Í ÖLLUM breytingunum sem á landi og þjóð skella er ýmislegt sem staldra þarf við, áður en niðurrifið eða uppbyggingin hefst. Það sem einna helst hefur beðið hnekki er sjálfsmynd okkar sem þjóðar og í leiðinni er ímynd okkar út á við orðin bagaleg.

Í ÖLLUM breytingunum sem á landi og þjóð skella er ýmislegt sem staldra þarf við, áður en niðurrifið eða uppbyggingin hefst. Það sem einna helst hefur beðið hnekki er sjálfsmynd okkar sem þjóðar og í leiðinni er ímynd okkar út á við orðin bagaleg. Engar patentlausnir eru til staðar til að bregðast við þessu og ekkert lokasvar er hægt að finna, hvorki til þess að endurheimta sess okkar í samfélagi þjóðanna né til þess að auka hlut okkar á þeim vettvangi.

Lengi hefur verið haft fyrir satt að við Íslendingar séum framarlega á ýmsum sviðum og í tengslum við viðlíka þjóðernishyggju höfum við verið að hlaupa út undan okkur, oftar en ekki meira af kappi en forsjá. Sem dæmi um það er fjöldi skóla sem settir hafa verið á fót á framhaldsstigi fyrst og svo seinna á háskólastigi. Í ræðu og riti hefur verið tilhneiging til þess að hampa menntunarstigi þjóðarinnar og er það vel, þó er vafi í mínum huga um þennan „pólitíska vilja“ sem ræður um framtíð menntunar og áherslur þar á, hér heima á Fróni. Hvernig getum við staðið undir þeim væntingum sem lesa má á milli línanna í hátíðar- og tækifærisræðuhöldum landa okkar, bæði hér heima sem og í hinum stóra heimi? Er ekki kominn tími til þess að „opna veskið“ jafnmikið upp á gátt og ginin sem gaspra um ágæti menntunarinnar og hið háa menntunarstig þjóðarinnar?

Þetta eru eilítið viðamiklar spurningar en þó, ef grannt er skoðað, spurningar sem vert er að spyrja sig á öllum stigum þeirra umbreytinga sem þjóðin virðist vera að gangast undir. Víst er að hver telur sinn fugl fegurstan og sitt svar skynsamlegast að verða til framdráttar en undirritaðan langar til þess að leggja orð í belg og draga upp eilitla mynd sem gæti verið prýði þjóðar þegar fram í sækir.

Við Háskólann á Akureyri stundar undirritaður meistaranám um þessar mundir, bæði ML í lögfræði og svo L.LM í svonefndum heimskautarétti eða Polar Law. Að undanförnu hefur ýmislegt gengið á í samfélaginu og án þess að fjölyrða neitt um samfélagslegu breytingarnar allar er máski rétt að lýsa frá sjónarhóli námsmanns á landsbyggðinni þeim sjónarmiðum sem við hérna þurfum að berjast gegn. Einhverra hluta vegna er alltaf tilhneiging til þess að naga í hæla þeirra framsýnu aðila sem opna vilja nýjar gáttir í menntun og efni menntunar og einsett hafa sér að byggja upp og ekki síst viðhalda, háskóla á landsbyggðinni. Það má með nokkurri vissu ætla að niðurskurðar í menntamálum, líkt og á öðrum sviðum samfélagsins, eigi eftir að gæta og vísast er að allir eigi eftir að finna duglega fyrir því, landið um kring. Málsvörnin til að gæta þess að ofangreind svið Háskólans á Akureyri, þá einkum og sér í lagi Heimskautaréttarsviði skólans, verði hlíft við niðurskurði og útvíkkun þeirrar varnar í sókn með auknum fjárframlögum, er margslungin.

Fyrst ber að nefna að stöðu Íslands á alþjóðasviði ætti fyrst og fremst að tryggja og styrkja eftir landfræðilegri legu eylands okkar. Ísland er eitt átta ríkja sem nefnd eru heimskautaríki, nærtækast er að styrkja stöðu okkar og það verður ekki gert nema með fólki sem einsett hefur sér að sérhæfa sig í málefnum svæðisins.

Í öðru lagi telur undirritaður einsýnt að hagur Íslands sem heildar sé ekki í því fólginn að reyna að finna upp hjólið aftur og aftur, á það við öll svið samfélagsins, heldur að njóta ávaxta eldri ríkja og reyndari, t.d. með því að hafa yfirsýn yfir afmörkuð svið s.s. auðlindanýtingu og reglugerðarbáknin þar sem búið er að sannreyna að virknin er til staðar hjá öðrum. Velja og hafna hvað hentar séríslenskum veruleika en ekki að halda að við ein búum yfir svörunum og séum ein þess umkomin að semja reglur og lög þegar aðrir og okkur meiri eru búnir að lifa og hrærast í viðhlítandi veruleika mun lengur en lýðveldið Ísland hefur verið til.

Í þriðja lagi eru svo að ótalin tengslanet sem myndast við fjölþjóðlegt nám sem sótt er af Íslendingum og skiptinemum alls staðar af heimskringlunni og verður til þess að framganga þjóðarinnar reynist auðveldari þegar fram í sækir. Hafa verður í huga að jafnfámenn þjóð og við Íslendingar getum ekki staðið einir í stórsjó alþjóðasamskipta og, eins og áður segir, er besta vörnin sókn.

Lengi mætti telja upp ágæti laganáms sem rætur hefur í félagsfræðilegum og samfélagstengdum greinum án þess að það sé staður og stund til þess hér, en það er einsýnt að þröngsýni og áherslur í menntamálum á sviðum sem lúta eingöngu að afmörkuðum sviðum samfélags okkar hér á Íslandi verður einungis til þess að við eltum skottið á okkur út í hið óendanlega, fram að næsta hruni viðmiða okkar og gilda líkt og nú er raunin.

Því er ákall undirritaðs það að komandi stjórnvöld hafi það í huga að sprotanám líkt og Polar Law-námið við Háskólann á Akureyri er samfélaginu lífsnauðsynlegt, bæði heima fyrir sem og á sviði alþjóðasamskipta Íslands. Hafa ber líka í huga að höggva skal síst í veikar undirstöður menntunar því óháð öðru er afturhaldssemi á menntasviði ávísun á bakkgírinn á öllum öðrum sviðum samfélagsins.

Guðmundur Egill Erlendsson er meistaranemi í lögfræði og heimskautarétti við Háskólann á Akureyri