[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞÁ ER það staðfest að U2-liðarnir Bono og The Edge vinna nú að gerð söngleiks um ofurhetjuna Spider-Man sem verður sviðsettur á Broadway í New York í febrúar á næsta ári.

ÞÁ ER það staðfest að U2-liðarnir Bono og The Edge vinna nú að gerð söngleiks um ofurhetjuna Spider-Man sem verður sviðsettur á Broadway í New York í febrúar á næsta ári. Söngleikurinn heitir Spider-Man: Turn off the dark og verður í leikstjórn Julie Taymor. Leikarinn Jim Sturgess er orðaður við hlutverk í söngleiknum en ekki er þó talið að hann muni fara með aðalhlutverkið.

Söngleikurinn verður frumsýndur 18. febrúar á næsta ári en forsýningar hefjast mánuði fyrr.

Þetta verður í fyrsta skipti sem liðsmenn U2 taka að sér að semja tónlist sérstaklega fyrir söngleik en ekki er vitað hvers kyns tónlistin verður. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem U2 semur lag fyrir ofurhetju, því eins og einhverjir muna eflaust samdi sveitin lagið „Hold me, Thrill me, Kiss me“ fyrir myndina Batman Forever þar sem Val Kilmer var í hlutverki Leðurblökumannsins.