ÞAÐ kom ekki á óvart að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skyldi springa. Mótmælin að undanförnu hafa greinilega sett Samfylkinguna úr jafnvægi eins og við var að búast af flokki sem er samsettur úr mörgum ósamstæðum fylkingum.

ÞAÐ kom ekki á óvart að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skyldi springa. Mótmælin að undanförnu hafa greinilega sett Samfylkinguna úr jafnvægi eins og við var að búast af flokki sem er samsettur úr mörgum ósamstæðum fylkingum. Það er greinilegt að vinstri sósíalistarnir í Samfylkingunni hafa sett formanni og stjórn flokksins afarkosti og viljað slíta samstarfinu. Skot hafa flogið á milli flokkanna að undanförnu og vekja athygli ummæli Geirs Haarde um að Samfylkingin sé flokkur í tætlum en Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé bandalag skæruliðahópa. Ja hérna, ekki von á góðu undir þessum kringumstæðum. Niðurstaðan var því sú að Samfylkingin myndaði bráðabirgðastjórn með Vinstri grænum og með stuðningi Framsóknarflokksins undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem þannig verður fyrsta íslenska konan til að gegna þessu embætti. Akkilesarhæll vinstri manna er og hefur alltaf verið sundurlyndi í þeim hópi og hve illa þeim gengur að vinna saman. Auk þess hættir þeim til að eyða meira en þeir afla. Vinstri stjórnum fylgja gjarnan skuldasöfnun og skattahækkanir. Þetta er því að mínu mati slæmur kostur.

Mótmælendur sem hafa krafist afsagnar stjórnarinnar undir slagorðinu „Vanhæf ríkisstjórn“ hafa fengið óskir sínar uppfylltar. Það er vert að gaumgæfa þetta slagorð nánar og hvernig það er til komið. Erlend stjórnvöld og ráðamenn í fjármálaheiminum hafa furðað sig á því að enn skuli vera við völd og við stjórn FME og Seðlabanka fólk sem þeir telja að beri ábyrgð á bankahruninu. Það er viðtekin venja í flestum lýðræðislöndum að við slíkar aðstæður segi menn af sér án tillits til þess hvort þeir beri persónulega ábyrgð eða ekki. Með því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur nú hrökklast frá hefur þetta gerst að hluta til af sjálfu sér. Þá verður að gera ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn að gera upp við fortíðina og frestar því til landsfundar í mars og næstu kosninga.

Framsóknarmenn reyna að breiða yfir sína ábyrgð á bankahruninu með nýrri flokksstjórn og nýjum andlitum og Samfylkingin getur ekki alveg fríað sig allri ábyrgð og bankahrunið gerðist jú á þeirra vakt í síðustu ríkisstjórn og bankamálaráðherra þeirra hefur nú sagt af sér og vikið stjórn FME frá. Nýja stjórnin sem situr fram að kosningum er einhvers konar endureistur R-listi. Reiknað er með, miðað við skoðanakannanir, að vinstri flokkarnir nái hreinum meirihluta í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn muni tapa stórt, VG vinna stórsigur en aðrir flokkar standa nokkurn veginn í stað. Ný framboð og Íslandshreyfingin eru óskrifað blað en geta ef vel tekst til hjá þeim sett strik í reikninginn. Fylgið sveiflast til daglega og flokkar eflast og veikjast afar títt á þeim vettvangi. En menn skyldu hafa það í huga að skoðanakannanir og kosningar eru ekki hið sama og menn verða því að bíða niðurstöðu næstu kosninga til þess að fá rétta mynd af stöðunni. Ögmundur Jónasson tók við heilbrigðisráðuneytinu í nýju stjórninni og heldur væntanlega því embætti í þeirri ríkisstjórn sem við tekur eftir kosningar ef svo fer fram sem horfir.

Hermann Þórðarson er fyrrverandi flugumferðarstjóri.