Eftir Kristján Jónsson
og Víði Sigurðsson
sport@mbl.is
Jóhanna bætti sinn besta árangur í langstökkinu um 7 sentímetra en hún stökk 6,09 í Sarajevo um fyrri helgi og vann langstökkskeppnina í Evrópukeppni landsliða í 3. deild.
Árangur Jóhönnu er 14 sentímetrum frá Íslandsmeti Sunnu Gestsdóttur sem hún setti á Möltu árið 2003. Miðað við árangur Jóhönnu að undanförnu þá virðist met Sunnu vera í stórhættu. Bryndís Hólm á næst lengsta langstökk íslenskrar konu en hún stökk 6,17 í Edinborg árið 1983.
Keppendur í langstökkinu voru 32 en Gautaborgarleikarnir eru fjölmennasta frjálsíþróttamót sem haldið er á Norðurlöndum ár hvert með samtals 3.500 keppendum frá 20 löndum.
Í þrístökkinu jafnaði Jóhanna sinn besta árangur, sem hún náði í Sarajevo um fyrri helgi. Hún er 34 sentímetrum frá 12 ára gömlu Íslandsmeti sem Sigríður Anna Guðjónsdóttir setti í Óðinsvéum og stökk þá 13,18 metra. Jóhanna stökk 10 sentímetrum lengra en Kajsa Levin frá Svíþjóð sem varð í öðru sæti.