Lúðvík Börkur Jónsson
Lúðvík Börkur Jónsson
Lúðvík Börkur Jónsson vill að öllum foreldrum gefist kostur á ókeypis skólamáltíð handa börnum sínum: "Einstæðir foreldrar fá enn einhverjar tekjutengdar barnabætur þótt mánaðartekjur þeirra nemi milljón á mánuði og hjón með 10 milljónir í árslaun."
ÓKEYPIS skólamáltíðir eru hagsýsluráð sem er einfalt, auðskiljanlegt og sjálfsagt. Það jafnar út aðstöðumun milli barna, sem getur orðið óþolandi á atvinnuleysistímum.

Full niðurgreiðsla á hollum og góðum mat handa öllum börnum er ráð sem enginn misnotar og öruggt er að nýtist.

Kostnaður við fulla niðurgreiðslu handa öllum grunnskólabörnum er rúmlega einn milljarður og má lækka barnabætur til fólks með meðal- og hátekjur á móti þessum kostnaði með aukinni tekjuskerðingu.

Staðreyndin er nefnilega sú að skerðing barnabóta við hækkandi tekjur er óeðlilega lítil eins og staðan er í dag. Þannig eru einstæðir foreldrar enn að fá tekjutengdar barnabætur þótt mánaðartekjur þeirra nemi milljón á mánuði og hjón að fá tekjutengdar barnabætur með 10 milljónir í árslaun.

Hér þarf að grípa strax inn, auka tekjuskerðingu og nýta þá upphæð sem „sparast“ til að greiða niður hollan og góðan mat fyrir börnin. Barnabætur eru útgjaldapóstur upp á 10 milljarða þannig að aukin tekjuskerðing getur auðveldlega útvegað þennan milljarð. Þessi einfalda ráðstöfun verður til þess að ungir foreldrar, fátækir foreldrar, atvinnulausir foreldrar eða aðrir foreldrar freistast ekki til þess sparnaðarráðs að taka börnin sín úr mötuneytinu.

Gerðu þetta strax, Steingrímur.

Höfundur er formaður Félags um foreldrajafnrétti.