„ÉG er alæta á bækur og les hvað sem er, hef alltaf verið hrifin af bókum. Guð er svo góður að ég les gleraugnalaust og hef góða heyrn þótt ég sé orðin svona gömul. Ég lít líka bara vel út, en það eru náttúrlega komnar hrukkur í andlitið. Ég hef alltaf verið reglumanneskja og aldrei bragðað á víni eða tóbaki.“
Stofnandi kærleikssjóðs Sogns, réttargeðdeildar í Ölfusi, frú Rósa Aðalheiður Georgsdóttir, er níræð í dag, 26. febrúar. Hún er ekki vön að halda upp á afmælið sitt en í þetta skiptið hefur hún látið undan þrýstingi frá krökkunum sínum. Hún verður í rólegheitum heima hjá sér í dag, en á alveg eins von á að einhverjir af krökkunum hennar líti inn, svona þeim sem dettur það í hug. Aðspurð hvað hún eigi marga afkomendur segir hún það vera heilan helling, líklegast um 40 stykki.
Í tilefni afmælisins verður hún með opið hús laugardaginn 28. febrúar á Sautjándajúnítorgi númer 7, 4. hæð, íbúð 414 í Garðabæ frá kl. 15-19 og eru allir velkomnir. Rósa afþakkar allar gjafir en þeim sem vilja gleðja hana er bent á kærleikssjóð Sogns, reikning nr: 0101-26-000645.