NÚ STANDA margir foreldrar í þeim sporum að afkomendur þeirra eru á leið frá Íslandi vegna efnahagsástandsins. Vel menntuðum Íslendingum standa ýmsar dyr opnar í mörgum öðrum löndum vegna EES-samstarfsins og samninga Norðurlandanna á milli. Flestir þessara ungu Íslendinga vilja gjarnan búa á Íslandi en því miður fórst íslenskum stjórnvöldum það fyrir að tryggja undirstöður efnhagslífsins. Það leiddi til þess að bankakerfið hrundi og með því töpuðust fleiri hundruð vel launuð störf. Einnig riða mörg önnur fyrirtæki til falls. Þrátt fyrir þessa kollsteypu þráast enn margir stjórnmálamenn við því að horfast í augu við raunveruleikann og tala um að byggja upp landið á nýjan leik með gömlum aðferðum.
Flestir íslenskir og erlendir hagfræðingar hafa ráðlagt íslenskum stjórnvöldum að fljótasta og öruggasta leiðin til að byggja upp traust á íslensku efnhagslífi er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru þegar aðstæður leyfa. Öflugir hagsmunaðilar í sjávarútvegi og landbúnaði berjast hins vegar eins og ljón gegn þessum hugmyndum því þeir telja að þar með muni þeirra sérhagsmunir verða fyrir borð bornir. Samt sem áður eru flestir á því að ef hagsmunir íslensku þjóðarinnar sem heild væru hafðir að leiðarljósi væri ekki spurning hvaða niðurstaða yrði ofan á.
En því miður eru það ekki alltaf hagsmunir almennings sem eru hafðir að leiðarljósi. Fyrir skömmu skrifaði Pétur Stefánsson verkfræðingur umhugsunarverða grein i Morgunblaðið þar sem hann færði rök fyrir því að við ættum ekki láta kalt hagsmunamat ráð för heldur heitar tilfinningar. Pétur segir orðrétt í greininni; „Það er ekki útilokað að þjóðin kunni frekar að kjósa að hafa aðeins minna á milli handanna en njóti í þess í stað frelsis og gera sín mistök við og við.“
Ég er algjörlega ósammála Pétri í þessum efnum. Það er merkilegt að flestir þeir sem halda þessu fram eru komnir yfir miðjan aldur og hafa komið sér ágætlega fyrir efnahagslega. Eiga flestir fasteignir og skulda lítið. Það er ekki unga fólkið með húsnæðislán og aðrar sligandi greiðslubyrðar sem heldur þessu fram. Það fólk mun í stríðum straumi mun láta kalt hagsmunamat ráða för. Það mun yfirgefa fósturjörðina af því að það getur ekki framleitt fjölskyldum sínum við þær aðstæður sem boðið er upp á Íslandi í dag.
Skynsamir menn læra af reynslunni og passa sig á því að gera ekki sömu mistökin tvisvar. Varla getur Pétur vonast til að við gerum sömu efnhagslegu mistökin og við höfum gert undanfarin 2-3 ár. Ekki nema að hann vilji að við missum vel menntaða iðnaðarmenn, frumkvöðla og fólk með sérhæfða háskólamenntun til útlanda.
Það er þetta fólk við þurfum til að byggja upp hér nýtt Ísland. Fólk með sérmenntun, fólk með hugmyndir og fólk á þeim aldri sem skapar verðmætin. Þá verða hér eftir börn, gamalmenni og fólk sem af ýmsum ástæðum getur ekki yfirgefið landið. Sú framtíðarsýn hugnast mér ekki. Látum kalt hagsmunamat en ekki heitar tilfinningar ráða för varðandi framtíðarstefnu íslensku þjóðarinnar í efnhagsmálum.
Andrés Pétursson, Kópavogi.