<strong>Uppvakningar</strong> Þetta par var eins og klippt út úr einhverri hrollvekjunni.
Uppvakningar Þetta par var eins og klippt út úr einhverri hrollvekjunni. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EKKERT vantaði upp á hugarflugið hjá skrautlegum krökkum sem völsuðu um götur og verslunarmiðstöðvar um borg og bý í gær.

EKKERT vantaði upp á hugarflugið hjá skrautlegum krökkum sem völsuðu um götur og verslunarmiðstöðvar um borg og bý í gær. Eins og vera ber á öskudaginn mátti sjá árvissa félaga á borð við vampýrur, prinsessur, ofurmenni, sjóræningja, trúða, smábörn, nornir og hin óhugnanlegustu skrímsli ráfa um með úttroðinn poka í hönd.

Inn á milli glitti þó í áður óséð fyrirbæri. Þannig voru áberandi lopapeysuklæddir mótmælendur með kröfuspjöld á lofti, sum hver með vel þekktum áletrunum.

Einhverjir vegfarendur klóruðu sér í hausnum yfir því hversu margir vatnsgreiddir herramenn í stífpressuðum jakkafötum voru á ferð þar til upp rann ljós og menn áttuðu sig á því að þarna væru auðmennirnir sjálfir auðvitað lifandi komnir.

Almennt má segja að meira hafi borið á heimagerðum búningum og útlitslausnum í formi litríkrar andlitsmálningar en oft áður, hvort sem kreppunni er um að kenna eða ekki. Ekki var þó að sjá að kreppan hefði gert óskunda í nammihirslum fyrirtækja sem af örlæti létu af hendi rakna í skjóður og poka syngjandi furðuvera.

Forðasöfnun ungviðisins lagði líka skyldur á herðar foreldrum, sem mörgum var skipað í hlutverk einkabílstjóra til að sjá ungviðinu fyrir nauðsynlegum flutningi fyrirtækjanna á milli. ben@mbl.is