Ýmsar nýjar upplýsingar komu fram í viðtali Sigmars Guðmundssonar við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld, sem full ástæða er til að rannsaka nánar og fylgja eftir.

Ýmsar nýjar upplýsingar komu fram í viðtali Sigmars Guðmundssonar við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld, sem full ástæða er til að rannsaka nánar og fylgja eftir.

Þar ber hæst þá ásökun Davíðs að einkahlutafélög í eigu þekktra manna, þar með talinna stjórnmálamanna, hafi fengið „sérstaka þjónustu í bankakerfinu“ og gengið hafi verið á svig við reglur um t.d. hljóðritun símtala þegar þessir aðilar áttu í hlut.

Seðlabankastjórinn sagði jafnframt að ekki hefði farið fram rannsókn á málum þessara félaga; þau hefðu verið sett til hliðar, sem væri fyrir neðan allar hellur. Sú gagnrýni beinist væntanlega að Fjármálaeftirlitinu, þótt ekki tæki Davíð fram hverjir hefðu brugðizt eftirlits- eða rannsóknarhlutverki sínu í þessu efni.

Nú liggur hins vegar beint við að sérstakur saksóknari afli upplýsinga, meðal annars hjá seðlabankastjóra, um viðskipti eignarhaldsfélaganna sem um ræðir. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál ef félög í eigu stjórnmálamanna hafa fengið aðra fyrirgreiðslu en tíðkaðist um almenna viðskiptavini bankanna.

Upplýsingar Davíðs um viðvaranir hans til stjórnvalda í aðdraganda bankahrunsins hljóta ennfremur að koma til skoðunar hjá rannsóknarnefnd Alþingis, sem á m.a. að kveða upp úr um ábyrgð stjórnvalda á því sem miður fór.

Sömuleiðis hlýtur að þurfa að rannsaka þær upplýsingar, sem seðlabankastjóri hefur um að brezk stjórnvöld hafi komizt á snoðir um að Íslendingar hafi tekið eignir út úr Kaupþingi í Bretlandi, fyrst 400 milljónir punda, þá 800 milljónir og síðar enn hærri tölur. Þessu er hafnað af hálfu fyrrverandi forsvarsmanna Kaupþings, en hið rétta verður að fást upp á borðið, ekki sízt ef úttektir á peningum stuðluðu að því að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi.

Eins og stundum áður undanfarna mánuði hefði framsetning Davíðs Oddssonar á hinum nýju upplýsingum mátt vera skýrari og ýtarlegri, þannig að almenningur fengi betri heildarmynd af umræðuefninu. Í Kastljóssviðtalinu var of mikið af hálfkveðnum vísum, sem vekja grunsemdir og gefa ástæðu til frekari athugunar, en augljóst er að seðlabankastjóri býr yfir meiri upplýsingum.

Sumar þær upplýsingar eru ef til vill þess eðlis að hann telur sig eingöngu geta veitt rannsakendum þær í trúnaði. Hins vegar má spyrja hvað komi í veg fyrir að hann geri t.d. opinbera skýrslu fjármálastöðugleikasérfræðingsins, sem hann handlék í viðtalinu, og fundargerðirnar, sem hann hafði þar jafnframt við höndina og las upp úr að hluta. Þessi gögn hefur fjölmiðlum ekki tekizt að fá frá Seðlabankanum.

Í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs í nóvember óskaði seðlabankastjóri eftir því að almenningur fengi sem mestar upplýsingar um aðdraganda bankahrunsins og taldi slíkar upplýsingar hafa verið of naumt skammtaðar. Er hann þá ekki reiðubúinn að leyfa almenningi að sjá að minnsta kosti plöggin, sem nú er á almannavitorði að eru til?