Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur
annaei@mbl.is
Okkar markmið er að ná heildstæðri skrá yfir þátt Norðurlandanna í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni í suðurhluta Afríku. Til þessa hefur hins vegar vantað allar upplýsingar um Ísland,“ segir Proscovia Svärd, verkefnisstjóri hjá Nordiska Afrikainstitutet í Svíþjóð.
Svärd, sem hefur dvalið hér á landi undanfarna daga, segir fyrstu heimsókn sína í október í fyrra ekki hafa bent til þess að um auðugan garð yrði að gresja. Stutt dvöl í Þjóðarbókhlöðunni leiddi ekki til stórra funda. „En svo kom í ljós að maður varð að þekkja betur til íslenskra fjölmiðla og hvaða stjórnmálastraumum þeir fylgdu til að vita hvar átti að leita,“ segir Svärd og kveður vinstrisinnuð blöð hafa sýnt baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni meiri áhuga en þau hægrisinnuðu.
Mikil virkni
Með aðstoð fólks á borð við Jónínu Einarsdóttur, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, og Margréti Einarsdóttur, verkefnisstjóra hjá Þróunarsamvinnustofnun, hafi henni gengið mun betur að safna upplýsingum en leit út í fyrstu. „Við viljum vita hvað var að gerast í þessum málum á Íslandi, hvort einhver mótmæli hafi átt sér stað og hvort einhver gögn um baráttu Íslendinga gegn aðskilnaðarstefnunni sé enn að finna.“Hún segir marga hafa reynst hjálplegir og viðtölin sem hún hafi átt við fólk frá því í október í fyrra bendi til þess að slík gögn eigi að leynast á landinu, þau hafi hins vegar e.t.v. ekki ratað inn í atriðisorðaskrár skjalasafna og það geri leitina óneitanlega erfiðari.
Nordiska Afrikainstitutet gegnir, auk rannsóknanna sem á vegum þess eru unnar, hlutverki skjala- og skráningarmiðstöðvar. Stofnunin vill því hafa sem ítarlegastar upplýsingar um hvar rannaskendur og aðrir áhugasamir geti leitað gagna á Norðurlöndunum.
Meðal þeirra sem Svärd hefur rætt við hér á landi eru einstaklingar sem voru virkir í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni. „Það var í raun mikið að gerast hér, til að mynda meðal stúdenta, og ég tel gott fyrir þá sem ungir eru í dag að sjá hvernig unga fólkið þá tók þátt í baráttunni þrátt fyrir íhaldssemi stjórnvalda.“