Samdráttur Landhelgisgæslan þarf að spara eins og aðrir landsmenn.
Samdráttur Landhelgisgæslan þarf að spara eins og aðrir landsmenn. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur sia@mbl.is „Samdráttaraðgerðir eru þannig að við reynum að skerða sem minnst í því sem lýtur að leit og björgun,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.

Eftir Sigrúnu Ásmundsdóttur

sia@mbl.is

„Samdráttaraðgerðir eru þannig að við reynum að skerða sem minnst í því sem lýtur að leit og björgun,“ segir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Þremur þyrluflugmönnum hefur verið sagt upp auk þess sem sagt hefur verið upp á skipunum og á skrifstofunni.

Georg segir jafnframt að leitast sé við að draga sem minnst úr viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar á neyðartímum. „Við erum að draga mjög saman í öllum rekstri Landhelgisgæslunnar,“ segir hann og að í raun sé minnstur samdráttur í fluginu. „Þessar aðgerðir hljóta náttúrlega að minnka getu okkar eitthvað til að þjónusta fólk, þannig að segja má að um leið skerði þær möguleika okkar á að þjónusta að einhverju leyti,“ segir Georg.

Landhelgisgæslan voni, rétt eins og aðrir landsmenn, að ástandið á landinu batni. „Það eru sex mánuðir þangað til þessar uppsagnir taka gildi og það getur ýmislegt breyst á þeim tíma. Landhelgisgæslan er mjög háð gengi íslensku krónunnar, gengisþróunin hefur mest að segja um gengi Landhelgisgæslunnar,“ segir Georg.

Hann upplýsir að uppsagnir flugmannanna séu minnsti hluti hagræðingaraðgerðanna hjá LHG. Þannig muni sjö skipstjórnarmenn hætta á árinu, þrír vélstjórar, tíu hásetar, fimm skrifstofumenn og aðrir vaktmenn.

„Þetta eru víðtækar aðgerðir en miða allar að því að sem minnst skerðing verði í þjónustu. Þess vegna er ekki fleiri en þremur flugmönnum sagt upp,“ segir Georg.