Gunnar Þórðarson Troðfullt var á tónleika Sinfóníusveitar Íslands á föstudag þegar leikin voru 18 lög úr höfundarverki Gunnars Þórðarsonar.
Gunnar Þórðarson Troðfullt var á tónleika Sinfóníusveitar Íslands á föstudag þegar leikin voru 18 lög úr höfundarverki Gunnars Þórðarsonar. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verk eftir Gunnar Þórðarson. Söngvarar: Dísella Lárusdóttir, Kristján Kristjánsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Páll Rósinkranz, Margrét Eir Hjartardóttir, Ragnar Bjarnason og Svavar Knútur Kristinsson. Sinfóníuhljómsveit Íslands u. stj. Benjamins Pope. Föstudaginn 25. júní kl. 19.30.

Fullfermi var á „Söngbók Gunnars Þórðarsonar“ sl. föstudag á síðustu sinfóníutónleikum vertíðarinnar 2008-09, er voru endurteknir næsta dag. Þurfti því enginn að velkjast í vafa um lýðhylli verðugasta arftaka Oddgeirs Kristjáns, Sigfúsar Halldórs og Jóns Múla á undanförnum 45 árum.

Á boðstólum voru 18 lög Gunnars frá öllu tímabilinu, útsett af Haraldi V. Sveinbjörnssyni (5 lög), Hrafnkatli Orra Egilssyni (6) auk eins í sameiginlegri úttekt Haralds og Magnúsar Ingimarssonar. Sex voru útsett af höfundi sjálfum og sízt með þeim lökustu, enda eftir því höggvandi að fimm voru höfð í fyrri hluta áður en þyngra rokkbítið tók við, þ.ám. glæsileg sinfónísk útfærsla á Vesturgötu .

Hvor hálfleikur hófst með ósungnum forleik; Nocturne í litríkri strengjaútsetningu Szymons heitins Kuran með hörpu, og eftir hlé Tilbrigði um fegurð (fyrir Fegurðarkeppni Íslands ef rétt er munað) í einni af beztu útsetningum Hrafnkels þetta kvöld. Síðan tóku við sungin lög úr fremstu röð íslenzkra dægurlaga, er öll hafa fyrir löngu hafizt upp í sígrænu eðaldeildina. Oft með aðstoð ágætra söngtextaskálda, á við Óla Hauk Símonarson, Ólaf Gauk og Þorstein Eggertsson, en umfram allt fyrir lagræna töfra eins frjóasta lagasmiðs sem þjóðin hefur alið.

Góð lög eru óspillandi og bjóða nánast upp á hvaða meðferð sem er, enda veit hver meðalútsetjari hversu örvandi virkilega „sterkar“ melódíur eru til frekari vinnslu. Það hefur ævinlega reynzt marktækasti mælikvarði á laggæðum hvað leitt hafa til margra og ólíkra gerða í höndum seinni manna, og eru beztu lög Lennons & McCartneys meðal fremstu dæma um það.

Flutningur SÍ var firnagóður og auðheyrt að Benjamin Pope var hárréttur maður á stjórnpalli. Sama átti við um einsöngvarana. Þó að trúbadúrrödd KKs ætti betur við smærri og „intímari“ aðstæður, komst hann þokkalega frá sínu. Hinir stóðu sig oftast með afbrigðum vel, enda þótt veikustu nótur dyttu stundum út – hugsanlega sumpart fyrir misjafna magnaravörzlu. Sú tæknihlið bar sömuleiðis aðalábyrgð á groddalegri ofmögnun trommusetts og rafbassa í seinni hluta, er átti stundum til að keyra heildina í mask, þó að dynkirnir hafi á hinn bóginn greinilega hleypt meirihluta áheyrenda í hörkustuð eftir sjóðheitum undirtektum þeirra að dæma.

Það fannst mér hins vegar synd. Ólíkt flestum íslenzkum dægurlögum seinni áratuga standa lög Gunnars Þórðarsonar fyllilega undir vandaðri hljóðmynd en þessari, er minnti í verstu tilvikum á rokkfrumraunir SÍ í Laugardalshöll á fyrri árum. Til bætandi mótvægis var hugmyndarík og smekkleg lýsing ljósameistarans, er vel hefði mátt nefna í tónleikaskrá.

Ríkarður Ö. Pálsson