Eftir Grétar Júníus Guðmundsson
gretar@mbl.is
ÞRÝSTINGUR á þau ríki sem veita skattaskjól hefur aukist gríðarlega að undanförnu og allt útlit er fyrir að hann muni aukast enn frekar á næstunni. Ástæðan er eðlilega rakin til fjármálakreppunnar. Sum þeirra ríkja sem teljast til skattaskjóla eru nú þegar farin að veita upplýsingar sem þau gerðu ekki áður, samkvæmt frétt AFP -fréttastofunnar.
Efnahags- og framfarastofnunin í París, OECD, hefur verið leiðandi í því að hvetja til aukins gagnsæis í skattamálum. Þá voru þau skilaboð send út eftir fund leiðtoga þeirra Evrópuríkja, sem funduðu síðastliðinn sunnudag vegna undirbúnings að væntanlegum fundi leiðtoga 20 helstu iðnríkja heims í aprílmánuði næstkomandi, að taka þyrfti saman lista yfir þau ríki sem sýna ekki samstöðu í þessum málum. Markmiðið er að þrýsta á aukna samvinnu. Að auki hefur Bandaríkjastjórn orðið nokkuð ágengt í að fá upplýsingar frá svissneska bankanum UBS, sem tengjast grunsemdum um skattsvik.
Í fréttaskýringu CBS -sjónvarpsstövarinnar nýlega var því haldið fram að með aukinni aðild stjórnvalda að bönkunum mundu þessi mál taka nýja stefnu.