Einbeittir Gunnar Már Guðmundsson, Kristján Hauksson, Tómas Leifsson, Ingvar Ólason og Heiðar Geir Júlíusson með augun á knettinum.
Einbeittir Gunnar Már Guðmundsson, Kristján Hauksson, Tómas Leifsson, Ingvar Ólason og Heiðar Geir Júlíusson með augun á knettinum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kris@mbl.is RÓÐUR Fjölnismanna í Pepsi-deild karla þyngist enn eftir að botnliðið tapaði jöfnum leik gegn Fram í Grafarvoginum í gærkvöldi.
Eftir Kristján Jónsson kris@mbl.is

RÓÐUR Fjölnismanna í Pepsi-deild karla þyngist enn eftir að botnliðið tapaði jöfnum leik gegn Fram í Grafarvoginum í gærkvöldi. Lið Fjölnis, sem komist hefur í bikarúrslit síðustu tvö árin, er á botni deildarinnar með aðeins 4 stig. Lífseig er sú kenning að annað árið sé erfitt hjá nýliðum í efstu deild og Fjölnismenn virðast ætla að gefa þeirri kenningu byr undir báða vængi. Þeir léku vel á löngum köflum í fyrra og voru ekki í teljandi fallhættu. Eftir að hafa misst fjöldann allan af leikmönnum úr hópnum í vetur er ljóst að liðið er mun veikara í ár.

Þó hafa verið greinileg batamerki á leik liðsins; í síðari hálfleik gegn Keflavík og nú gegn Fram. En það hefur þó ekki skilað þeim neinum stigum og maður veltir því fyrir sér hvort liðið vanti svokallaða „match winnera“ á lélegri íslensku, þ.e.a.s. leikmenn sem geta ráðið úrslitum í jöfnum leikjum. Í því sambandi má nefna að Fjölnismenn voru ekki slakari aðilinn í leiknum í gærkvöldi. Þeir voru talsvert ákveðnari en Framarar fyrsta hálftímann eða svo auk þess sem liðið fékk byr í seglin eftir jöfnunarmarkið á 55. mínútu. Nokkuð vantaði hins vegar upp á að liðið skapaði sér almennileg marktækifæri þegar sótt var fram völlinn. Nú er kannski lykilatriði fyrir Ásmund þjálfara að hafa augun opin fyrir liðsstyrk þegar leikmannaglugginn opnar þann 15. júlí.

Léttir fyrir Framara

Sumarið hefur valdið stuðningsmönnum Fram nokkrum vonbrigðum eins og gefur að skilja. Ekki urðu mjög miklar breytingar á leikmannahópnum sem nældi í bronsverðlaun á Íslandsmótinu í fyrra en engu að síður hefur liðið átt í basli það sem af er sumri. Þessi úrslit eru því væntanlega talsverður léttir fyrir Framara sem með sigrinum tókst að þoka sér nokkuð langt frá fallsæti. Þeir eru nú með 11 stig eða sex stigum frá fallsæti.

Forvitnilegt verður að fylgjast með Frömurum í framhaldinu. Þeir unnu glæsilegan sigur á KR á dögunum en töpuðu í kjölfarið stórt fyrir nýliðum Stjörnunnar. Eftir stendur að tveir af þremur sigrum liðsins í deildinni hafa unnist upp á síðkastið og sjálfstraustið er væntanlega að aukast í Safamýrinni. Ekki ætti það að skemma fyrir að þjálfarinn, Þorvaldur Örlygsson, er væntanlegur til landsins með fulla stresstösku af menntun og þekkingu í knattspyrnufræðunum, en hann hefur misst af þremur síðustu leikjum liðsins þar sem hann er staddur erlendis ásamt fleiri þjálfurum.

mbl.is | Pepsideildin

Bein textalýsing frá leiknum

,,Höfum stundum misst þolinmæðina“

ALMARR Ormarsson tryggði Frömurum dýrmætan útisigur á Fjölni í Pepsí-deildinni í gærkvöldi. Almarr kom inn á sem varamaður í lið Fram eftir rúmlega klukkutíma leik og þakkaði traustið með því að skora sigurmarkið á 78. mínútu: ,,Já, mér fannst við nú vera betra liðið en þetta var reyndar leikur þar sem sigurinn gat dottið hvorum megin sem var. Mikill baráttuleikur en mér fannst við eiga skilið að fá þrjú stig,“ sagði Almarr í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum.

Hann bætti því við að leikurinn hafi kannski ekki boðið upp á mörg marktækifæri: ,,Við reyndum að sækja og það skilaði tveimur mörkum. Bæði liðin fengu eitthvað af færum og þetta er alltaf spurning um að nýta þau. Við náðum alla vega að nýta tvö að þessu sinni,“ sagði Almarr sem er alveg glettilega líkur föður sínum Ormari Örlygssyni í hreyfingum á knattspyrnuvellinum. Fram hefur ekki sýnt mikinn stöðugleika í sumar en hvað þarf liðið að gera til þess að bæta úr því að mati Almars? ,,Ég veit það svo sem ekki. Kannski þurfum við fyrst og fremst að koma hausnum í lag; að hafa trú á því að við getum þetta. Við getum alveg spilað fótbolta, við sýndum það til dæmis á móti KR. Við erum gott lið en það hafa komið leikir inn á milli þar sem við höfum verið gersamlega á hælunum. Ég veit ekki hvort þetta sé skortur á sjálfstrausti eða eitthvað annað. Mér hefur alla vega fundist skorta sjálfstraust á köflum til þess að spila boltanum á milli manna. Við höfum stundum misst þolinmæðina þegar gengur illa að spila upp völlinn og höfum þá fallið í þá gryfju að negla boltanum ítrekað fram völlinn. Þegar við spilum boltanum þá koma marktækifærin og það sýndi sig í þessum leik í kvöld.“ kris@mbl.is

Fjölnir – Fram 1:2

Fjölnisvöllur, Pepsi-deild karla, 9. umferð, sunnudag 28. júní 2009.

