Milljarðamærin Sigrún Edda Björnsdóttir og Jóhann Sigurðarson í hlutverkum sínum í verkinu. Leikmyndin er hönnuð af Grétari Reynissyni.
Milljarðamærin Sigrún Edda Björnsdóttir og Jóhann Sigurðarson í hlutverkum sínum í verkinu. Leikmyndin er hönnuð af Grétari Reynissyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is „MILLJARÐAMÆRIN var einu sinni ung venjuleg stúlka sem var hrakin burt úr bænum sínum með skít og skömm.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

„MILLJARÐAMÆRIN var einu sinni ung venjuleg stúlka sem var hrakin burt úr bænum sínum með skít og skömm. Hún gengur í gegnum þrengingar og á erfitt líf en giftist til fjár og verður mjög rík og valdamikil kona,“ segir Sigrún Edda Björnsdóttir um persónuna sem hún leikur í Milljarðamærin snýr aftur sem verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu á morgun.

„Þegar hún snýr aftur í gamla bæinn sinn er hún orðin ríkasta kona heims og getur gert allt sem hún vill. Bærinn er í niðurníðslu, skuldum vafinn og öll fyrirtæki á hausnum. Hún býðst til að dæla fjármagni í bæinn en með einu skilyrði og það er þetta skilyrði sem allt snýst um. Bæjarbúar standa frammi fyrir þeirri spurningu hverju þeir séu tilbúnir að fórna fyrir peninga og hvar mörk siðferðisins liggja. En mærin segir að allt sé falt í þessum táradal“ segir Sigrún. „Milljarðamærin er tákngerving hefndar og valds. Peningar og vald hafa spillt henni. En oft er það þannig að þeir sem ganga grimmilegast fram hafa orðið fyrir miklum sársauka sjálfir. Mannúðin á þá oft undir högg að sækja.“

Tragikómedía

Milljarðamærin snýr aftur er eftir svissneska leikskáldið Friedrich Dürrenmatt og var frumflutt árið 1956. Sigrún segir að verkið geti vel átt heima í íslenskum samtíma.

„Þegar ég las handritið fékk ég hroll, því það á svo ótrúlega vel við okkur í dag. Það fjallar um græðgi, hatur og ást og gæti verið um efnahagshrunið hér á landi.“

Leikgerð verksins gerði Kjartan Ragnarsson eftir þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. „Þetta gæti gerst hvar sem er og hvenær sem er. Það er reyndar svolítið mið-evrópsk stemning hjá okkur, lúðrasveit, stuð og drama og sýningin er mikið karnival. Svo er auðvitað ástarsaga í þessu, en í þorpinu hittir hún æskuástina sína sem er leikin af Jóhanni Sigurðarsyni,“ segir Sigrún og bætir við að þetta sé tragikómedía.

Einfætt og einhent

„Það hefur verið mjög krefjandi að takast á við þetta hlutverk. Þetta er fullorðin kona sem hefur fórnað líkama sínum fyrir peninga. Hún lenti í flugslysi við að selja vopn, þannig að hún er einfætt og einhent og gengur við staf. Líkami hennar er ónýtur en hún á svo mikið af peningum að hún hefur látið laga á sér andlitið fyrir tugi milljóna og gengið aðeins of langt í því eins og í öllu sem hún gerir. Það eru engar hömlur á neinu. Þrátt fyrir bæklun sína er hún á 12 cm háum hælaskóm, hún gefur ekkert eftir í að vera ótrúlega flott kona.

Hennar helsta skemmtun er að gifta sig. Í leikritinu giftir hún sig þrisvar sinnum og alltaf Hilmi Snæ, sem mér finnst ekki verra. En hann fer með hlutverk allra eiginmannanna.“

Útlit Milljarðameyjarinnar er sérstakt og búningarnir magnaðir að sögn Sigrúnar en þeir eru í höndum Filippíu Elísdóttur.

„Ég þarf að mæta í leikhúsið tveimur og hálfum tíma fyrir sýningu til að fara í förðun. Það voru pantaðar frá Bretlandi sérstakar teygjur sem allar stjörnur notuðu áður en lýtaaðgerðir komu til. Þær eru með límflipa sem eru settir á húðina og teygjurnar bundnar aftur fyrir höfuðið svo ég fæ andlitslyftingu. Við setjum teygjurnar ekki alveg á klassísku staðina svo þær gera ekki það besta fyrir andlitið á mér. Hún á að líta út eins og þessar sem fara yfir strikið. Kattarkonan er smá fyrirmynd auk Jókersins í Batman,“ segir Sigrún hlæjandi.

Milljarðamærin snýr aftur hefur verið sýnt áður hjá Leikfélagi Reykjavíkur, árið 1965 og þá undir titlinum Sú gamla kemur í heimsókn .

„Ég sá þá uppsetningu, þegar ég var lítil. Ég man brot úr sýningunni. Ég man að mér fannst Regína, [Þórðardóttir] sem lék þá Milljarðameyna, rosalega flott,“ segir Sigrún sem á eflaust eftir að leika það eftir.

Aftur í leikstjórastólinn

LEIKSTJÓRI verksins er Kjartan Ragnarsson en nokkuð er um liðið síðan hann leikstýrði síðast hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

„Ég leikstýrði þar seinast 1995 svo það er ánægjulegt að koma aftur.

Ég hef verið það upptekinn í Landnámssetrinu að ég hef ekki haft tíma til að þiggja þau leikstjórnartilboð sem mér hafa borist seinustu ár. En þetta árið fannst okkur skynsamlegt að ég tæki boði um að snúa aftur í leikhúsið, bæði sem aðhaldsaðgerð við rekstur Landnámssetursins og til að halda sambandi við mitt gamla fag,“ segir Kjartan spurður af hverju hann ákvað að snúa aftur í leikhúsið.

Lék sjálfur í því 1965

Kjartan vann leikgerð verksins með aðstoð annarra sem að sýningunni koma.

„Leikritið er næstum því með ólíkindum tímabært, það er svo tímabært að það hafa gengið um það sögur að við höfum ekki þorað að frumsýna það um jólin eins og stóð til, því það hefði orðið of mikið kjaftshögg á fólk, en það er ekki alveg sannleikurinn.

Þetta verk á miklu meira erindi við þjóðfélagið í dag en það átti fyrir ári þegar Magnús, leikhússtjóri LR, bað mig að leikstýra því og þá fannst mér það líka vera tímabært. En þetta mikla efnahagshrun er allt í verkinu,“ segir Kjartan og telur líklegt að höfundurinn hafi verið með eftirstríðsárin í Þýskalandi í huga þegar hann samdi verkið.

„Friedrich Dürrenmatt er eftirstríðsárahöfundur og hefur örugglega haft eymdina og peningaþörfina í Þýskalandi eftir stríð í huga þegar hann skrifaði þetta. Þá er allt í kaldakoli og honum hefur fundist samfélagið gera hvað sem er fyrir peninga.

Efni verksins er sígilt, um græðgi og peninga og hvað við erum veik fyrir þegar þeir eru annars vegar.“

Svo skemmtilega vill til að Kjartan lék sjálfur í uppsetningu Leikfélags Reykjavíkur á verkinu árið 1965. „Ég var þá á lokaárinu mínu í Leiklistarskólanum og lék morðingja sem hét Babyface, sú persóna er aðeins breytt í minni leikgerð.“