Angel Merkel
Angel Merkel
„VIÐ höfum kraftinn til að leiða landið okkar út úr kreppunni, sem er sú dýpsta sem Sambandsríkið hefur litið.

„VIÐ höfum kraftinn til að leiða landið okkar út úr kreppunni, sem er sú dýpsta sem Sambandsríkið hefur litið. Við höfum einnig kraftinn til að gera það öflugra en það var fyrir kreppuna,“ sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, við fréttamenn í gær. Kristilegir demókratar (CDU/CSU) í Þýskalandi tilkynntu í gær um stefnu sína fyrir komandi þingkosningar sem haldnar verða í september.

Stefnuskrá kristilegra demókrata leggur áherslu á lækkun skatta um 15 milljarða evra þrátt fyrir versta samdrátt í þýsku efnahagslífi í áratugi.

Búist við versnandi efnahag

Helsta hitamálið í komandi kosningabaráttu verður efling efnahagslífsins en þrátt fyrir nýlegar örvunaraðgerðir upp á samtals 70 milljarða evra er búist við að efnahagurinn taki 6% dýfu á árinu og atvinnuleysi fari vaxandi.

Sósíaldemókratar (SPD) sem nú sitja með kristilegum demókrötum í ríkisstjórn hafa komið illa út úr skoðanakönnunum nýlega og er kanslarakandídat þeirra, utanríkisráðherrann Frank-Walter Steinmeier, langt að baki Merkel í skoðanakönnunum.

Í niðurstöðum skoðanakönnunar ríkissjónvarpsins ARD í gær fékk SPD 14% atkvæða en CDU/CSU 42%.

Merkel hefur lýst yfir vilja til að taka upp ríkisstjórnarsamstarf við frjálslynda demókrata (FDP) sem stendur kristilegum demókrötum hugmyndafræðilega nær en núverandi samstarfsflokkur (SPD).