Ben Bernanke
Ben Bernanke
Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is NEFNDARMENN í aðaleftirlitsnefnd Bandaríkjaþings (e. House Oversight Committee) þjörmuðu mjög að Ben Bernanke seðlabankastjóra þegar hann sat fyrir svörum nefndarinnar í síðustu viku.

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson

gretar@mbl.is

NEFNDARMENN í aðaleftirlitsnefnd Bandaríkjaþings (e. House Oversight Committee) þjörmuðu mjög að Ben Bernanke seðlabankastjóra þegar hann sat fyrir svörum nefndarinnar í síðustu viku. Málefnið var þáttur seðlabankans í yfirtöku Bank of America (BoA) á Merrill Lynch-fjárfestingarbankanum í september á síðasta ári.

Svaraði Bernanke spurningum nefndarmanna um yfirtökuna í þrjár klukkustundir samfellt. Þar neitaði hann því að hann eða aðrir starfsmenn seðlabankans hefðu á nokkurn hátt haft einhver óeðlileg afskipti af yfirtöku BoA á Merrill. „Seðlabankinn kom að þessu máli af fyllstu ráðvendni í öllum viðræðum við Bank of America vegna kaupa fyrirtækisins á Merrill Lynch,“ sagði Bernanke frammi fyrir þéttsetnum fundarsalnum í þinghúsinu, samkvæmt frétt New York Times.

Segir í fréttinni að Bernanke hefði ekki tekist að sannfæra alla þingmenn eftirlitsnefndarinnar um að þáttur seðlabankans í yfirtökunni væri eðlilegur. Þingmenn repúblikana hefðu þó verið efagjarnari í hans garð en demókratar. Þrátt fyrir það segir í fréttinni að Bernanke njóti enn sem fyrr mikillar virðingar fyrir störf sín.