[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engan skyldi undra að í árferði eins og nú dragi mörg fyrirtæki saman seglin og reyni að minnka auglýsingakostnað. Athyglisvert er að bera saman tölur um birtingar í fjölmiðlum síðastliðin þrjú ár.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Við skráum allar auglýsingar í stærstu dagblöðunum í dálksentimetrum í þeim þrem blöðum sem nú eru gefin út. Einnig skráum við niður allar auglýsingar í sjónvarpi á þeim tíma sem við köllum kjörtíma eða „prime-time“ frá klukkan 18 til 24 og birtast á stærstu stöðvunum, Skjánum, RÚV og Stöð 2 en langmest af auglýsingatekjum fer þar í gegn,“ segir Jón Jóhann Þórðarson, birtingarstjóri ABS fjölmiðlahúss ehf., þekkingar- og þjónustufyrirtækis sem veitir fyrirtækjum ráðgjöf um markaðsstefnu, gerð auglýsingaáætlana og rannsóknir á sviði markaðsmála.

Ákveðnir geirar drógu saman

Hvað varðar birtingar í blöðum segir Jón Jóhann ákveðna geira eins og banka og bílaumboð hafa dregið verulega úr birtingum árið 2008. Bankarnir hafi almennt auglýst lítið í dagblöðum á síðasta ári og birtingar dregist algjörlega saman þegar bankahrunið varð. Sömu sögu er að segja um bílaumboðin en þegar krónan veiktist í kringum páska hættu þau nánast að auglýsa. Athyglisvert sé að skoða blöð nokkur ár aftur í tímann en þar séu bankar og bílar til skiptis á öllum fremstu síðunum og á baksíðu. Þessir geirar hafi því hingað til verið mjög stórir prentauglýsendur.

Kreppuvænar skjáauglýsingar

Aukning hefur orðið á skjáauglýsingum milli áranna 2007 og 2008 en þær hafa gjarnan verið svarið á krepputímum. „Sjónvarp er öflugasti og sterkasti auglýsingamiðillinn en forsvarsmenn fyrirtækja eru nú að uppgötva að þau þurfa ekki endilega að vera með dýrar og leiknar sjónvarpsauglýsingar. Í staðinn er hægt með skömmum fyrirvara að setja skjáauglýsingar inn og við höfum það forskot á Stöð 2 að auglýsingar hjá okkur birtast alls á fjórum stöðvum, Stöð 2, Stöð2-Extra og Stöð 2 Sport 1 og 2, sem hefur mælst gríðarlega vel fyrir,“ segir Sölvi Snær Magnússon, auglýsingastjóri sjónvarps 365.

Ódýrari grafískar auglýsingar

Þá segir Sölvi Snær fyrirtæki í auknum mæli nýta sér svokallaðar flash auglýsingar, hreyfiauglýsingar sem eingöngu eru gerðar í tölvu. Þær kosti sama í birtingu og dýrar leiknar auglýsingar en framleiðslukostnaður sé mun minni og fleiri fyrirtæki geti á þennan hátt nýtt sér sjónvarp til að auglýsa. Einnig hafi fyrirtæki í auknum mæli kostað þætti og þannig haldið merki sínu á lofti þegar þátturinn er kynntur. „Það hefur verið mjög vinsælt að tengja sig vandaðri, íslenskri dagskrárgerð og þessum stærstu erlendu þáttum. Fáir virðast framleiða dýrar auglýsingar núna og sjá þetta sem góða lausn. Með kostun líkt og skjáauglýsingar kaupir fyrirtækið ákveðinn pakka með mikilli tíðni birtinga,“ segir Sölvi Snær.

*Gröf voru unnin og birt með leyfi ABS fjölmiðlahúss ehf.