Lýdia Bergmann Þórhallsdóttir fæddist í Reykjavík 23. júlí 1921. Hún lést á Landakotsspítala 18. júní 2009. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhanna Bergmann Magnúsdóttir frá Fuglavík á Miðnesi, f. 1. mars 1892, d. 23. sept. 1964 og Þórhallur Valdemar Einarsson rennismiður, ættaður úr Eyjafirði, f. 16. nóv. 1885, d. 12. nóv. 1946 Systkini Lýdíu voru: Esther Jóhanna Bergmann, f. 1915, d. 1983 Nói Bergmann, f. 1916, látinn, Reynir Valdemar Bergmann, f. 1918, d. 1996, Sóley Magnea Bergmann, f. 1919, d. 1999, Jónína Margrét Bergmann, f. 1924, d. 1994 og Hilmar Bergmann, f. 1928, d. 2009 Sonur Lýdíu og Ásgeirs Magnússonar, f. 1914, d. 1987, er Magnús Bergmann Ásgeirsson, f. 14. maí 1945. Sonur hans og Elísabetar M. Haraldsdóttur er Ásgeir Bergmann, f. 22. janúar 1977. Hann á tvö börn með Birnu Guðjónsdóttur, þau Guðjón Mána, f. 4. febrúar 1997 og Karín Dúfu, f. 27. júní 1998. Lýdía lærði ung kjólasaum en vann síðan í 13 ár á ljósmyndastofu Lofts Guðmundssonar og frá 1960 sem gjaldkeri í Hampiðjunni í 38 ár eða til 77 ára aldurs, síðustu árin í hálfu starfi.

Útför Lýdíu fer fram frá Neskirkju í dag, 29. júní og hefst athöfnin kl. 11.

Það er í raun með ólíkindum hvað ein manneskja getur við andlát skilið eftir sig stórt skarð í lífi margra þó hún hafi hvorki verið hávær né fyrirferðarmikil.

Lýdía móðursystir mín var stór hluti af lífi mínu alla tíð. Fyrsta minningin er þriggja ára táta sem læðist fyrir allar aldir niður stigann með ískaldar tær og mikla togstreitu í brjósti. Ludda, fallega, góða frænkan mín svaf niðri í stofu og ég hafði loforð um að ég mætti skríða uppí hjá henni þegar ég vaknaði en skilyrði var að skilja snudduskömmina eftir og það var erfið ákvörðun, en að sjálfsögðu vó þyngra að fá að lúra hjá frænku. Minningarnar eru margar því öll sumur var Lýdía hér í sveitinni í 1–2 vikur, stundum lengur, hún og mamma voru ekki bara systur heldur líka góðar vinkonur og mikið var oft gaman að hlusta á þær rifja upp sögur af skrítnum kerlingum og skondnum körlum frá fyrri tíð.

Hana frænku mína munaði aldrei um að aðstoða aðra eða taka aukasnúning. Eftir að hún hætti að vinna gekk hún flesta daga frá Ásvallagötu og niður á Ægisíðuna, þessar göngur stundaði hún vel fram yfir áttrætt eða þar til sjónin og bakið gáfu sig. Þegar sjónin var orðin mjög slæm spurði ég hana einu sinni hvort hún væri ekki orðin rög við að ganga svona ein en svarið var: Ég passa bara að horfa niður fyrir tærnar á mér, stími svo áfram og er ekkert að glápa á fólkið í kring um mig. Þetta er góð persónulýsing á Lýdíu, aldrei að gefa eftir meðan möguleiki var á að halda sínu striki. Hún lét ekki mikið eftir sjálfri sér en henni var mikil gleði í að finna góðar og nytsamar gjafir handa sínum nánustu. Oft man ég að hún sendi mömmu efnisstranga til að sauma úr á sig og okkur systurnar. Lýdía lærði kjólasaum þegar hún var ung og var henni nokkur ástríða í að kaupa; lekker efni á hagstæðu verði; eins og hún orðaði það sjálf.

Bestu ár Lýdíu voru án efa þau ár sem ömmuhlutverkið tók allan hennar frítíma. Sonarsonurinn Ásgeir og hálfsystkini hans, Ásdís og Eggert Bjarni, voru það sem líf hennar snérist um og var hún óþreytandi að sinna þeim, fara í sumarbústaði og hlúa að þeim á allan hátt. Þessa umhyggju hefur Ásdís endurgoldið ríkulega með ástúð og umhyggju eftir að heilsu Lýdíu fór að hraka, og á Ásdís sérstakar þakkir skildar fyrir það.

Líf Lýdíu var ekki alltaf dans á rósum, en það var alltaf stutt í hennar sérstæða húmor, jafnvel síðustu dagana á Landakoti gat hún kætt okkur sem hjá henni vorum með skondnum setningum og jákvæðni sinni.

Hafðu þökk fyrir allt, elsku frænka, þó þú hverfir verða minningarnar ekki frá okkur teknar, þær skjóta margar upp kollinum þessa dagana og valda til skiptis brosi eða tárum.

Elsku Maggi, Geiri, Ásdís og fjölskilda missirinn er alltaf jafn sár jafnvel þó lífsganga ástvinar sé orðin löng. Allar mínar bestu óskir til ykkar.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú

munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

(Úr Spámanninum.)

Jóhanna B. Þorvaldsdóttir.