Víkverji hefur alvarlega velt fyrir sér framboði til Alþingis. Víkverji kemur óspjallaður að pólitíkinni og honum verður ekki kennt um hrunið. Síðast en ekki síst telur Víkverji að hann hafi svo margt fram að færa.

Víkverji hefur alvarlega velt fyrir sér framboði til Alþingis. Víkverji kemur óspjallaður að pólitíkinni og honum verður ekki kennt um hrunið. Síðast en ekki síst telur Víkverji að hann hafi svo margt fram að færa. Víkverji telur það skyldu sína að taka þátt í uppbyggingarstarfinu og íhugar því að bjóða fram krafta sína. Víkverji fær ekki betur séð en að helmingur þjóðarinnar vilji á þing en er hugsi yfir því hvort það verður þverskurður þjóðarinnar eða bara þverskurður karlþjóðarinnar sem sest á Alþingi að loknum kosningum. Víkverji óttast að konum fækki á þingi og væri það miður. En það verða þó í öllu falli ekki eintómir fræðingar á þinginu. Nú eru það nemar, sjómenn, bændur, fjölmiðlafólk og kennarar sem eru áberandi í hópi þeirra sem vilja á þing. Víkverji kvíðir ekki lífinu þegar hann vaknar að morgni 26. apríl. Þá verða komnir til sögunnar 63 nýir, óspjallaðir þingmenn sem öllu munu bjarga. Eða hvað?

Víkverji reynir að spara eftir fremsta megni og ætlast til að það geri hið opinbera líka. Víkverji veltir þess vegna fyrir sér hvort hinir nýju og væntanlega aðsópsmiklu þingmenn muni láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum, að afnema lög um aðstoðarmenn þingmanna. Víkverji hefur aldrei skilið hvers vegna menn og konur sækja um vinnu, leggja hart að sér og stundum ómælda fjármuni í umsóknarferlið eða prófkjörin, en sjá sér svo ekki fært að sinna vinnunni hjálparlaust.

Víkverji hefur undrast margt sem frá Framsóknarflokknum kemur en ekkert jafnmikið og tillögur um flata 20% niðurfellingu allra íbúðalána. Sá sem skuldar 35 milljónir fengi 7 milljóna niðurfellingu, 4 milljónir yrðu felldar niður af 20 milljóna íbúðalánum og heil milljón af 5 milljóna króna láni. Víkverji veltir í þessu sambandi fyrir sér orðinu jafnræði.