Skilyrði : Smá rigningarúði og logn. Völlurinn virtist góður.

Skot : Fjölnir 8 (2) – Fram 9 (5).

Horn : Fjölnir 4 – Fram 7.

Lið Fjölnis : (4-4-2) Mark : Hrafn Davíðsson. Vörn : Gunnar Valur Gunnarsson, Ásgeir Aron Ásgeirsson, Ólafur Páll Johnson, Magnús Ingi Einarsson. Miðja : Tómas Leifsson, Heimir Snær Guðmundsson (Geir Kristinsson 28.), Vigfús Arnar Jósepsson (Kristinn Freyr Sigurðsson 75.), Illugi Þór Gunnarsson (Aron Jóhannsson 86.). Sókn : Gunnar Már Guðmundsson, Jónas Grani Garðarsson.

Lið Fram : (4-4-2) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Daði Guðmundsson, Kristján Hauksson, Auðun Helgason, Samuel Tillen. Miðja : Paul McShane, Ingvar Þór Ólason (Joe Tillen 67.), Halldór Hermann Jónsson, Heiðar Geir Júlíusson. Sókn : Ívar Björnsson, Hjálmar Þórarinsson (Almarr Örlygsson 62.).

Dómari : Kristinn Jakobsson – 3.

Áhorfendur : 929.

Þetta gerðist í Grafarvoginum

0:1 43. Samuel Tillen tók aukaspyrnu hægra megin og sendi boltann alveg inn að marklínu þar sem Ívar Björnsson kom aðvífandi og skallaði knöttinn auðveldlega í netið.

1:1 55. Tómas Leifsson tók hornspyrnu vinstra megin og sendi boltann á fjærstöngina þar sem Ásgeir Aron Ásgeirsson skallaði boltann til Jónasar Grana Garðarssonar sem potaði honum í markið úr markteignum.

1:2 78. Tillen-bræður léku upp vinstri kantinn og Joe sendi frábæra sendingu fyrir markið. Almarr Örlygsson renndi sér í boltann og skoraði af stuttu færi.

Gul spjöld:

Ásgeir Aron (Fjölni) 4. (brot), McShane (Fram) 19. (brot), Ingvar (Fram) 60. (brot), Gunnar Valur (Fjölni) 72. (brot), Samuel Tillen (Fram) 82. (brot), Joe Tillen (Fram) 90.(tuð).

Rauð spjöld:

Enginn.

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Ásgeir Ásgeirsson (Fjölni)

Tómas Leifsson (Fjölni)

Heiðar Geir Júlíusson (Fram)

Samuel Tillen (Fram)

Halldór Hermann Jónsson (Fram)

Ívar Björnsson (Fram)

* Jónas Grani Garðarsson úr Fjölni lék sinn 100. leik í efstu deild. Hann á hinsvegar að baki 302 leiki í öllum deildum Íslandsmótsins.

* Ívar Björnsson , markahæsti maður Fram í úrvalsdeildinni í fyrra, náði loks að skora þegar hann kom liðinu yfir gegn sínu uppeldisfélagi.

* Jón Sveinsson stýrði Fram-liðinu í þriðja leiknum í röð í fjarveru Þorvaldar Örlygssonar sem er erlendis að afla sér þjálfaramenntunar.

„Getum ekki gefið ódýr mörk“

„MÉR fannst við eiga meira skilið, sérstaklega eftir að við jöfnuðum leikinn. Þá fannst mér leikurinn vera frekar okkar heldur en þeirra. Okkur tókst þá að setja þrýsting á þá og skapa okkur einhver hálffæri allavega. Mér fannst við hafa yfirhöndina í þeim kafla en því miður dugði það ekki til að skora og auðvitað er maður svekktur yfir því,“ sagði Magnús Ingi Einarsson, fyrirliði Fjölnis, eftir að hafa beðið lægri hlut gegn Fram, 2:1, í Grafarvoginum í gærkvöldi. Batamerki virðast vera á Fjölnisliðinu miðað við síðustu tvo leiki þó svo að stigin séu ennþá ekki nema fjögur:

„Það hefur ýmislegt jákvætt verið í okkar leik í síðustu tveimur leikjum. Við getum náttúrlega ekki leyft okkur að gefa ódýr mörk trekk í trekk. Það er alltaf erfitt að koma til baka eftir svoleiðis, sérstaklega þegar liðið er ekki upp á sitt allra besta,“ sagði Magnús og hann kvíðir ekki framhaldinu þótt liðið sé í botnsæti deildarinnar: „Við þurfum að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á í síðustu tveimur leikjum. Við þurfum jafnframt að stoppa í götin og hætta að gefa svona mörk í ljótari kantinum. Ef við gerum það þá hef ég svo sem engar sérstakar áhyggjur af þessu. Þá förum við að hala inn stig,“ sagði Magnús í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. kris@mbl.is