta annaðhvort Ola Lindgren, þjálfara Nordhorn, eða Staffan „Faxa“ Olsson hjá Hammarby. iben@mbl.is