Hvatning Edda Heiðrún segir viðurkenninguna hafa komið nokkuð á óvart þar sem markaðsstarf fyrirtækisins á Íslandi sé lítið.
Hvatning Edda Heiðrún segir viðurkenninguna hafa komið nokkuð á óvart þar sem markaðsstarf fyrirtækisins á Íslandi sé lítið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Össur var valið markaðsfyrirtæki ársins árið 2008 en hjá fyrirtækinu er lögð áhersla á að sinna faglegu markaðsstarfi. Helstu markaðssvæði fyrirtækisins eru ytra þar sem mikil samkeppni ríkir á markaðnum og skiptir náið samband við viðskiptavini miklu máli.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Ég held ég geti sagt fyrir hönd allra í fyrirtækinu að það hafi verið afar ánægjuleg hvatning að fá þessa viðurkenningu og þá kannski sérstaklega á Íslandi þar sem við erum svo ósýnileg á íslenska markaðnum. Aðeins 0,1 prósent af heildarsölu fyrirtækisins fer fram á Íslandi og þar af leiðandi eyðum við ekki miklu í hefðbundið markaðsstarf hér á landi. Því er gaman að stjórn ÍMARK og aðrir félagar hafi fengið tækifæri til að sjá hvað við erum að fást við erlendis á okkar helstu mörkuðum,“ segir Edda Heiðrún Geirsdóttir, markaðsstjóri fyrirtækisins. Markaður fyrirtækisins skiptist á milli Bandaríkjanna og Evrópu auk þess sem starfsstöð í Kína sinnir vaxandi Asíumarkaði. Edda Heiðrún segir þetta hafa æxlast á þennan veg eftir að fyrirtækið fór á markað og stækkaði gríðarlega ört síðastliðin ár, bæði í gegnum fyrirtækjakaup og innri vöxt með nýjum framsæknum vörum. Þá séu ekki nema rúmlega 300 aflimaðir einstaklingar á Íslandi og þó svo að fyrirtækið framleiði ekki eingöngu stoðtæki séu vaxtartækifærin klárlega utan Íslands.

Ná þarf til margra aðila

„Ég leyfi mér að ætla að ástæður viðurkenningarinnar liggi í því að við sinnum faglegu markaðsstarfi til okkar viðskiptavina sem við skilgreinum í raun sem þann sem setur vöruna á sjúklinginn. Notandi varanna er því ekki aðalviðskiptavinurinn heldur reynum við að ná athygli stoðtækjafræðinga, bæklunarlækna, sjúkraþjálfara og þess háttar aðila. Þeir eru síðan oftast ekki þeir sem borga vöruna því tryggingarfélög, bæði tryggingarstofnanir og einkatryggingafélög greiða vöruna, þannig að markaðssetningin er gríðarlega flókið ferli þar sem ná þarf til margra aðila. Einnig sýndum við líka mælanlegan árangur af ákveðnum herferðum sem við höfum beint bæði að einstaklingum í stoðtækja- og stuðningstækjaiðnaðinum þar sem við sáum raunverulega söluaukningu eftir ákveðnar markaðsaðgerðir. Það sama á við um þjónustukannanir sem við höfum gert meðal okkar viðskiptavina og hafa komið vel út,“ segir Edda Heiðrún.

Gott samband við viðskiptavini

Markaðssetning fyrirtækisins byggist mikið á sambandi við viðskiptavininn og hjá fyrirtækinu starfar her sölumanna sem heimsækir viðskiptavini daglega. Af slíkum beinum samböndum myndast mikill ávinningur. Einnig eru notaðar hefðbundnar aðferðir eins og auglýsingar og almannatengsl en fyrirtækið hefur notið góðs af þeim íþróttamönnum sem nota vörur þess, til að mynda á Ólympíuleikum fatlaðra. Þá sækja starfsmenn sýningar auk þess sem hátæknivörur sem nýta til dæmis gervigreind og annað slíkt hafa fengið mikla fjölmiðlaumfjöllun í virtum miðlum út um alla heim og það hefur líka skilað sér í að byggja upp orðspor fyrirtæksins. Margra ára vinna liggur að baki því að byggja upp sambönd við viðskiptavini, fagaðila, skóla og félagastarfsemi.

Ákveðin tækifæri á Íslandi

Hvað varðar framtíðina segir Edda Heiðrún að áfram verði að beina athyglinni þangað sem ávinningurinn sé mestur en hins vegar séu tækifæri á Íslandi fyrir stuðningstækin, svo sem spelkur sem eru notaðar í forvarnarskyni. „Við erum með mjög góða slitgigtarspelku sem fékk umfjöllun nýlega á Læknadögum en þar voru kynntar frumniðurstöður íslenskrar rannsóknar sem sýndi að sú spelka hefur gefið mjög góða raun fyrir slitgigtarsjúklinga. Við erum mjög ánægð með að geta nýtt náin tengsl við notendur á Íslandi og erum til dæmis með marga aflimaða í vinnu hjá okkur við að prófa vörur sem hjálpar okkur að prófa og þróa ýmsar vörur áður en við förum með þær erlendis,“ segir Edda Heiðrún.

Sér líf fólks breytast

Góður starfsandi er innan fyrirtækisins og ánægja meðal starfsfólks þess sem hefur sýnt sig í starfsmannakönnun sem gerðar eru annað hvert ár. Þær hafa sýnt að mikill meirihluti starfsmanna er mjög stoltur af því að vinna hjá fyrirtækinu sem Edda Heiðrún segist halda að sé ekki síst vegna þess sem fyrirtækið er að gera og skila til viðskiptavinarins. Starfsfólk leggi mikið upp úr gildum fyrirtækisins, heiðarleika, hagsýni og hugrekki og sé svo heppið að sjá líf fólks breytast daglega.