Framkvæmdastjóri Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri BM Vallár.
Framkvæmdastjóri Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri BM Vallár. — Morgunblaðið/Eggert
FRAMHALD á byggingu tónlistarhússins er sú frétt liðinnar viku sem stendur upp úr, að mati Þorsteins Víglundssonar, forstjóra BM Vallár.

FRAMHALD á byggingu tónlistarhússins er sú frétt liðinnar viku sem stendur upp úr, að mati Þorsteins Víglundssonar, forstjóra BM Vallár.

„Það hefur vantað góðar og jákvæðar fréttir fyrir byggingariðnaðinn í heild sinni að undanförnu,“ segir Þorsteinn. „Þetta er þannig frétt. Talað hefur verið um að 400 til allt að 600 manns gætu tengst þessu verkefni. Það er ekki slæmt að fá slíkan fjölda inn á vinnumarkaðinn í því atvinnuástandi sem nú er.“

Lækka vexti strax

Þorsteinn segist hins vegar vilja fá að heyra þá frétt, að vextir verði lækkaðir, og það myndarlega. „Það eru engar forsendur lengur fyrir því vaxtastigi sem við búum enn við hér á landi. Nánast má segja að samfélagið sé í sjálfsmorðshugleiðingum ef ætlunin er að halda því vaxtastigi, sem nú er, mikið lengur.“ Hann segir að Seðlabankinn eigi að horfa fram á við. Ef það sé gert út frá nýjustu mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs sé 6% verðbólguhraði miðað við hækkun vísitölunnar síðastliðinn mánuð. Verðbólgan sé 7% ef miðað sé við tvo síðustu mánuði. Það sé hins vegar staðreynd að áhrif útsöluloka séu langstærsti hlutinn af þeirri verðbólgu sem mælist nú. Án þeirra sé verðbólgan komin niður fyrir 2%.

„Það er alveg ljóst að verðbólgan er búin og á meðan gengið helst stöðugt eða jafnvel styrkist er ekkert sem breytir því. Tölur Hagstofunanr eru til vitnis um það, og því er ekki eftir neinu að bíða. Það er hægt að lækka stýrivextina og það á að gera það strax,“ segir Þorsteinn.

gretar@mbl.is